Ég setti mig í samband við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, fyrir rúmlega mánuði og sagði honum að ég gæti ekki skilað pistli næst þegar kæmi að mér í röðinni – það væri búið að vera bölvað álag á mér, ég væri orðinn lúinn og hugmyndabrunnurinn svo gott sem þurrausinn, að minnsta kosti í bili. Ég þyrfti að fá ofurlítið næði til að taka á móti frelsinu í líf mitt og umfaðma það.
Ég sagðist gera mér grein fyrir því að þetta væri líklega ekki það sem lesendur vildu, ég hefði jú skrifað pistla hjá þeim manna lengst, hefði með skrifum mínum undanfarin ár svo gott sem endurskilgreint pistlaformið og að það væri eflaust erfitt fyrir þau á Kjarnanum, sem og fyrir dygga lesendur hans, að sætta sig við – eða yfirhöfuð finna – jafnhæfan staðgengil.
„Ertu orðinn eitthvað ruglaður?“ spurði ritstjórinn.
Ég reyndi að fullvissa hann um að það væri engin ástæða til að örvænta eða æsa sig. Þetta yrði nú ekki svo mikið mál – það hefði margsýnt sig að áhuginn á þátttöku í lýðræðislegri umræðu á Íslandi væri feikilegur og ég hefði gert mitt til að plægja jarðveginn fyrir hvern þann sem þau fengju til að hlaupa í skarðið.
„Um hvað ertu að tala? Viltu sleppa pistlinum í
næsta mánuði? Af hverju sendirðu mér ekki bara tölvupóst og lést mig vita? Við erum
með fullt af fólki á standbæ sem mundi vilja komast að.“
Ritstjórinn var orðinn pirraður. Ég sýndi því skilning. Hann var auðvitað að horfa fram á að missa spón úr aski sínum. Þetta hafði komið alveg flatt upp á hann.
„Og má ég minna þig á að þú sagðir nákvæmlega það sama síðast, en endaðir á að senda okkur samt pistil tveimur dögum fyrir birtingu þegar við vorum búin að redda öðrum í staðinn og heimtaðir að við birtum hann af því að hann væri svo mikil negla – pistil sem fékk sama og engan lestur. Getum við treyst því að þú farir ekki að púlla eitthvað svona prímadonnukjaftæði aftur?“
Ég hló góðlátlega og skellti á án þess að kveðja. Ég geri það yfirleitt þegar ritstjórinn þarf aðeins að kæla sig – ég kann lagið á honum eftir allan þennan tíma.
„WTF??“ stóð í sms-skilaboðunum sem ég fékk frá honum nokkrum sekúndum síðar. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem hann biður mig að sækja World Trade Forum fyrir miðilinn, en mér dugar pistlahöfundarhlutverkið og þess vegna hef ég alltaf svarað með einföldu „Nei, takk samt :)“.
Ég heyrði svo ekki aftur í ritstjóranum fyrr en seint í gærkvöldi. Ég hafði farið að ókyrrast um miðjan mánuð þegar ég áttaði mig á því að ég vissi ekkert hver mundi skrifa pistil í minn stað eða um hvað sá pistill yrði. Hver vissi nema þar mundu birtast skoðanir sem yrðu jafnvel á skjön við þær sem ég hefði alltaf haldið á lofti. Eftir dálitla yfirlegu komst ég að því að með því yrði lesendum gerður mikill óleikur, enda vissi ég sem var að þeir vildu skrif eins og mín – mér hafði ítrekað verið hrósað fyrir þau. Ég kann einfaldlega að skrifa pistla, en það kunna aðrir síður.
Þannig að ég hringdi í ritstjórann undir miðnætti og sagði að í ljósi óvissunnar sem ríkti um næsta pistil og efni hans væri ég byrjaður á einum til birtingar í dag til að höggva á hnútinn.
„Þú ert nú meiri djöfulsins fávitinn,“ hreytti ritstjórinn út úr sér og ég sá hann fyrir mér brosa mildilega. Ég hef alltaf haft gaman af því hvað fjölmiðlamenn eru kjaftforir þegar þeir lýsa yfir ánægju sinni með eitthvað.
„Við erum komin langleiðina með að velja pistil í þetta pláss – við héldum samkeppni á meðal lesenda og allt! Eigum við bara að henda öllu því efni fyrir enn eina langlokuna frá þér?“
Ég svaraði játandi, en bætti við að í þetta skipti væri reyndar óvíst hvort ég næði að klára pistilinn og að ég áskildi mér rétt til að hætta í honum miðjum.
„Ertu að fokking grínast? Þú sagðir þetta líka síð