Segjum að þú sért eigandi og framkvæmdastjóri lítillar sjoppu. Starfsmaður í sjoppunni stendur sig ekki nógu vel þannig að þú neyðist til að segja honum upp og ráða nýjan, svona eins og gengur og gerist í sjoppubransanum. Nýi starfsmaðurinn stendur sig því miður ekki heldur vel. Hann er dónalegur, mætir reglulega seint og skortir þjónustulund sem er nauðsynleg í afgreiðslustarfi sem þessu.
Þú missir loks þolinmæðina og ákveður að veita starfsmanninum tiltal. Þið setjist niður saman eftir martraðakennda vakt þar sem hann var með allt á hornum sér, var dónalegur við viðskiptavini, klúðraði nokkrum ísum og enn fleiri pylsum ásamt því að taka sér allt of langar pásur. Eftir að þú telur upp það sem miður hefur farið undanfarna daga bregst hann ókvæða við.
Í fyrsta lagi vill hann ekki kannast við að hafa gert neitt rangt, heldur kennir forvera sínum um allt sem miður hefur farið í sjoppunni undanfarna daga. Ef pylsa datt á gólfið var það forvera hans að kenna vegna þess að hann gekk svo illa frá pylsunum á sínum tíma. Og ef íssósan sullast út um allt hefði forverinn átt að fyrirbyggja að slíkt gæti gerst.
Hann tekur semsagt ekki ábyrgð á neinu, þrátt fyrir að hafa gert ótal augljós mistök. Vissulega stóð forveri hans í starfi sig illa, svo illa að hann hrökklaðist úr starfi en mistökin sem hafa átt sér stað síðustu daga skrifast eingöngu á klaufaskap, vankunnáttu og metnaðarleysi nýja starfsmannsins.
Það er því augljóst hvað þú þarft að gera til að tryggja framtíðarrekstur sjoppunnar: Alls ekki neitt. Þú semur við hann til allavega fjögurra ára, krossleggur fingurna og vonar að hann standi sig betur…
Eða hvað?
Dæmisagan hér fyrir ofan fjallar hvorki um rekstur lítilla fyrirtækja né mannauðsstjórnun. Hún fjallar um stjórnmál og það sem stendur þeim fyrir þrifum. Ég veit ekki hversu oft stjórnmálafólk hefur svarað gagnrýni með því að benda á forvera sinn undanfarið en ég hætti að telja þegar ég var byrjaður að upplifa grátgirni, truflaða tilfinningastjórnun og persónuleikabreytingar.
Þetta bull hefur í alvöru staðið í vegi fyrir mikilvægum málum undanfarin ár og það er ekkert sem bendir til þess að ástandið batni. Úr verður menning sem elur upp pólitíska lúsera sem þora ekki að taka ákvarðanir af ótta við dóm kollega sinna, sem taka að öllum líkindum við valdakeflinu innan fárra ára.
Tökum dæmi:
- Það þarf að byggja nýjan Landspítala og þá eru tekin tíu ár í að rífast um hvar hann á að vera. Þegar það hefur loksins verið ákveðið og heilbrigðisráðherra er varla byrjaður að naga siggið úr lófum sínum eftir fyrstu skóflustunguna er byrjað að velta upp nýjum valkostum. Rifrildið hefst svo á ný.
- Allt bendir til þess að milljón ferðamenn séu væntanlegir til landsins. Í staðinn fyrir að hefja tafarlaust einhvers konar gjaldtöku og sjá til þess að túristarnir geti migið og skitið einhvers staðar og gengið um án þess að troða niður ómetanlegar náttúruperlur, þá er rifist um hvernig slík gjaldtaka á að fara fram. Á meðan gerist auðvitað ekki neitt og ringlaðir ferðamenn greiða 400 kall fyrir kranavatn á Hótel AdaM og umgangast Reynisfjöru eins og strönd á Tenerife.
- Fjármálakerfið hrynur og enginn treystir sér til að reisa íbúðarhúsnæði í nokkur ár. Eftirspurn eykst umfram framboð, leiguverð rýkur upp í takt við húsnæðisverð og allt í einu á heil kynslóð í stökustu vandræðum með að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Í staðinn fyrir að hjóla í málið er rifist um gölluð úrræði á Alþingi. Á meðan leggur fulltrúi kynslóðarinnar sem á ekki neitt fram tillögu um að nýta lífeyrissjóðskerfið til að fjármagna íbúðakaup en hugmyndin varð ekki til í Laufskálarétt eða á einhverju þrotuðu flokksþingi þannig að hún kemur ekki til greina.
Ef það er eitthvað sem ég sakna meira en auðmýkt á Alþingi þá er það framtíðarsýn. Í haust verður vonandi kosið og flokkurinn sem sýnir okkur hvernig verður að búa á Íslandi næstu 10, 20 — helst 50 ár vinnur.
Ég veit ekki með ykkur en ef ég heyri einn stjórnmálamann í viðbót réttlæta afglöp sín með gjörðum pólitískra andstæðinga þá fer ég inn á Alþingi og bróka hvern einasta stjórnmálamann sem ég sé svo illa að það sem verður eftir af nærbuxunum þeirra þarf að koma fram í hagsmunaskráningu Alþingis.
Og ég byrja á þér, Ásmundur Einar.