Einu sinni var ég í rokkhljómsveit sem kom reglulega fram á tónleikastöðum í miðborg Reykjavíkur. Á sama tíma starfaði ég á dagblaði sem er ekki lengur til og fáir sakna. Einhvern tíma hélt hljómsveitin mín tónleika á Grand rokki og til að láta fólk vita af því þurfti að hengja upp plaköt og senda tilkynningar á fjölmiðla. Þetta var áður en Facebook safnaði öllum landsmönnum saman í miðlægan gagnagrunn sem hefur í seinni tíð auðveldað þessa vinnu umtalsvert.
Í krafti aðstöðu minnar skrifaði ég orðsendingu um væntanlega tónleika og birti á áberandi stað í aftari hluta blaðsins. Það var svo fullt út úr dyrum á tónleikunum og við skrifuðum í kjölfarið undir útgáfusamning við amerískan plöturisa, náðum fjórum lögum á topp Billboard-listans og eyddum næstu árum í tónleikaferðalög heiminn. Djók. Í alvöru talað, þá má eflaust finna alvarlegra dæmi um misnotkun á íslenskum fjölmiðli. Ég braut engu að síður siðareglur Blaðamannafélags Íslands þar sem kemur meðal annars fram að blaðamanni beri að varast að lenda í hagsmunaágreiningi.
Talandi um hagsmuni. Þegar mbl.is var með beina útsendingu frá opnun kosningaskrifstofu Davíðs Oddssonar um daginn fannst mér vefurinn fara óvænt yfir ákveðið strik. Ég hef lengi klórað mér í höfðinu yfir Morgunblaði Davíðs Oddssonar en fundist tónninn sem sleginn er á mbl.is frábrugðinn þeim sem ómar til dæmis í Reykjavíkurbréfum prentaða móðurskipsins. Það kom allavega ekki á óvart þegar hanskinn var tekinn upp fyrir forsetaframbjóðandann Davíð í leiðara Moggans um daginn — sama Mogga og birti fjórar blaðsíður af sagnfræðilegum skemmtistaðasleik Hannesar Hólmsteins og ritstjórans viku áður en verst geymda leyndarmál landsins var afhjúpað og forsetaframboðið gert opinbert.
En ég trúði samt ekki að mbl.is yrði beitt til að draga taum ritstjórans í kosningabaráttunni, nú þegar hann hefur boðið sig fram. Og ég trúi því ekki enn. Þetta hlýtur að vera einhver misskilningur.
Kannski geta allir forsetaframbjóðendur óskað eftir því að mbl.is setji upp beina útsendingu frá opnun kosningaskrifstofanna þeirra? Kannski var Davíð bara sá eini sem fattaði það vegna þess að hann veit að Morgunblaðið á allt til alls til að setja upp beinar útsendingar? Kannski fannst Davíð beina útsendingin á mbl.is óþægileg í ljósi stöðu sinnar en lét sig hafa það vegna þess að vefurinn er sá mest sótti á Íslandi og kynningin því góð?
… Og kannski var Júlíus Vífill bara að geyma peningana fyrir systkini sín á Tortóla.
Auðvitað er þetta alveg skelfilega vandræðalegt. Það er nefnilega meira. Eftir að Davíð svaraði spurningum í beinni útsendingu á Facebook-síðu Nova í vikunni birti mbl.is frétt undir fyrirsögninni 27.000 horfðu á Davíð — fullkomlega eðlileg fyrirsögn ef það væri hægt að sýna fram á að 27 þúsund manns hefðu horft útsendinguna.
Hið rétta var að búið var að horfa á einhvern hluta upptökunnar af útsendingunni 27 þúsund sinnum. Ég segi einhvern hluta vegna þess að aðferðirnar sem Facebook notar til að telja áhorf eru í besta falli rausnarlegar. Áhorfin telja eftir aðeins þrjár sekúndur eru liðnar. Myndböndin spilast oft sjálfkrafa og meira að segja án hljóðs. Til samanburðar þá hleypa myndbandaveitur á borð við Vimeo og Youtube talningunni ekki í gegn fyrr en búið er að horfa á tvo þriðju myndbands.
Það mætti semsagt deila í áhorfstöluna með tveimur. Jafnvel þremur. En þetta snýst ekki um það.
Þetta snýst um að mbl.is birti beinlínis ranga frétt sem kemur sér vel fyrir forsetaframboð ritstjóra Morgunblaðsins. Auðvitað þarf vefurinn að fjalla um framboð Davíðs eins og annarra og það hvílir engin skylda á herðum hans að gæta einhvers konar jafnræðis. En ég skil ekki af hverju svona góður fjölmiðill gefur höggstað á sér með því að setja upp beina útsendingu frá kosningaskrifstofu ritstjórans síns og birta um hann vafasamar áróðursfréttir.
Eftir því sem ég hugsa meira um þetta þá skil ég minna.
Ég skil ekki af hverju þau halda ekki bara áfram að nota Reykjavíkurbréfin og leiðarana undir þetta bull og ég skil ekki af hverju blaðamenn mbl.is eru settir í þá stöðu að svara fyrir þetta. Síst af öllu skil ég af hverju stjórn fyrirtækisins lætur þetta viðgangast í ljósi þess að hlutverk hennar er að gæta hagsmuna fyrirtækis hvers verðmætasta eign heitir mbl.is.