Ég þarf að segja ykkur frá dálitlu sem ég hef komist á snoðir um.
Ég get reyndar ekki sagt ykkur nákvæmlega hvað það er og hvern það snertir, en ég get sagt ykkur að þetta er meiriháttar mál.
Þetta varðar þingkonu sem hefur ítrekað gerst sek um afglöp og dómgreindarleysi í starfi en komist upp með það, konu sem er að gera alla vitlausa sem hún vinnur með og nýtur svo til hvergi trausts.
Ég ætla ekki að segja ykkur hver þetta er. Hún er kannski þingmaður Reykjavíkurkjördæmis, en kannski ekki. Hún er kannski lögfræðingur, kannski ekki. Kannski er hún stjórnarþingmaður, kannski ekki. Ég ætla ekki að útiloka að hún sé formaður fastanefndar, en ég ætla samt ekki að segja að hún sé það.
Nema hvað.
Það hefur verið fullyrt í mín eyru að þingmenn stundi það að panta sér iPad, jafnvel nokkra, á kostnað skattgreiðenda og fari svo með einn heim til að spila Candy Crush. Þetta er fræg aðferð til eignast iPad – ég hef heyrt talað um hana víða.
Ég er ekki segja að þetta sé glæpsamlegt, ekki misskilja mig, en ég er heldur ekki að segja að þetta sé ekki glæpsamlegt. Kannski eru einhverjir þarna úti að stela peningum af ríkinu, en það er ekki mitt að ákveða, hvað þá að kæra þá til lögreglu. Ég veit bara að það er ýmislegt í gangi þarna. Ekki skjóta sendiboðann.
Ég hef líka fengið spurnir af því að á skrifstofum sumra þingmanna sé að finna hönnun. Húsgögn, til dæmis stóla, sem hönnuðir hafa hannað. Hvað ætli það kosti? Það er aldrei að vita nema slík sundurliðun rati fyrir augu almennings innan skamms. Þið gætuð viljað fylgjast með, ef ske kynni.
Ég er samt ekki að segja að þessi tiltekna þingkona hafi gert neitt af þessu, það verður bara að koma í ljós, en við skulum samt segja að það er eitt og annað sem hún hefur gert og ekki víst að það sé allt fallegt, hvað þá faglegt.
Hvernig veit ég þetta allt, gæti einhver spurt sig. Það er spurning sem mér er ekki að skapi. Ég veit þetta bara. Ég hef fengið ábendingar og heyrt sögur og horft á Youtube-myndbönd. Maður í minni stöðu hittir margt fólk, margir koma að máli við mann og fullt af fólki úti um allt land er sífellt að gefa mér „hint“ um hvað ég mætti skrifa um. Þessi skandall er á allra vörum og ég hef enga ástæðu til að rengja þetta fólk.
Og bíðið bara, ég mun opinbera áfangaskýrslu um þessar uppgötvanir mínar á næstunni. Þið getið flissað eins og þið viljið, en mér er ekki hlátur í huga, þetta er of alvarlegt. Ég get ekki sagt ykkur hvenær þessi skýrsla verður kynnt eða hvað hún mun hafa að geyma, en ég get lofað ykkur því að hún verður rosaleg. Jörð mun skjálfa. Hún mun svo sem ekki geyma neinar nýjar upplýsingar per se, heldur er ég bara búinn að púsla áður aðgengilegu efni saman í eina mynd með hjálp góðra manna sem ég get ekki nefnt, skiljið þið? Látið ykkur hlakka til.
Nafnið á þingkonunni fáið þið hins vegar ekki. Það kemur ekki fyrr en í bókinni minni um málið þegar og ef ég læt einhvern tímann af pistlaskrifum. En mikið svakalega er hún samt vanhæf og ómerkileg.