Guðni Th. Jóhannesson verður líklega 6. forseti lýðveldisins. Hann er svo öruggur með kosningarnar að hann er nú þegar byrjaður að ferja yfirgripsmikið safn sitt af köflóttum stuttermaskyrtum, Casio-tölvuúrum og ásmelltum hálsbindum til Bessastaða. Svo þarf auðvitað að finna út úr því hvar eigi að koma þessum óendanlega hafsjó barna fyrir. Síðasti naglinn í líkkistu þessara kosninga var líklega rekinn með myndbandinu þar sem Guðni reynir að troða sér í spariskóna á meðan allur barnaskarinn hleypur eins og hvirfilbylur í kringum hann. Það klingdi svo fast í eggjastokkum íslensku þjóðarinnar að þeir veinuðu eins og þokulúðrar.
Allar kosningar öskra á það séu hetjur og það séu skúrkar. Við erum svo sjúk í þennan staðlaða narratíf að þegar Davíð Oddsson tilkynnti framboð sitt var líkt og Loki sjálfur hefði komið siglandi á Naglfari til að rýða ragna sjöt rauðum dreyra. Mamma hringdi í mig skelfingu lostin: „Hann er snúinn aftur,“ eins og hún væri að tilkynna mér að Sauron sjálfur hefði holdi klæðst. Ég reyndi að hugga hana og útskýra fyrir henni að augljóslega væri hann aldrei að fara að verða forseti, en hún vildi ekki heyra það: „Við getum ekki tekið sénsinn“. Það er nefnilega heil kynslóð sem er helsjúk af áfallastreituröskun eftir stjórnartíð Davíðs. Á uppvaxtarárum mínum gat ég ekki setið í gegnum heila máltíð án þess að einhver talaði um Davíð Oddsson og hans neólíberalísku myrkraverk - og núna, meira en áratug síðar, þarf ég allt í einu að sitja undir þessu helvíti aftur.
„Hringið bjöllunum! Davíð! Davíð er að koma!“ hrópar hugsjúkur múgurinn.
En Davíð Oddsson er ekki vondi kallinn í þessari frásögn. Hann er enginn Hans Gruber - hann er ekki einu sinni bróðir hans, Simon Gruber. Davíð Oddsson er bara gamall boxari sem hengdi hanskana upp fyrir mörgum árum og hefur ekki getað hætt að hugsa um hvort hann eigi ekki einn bardaga eftir í sér. Og eins og með alla gamla meistara sem koma aftur þá endar þetta ekki með glæstum sigri og reið inn í sólarlagið heldur niðurlægjandi rothöggi og vægum heilaskaða.
Það sem þessar pólitísku risaeðlur gerðu var að stela frá okkur kosningabaráttunni. Davíð, þrátt fyrir að hafa ekkert að segja, sogar til sín alla orku og athygli eins og svarthol - ég finn hann styrkjast í hvert skipti sem ég skrifa nafnið hans. Hann er eins og draugur liðinna jóla, vomandi yfir, hvíslandi „þorskastríðið“ með lostugri röddu í eyru okkar eins og þetta gamla tuð eigi að gefa okkur eitthvað sagnfræðilegt holdris.
Í þessar tíu mínútur sem við héldum að Ólafur Ragnar væri hættur og Davíð var ekkert nema rykfallin minning leit þessi kosningabarátta út eins og hún gæti orðið smá samtal um þetta embætti og hvað það stendur fyrir. Af hverju þurfum við forseta? Málskotsréttur forseta er fráleitt fyrirbæri; Ólafur eyðilagði þetta að fullu með því að tala endalaust um mikilvægi þess að einhver sterkur hafi staðið í brúnni til að glíma við sæskrímslið ríkisstjórnina með vilja þjóðarinnar að vopni. Sauðsvartur pöpullinn skreið til Bessastaða með undirskriftalista í titrandi höndum sínum og alfaðirinn miskunnaði sig yfir okkur. Auðvitað á þjóðin ekki að þurfa að elta duttlunga einstaklings, heldur á stjórnarskráin að færa þennan svokallaða öryggisventil í okkar eigin hendur.
