Ég er sérlega meðvirk týpa. Meðvirk upp að sársaukamörkum. Mig verkjar í alla húðina við áhorf á raunveruleikaþáttum og móða veðurfréttakonan hér um árið gekk næstum af mér dauðri. Á óþægilegum deitum í denn breyttist ég í spjallþáttastjórnanda og sýndi viðkomandi svo óskipta athygli að engum hefði dottið í hug sú bráðaörvænting og yfirþyrmandi áhugaleysi sem undir grasseraði. Ég get bara ekki vandræðalegar aðstæður og geri hreinlega allt til að laga þær. Ófáa fyrirlestrana, jafnvel heilu áfangana í háskóla hef ég setið til enda af einskærri samúð með leiðinlegum prófessorum, á kostnað eigin geðheilsu. Þið getið rétt ímyndað ykkur líðan mína yfir ónefndum Kastljóssþætti. Í lok kvölds hafði ég reytt á mig skallablett og þjáðist af alvarlegu vökvatapi. Engu virðist nefnilega skipta hversu efnislega misboðið mér er. Þetta er óviðráðanleg truflun.
Þessari persónuleikaröskun fylgir gríðarleg símafóbía. Tilhugsunin um að festast í vandræðalegu samtali á þeim ómannlega og erfiða miðli sem símalínan er hræðir mig ógurlega. Þið megið því reikna með að ég svari ykkur alls ekki, nema þið séuð mamma eða vinir af slíkri nánd að þið hafið horft á mig sofa. Ég hef auk þess mjög lága rödd svo aðeins mínum allra nánustu tekst að giska á hvað ég gæti verið að segja. Ég hef nú í mörg ár beðið eftir að þessi afleita samskiptatækni syngi sitt síðasta og verði jafnvel bönnuð með lögum.
Eins og gefur að skilja er um að ræða fremur hamlandi ástand, á tímum hreint lamandi. Þannig hafa undanfarnar vikur reynst mér afar erfiðar. Allt frá því að uppljóst varð um forsetaframboð ákveðins móra hef ég upplifað mig fasta og spriklandi á óþægilegu símadeiti með Kastljóssþáttinn í stöðugri pyntandi endursýningu. Hver ný framboðsfrétt, hvert nýtt viðtal, svo ekki sé minnst á kappræður triggera nýtt vandræðakast og nú er svo komið að viss orð og orðasambönd framkalla líkamleg viðbrögð. Til að mynda veldur pörun orðanna sterkur og leiðtogi ofsakláða og útbrotum og hið sakleysislega orð reynsla, orð sem í eðli sínu er fagurt og traustvekjandi hefur verið misnotað upp að því marki að mér finnst að það ætti að banna í allri opinberri umræðu fram að áramótum hið minnsta. Kjánahrollur og gæsahúð er að verða krónískt ástand. Allt við þetta framboð er á pari við misheppnað uppistand þar sem óþægindin framkalla hátíðnisuð fyrir eyrum og sálin forðar sér í óðagoti úr líkamanum í nauðvörn. Mig langar bara að þetta hætti.
Ég viðurkenni að ég ber ekki djúpar tilfinningar til Davíðs Oddssonar. Það gerir ef til vill aldurinn. Þegar hann birtist fyrst á skjánum í vígahug langaði mig frekar að reima á mig Buffalóskóna og stelast út í sjoppu í sleik en að sitja íhugul og alvarleg undir þvælunni. Ég verð ekki brjáluð, ég á engra persónulegra harma að hefna. Ég var ekki virkur þátttakandi í samfélaginu þegar hann drottnaði og deildi, ég upplifði ekki örvæntingu þeirra sem undir honum þurftu að dúsa og sætta sig við siðlaust ofríkið, ellegar sæta grimmilegum refsingum og vægðarlausri kúgun. Þess vegna er ég meðvirk. Ég sé bara gamlan mann sem spilaði illa úr sínu og er ófær um að líta gagnrýnið í eigin barm og hrifsar þess vegna til sín öll tækifæri til að endurskrifa söguna og matreiða svo ofan í „fávísan lýðinn“.
Nýjasta útspilið, frímogginn með uppljóstruninni miklu um að Guðna finnist við í raun og sanni öll fífl og sé landráðamaður sem afneitar þorskastríðinu og öðrum siðferðislegum stórsigrum íslensku þjóðarinnar var svo bara aðeins of mikið fyrir mig. Ég var enn að jafna mig eftir síðasta frímogga og hlýt, í ljósi alvarlegs ástands míns, að biðjast undan áframhaldandi ósköpum. Hættið í það minnsta að senda mér moggann. Ég get ekki lengur þetta sturlaða raunveruleikasjónvarp sem er farið að minna óþyrmilega á einhvers konar dýralífsþátt. Það óskar enginn gömlu górillunni algjörrar niðurlægingar og útskúfunar úr hjörðinni, allavega ekki meðvirka ég. Á einhvern grátlegan hátt er hún æpandi tímaskekkja þar sem hún ber sér í örvæntingu á brjóst án þess þó að takast að hræða neinn. Hún skilur ekki þessar nýju lendur. Gæti hún bara sætt sig við eigin hnignun og dundað sér í spekt við meinlausa iðju á borð við berjatínslu væri þetta allt miklu auðveldara áhorfs. Slíkt dundur er jú töluvert virðingarverðara en ýmislegt annað.
Kæru tuttugu prósent, þið hljótið að vera að grínast. Eða eruð fárveik af meðvirkni eins og ég.