Guðni segist vera samþykkur þessari breytingu á stjórnarskránni - sem er gott og blessað. Gott að höggva hendurnar af áður en þær gera eitthvað heimskulegt. En eftir stendur þá spurningin: til hvers? Til hvers er þetta? Hvað eru allir þessir jakkafataklæddu karlar að gera þarna? Af hverju erum við svona sjúk í að kjósa þá?
Fólk talar um táknmyndir, sameiningartákn og hefðir. Ef að forseti er táknmynd, hvert er tákn embættisins sjálfs annað en dýrkun á þessum sterka einstaklingi? Übermensch sem bjargar okkur frá okkur sjálfum. Auðvitað þurfum við miðaldra kall til að höggva á hnúta. Knapa til að ríða okkur eins og hesti. Pabba sem tekur okkur á lær sér, hossar og segir að allt verði í lagi: „Svona, svona, hvað sagðirðu að Sigurður Ingi ætlaði að gera? Ætlar hann að virkja Gullfoss og breyta uppistöðulóninu í drekkingarhyl fyrir kommúnista? Ekki gráta, pabbi skal bara synja þessum ljótu lögum.“
„Þetta er fikt í þingræðinu“ eins og andlegur verkalýðsleiðtogi íslensku þjóðarinnar, Kári Stefánsson, orðaði það. Ef við viljum ekki að Sigurður Ingi virki Gullfoss, drekki kommúnistum og geri uppáhalds kindina sína hana Gullbrá að menntamálaráðherra verðum við bara að hætta að kjósa yfir okkur svona glataðar ríkisstjórnir.
Sameiningartákn er samt versta hugtakið. Það á að vera einhverskonar töfraformúla sem einkennir frummynd hins fullkomna forseta. En hvað er það sem sameinar okkar? Er það ást okkar á náttúrunni? Af hverju kjósum við þá yfir okkur stóriðjustefnu aftur og aftur? Er það ást okkar á menningu? Af hverju fjársveltum við hana þá og gerum lítið úr framlagi listamanna til samfélagsins? Er það náungakærleikurinn? Af hverju vex einangrunarsinnuð þjóðernishyggja þá með hverjum deginum? Við erum bara eins sameinuð og við erum. Lýðræði eru átök um þau gildi sem við viljum standa fyrir sem þjóð, og forseti sem segist standa með öllum gildum stendur í raun ekki fyrir neitt.
Kannski er þetta embætti bara gamlar sagnfræðilegar leifar aðskilnaðarkvíða þjóðar vegna skyndilegs brotthvarfs dönsku krúnunnar. Eins og botnlanginn - lýðræðisleg tota sem gegnir hálf óljósum tilgangi og enginn mun sakna þegar hún verður óumflýjanlega sjúk og þarf að vera skorin í burtu. Og minningar um okkar ágætu forseta verða þá best geymdar á söfnum eða í bókum sagnaritara.
Kannski eru hugmyndir Davíðs Oddssonar þá ekki svo galnar. Hann hefur talað fyrir því að forsetinn eigi að hætta þessu útlandabrölti og eyða stundum sínum á Bessastöðum. Hann vill nefnilega meina að Íslendingar séu alveg sjúkir í að heimsækja Bessastaði og það eigi þess vegna að gera þá að einhverskonar byggðasafni þar sem hann er sjálfur lifandi safngripur. Þar getur fólk svo komið og horft á hann, bent, tekið eins og eina selfie. Svo hættir fólk loks að mæta og enn situr Davíð þarna, launalaus, að fúna og forherðast með hverjum deginum sem líður eins og okkar eigin smáborgara Howard Hughes.
Einu samskiptin sem þjóðin á við hann er þegar við skiljum eftir matarpoka fullan af Melabúðarkjúklingum fyrir utan dyrnar hjá honum og á móti rennir hann handskrifuðu blaði undan hurðinni, þar sem með illu móti er hægt að greina orð eins og „Alþýðuflokkurinn“, „Icesave 1“ og „Píratar“, sem við birtum svo í Mogganum fyrir hann. Svo verður auðvitað lítil lúga sem Hannes Hólmsteinn getur komist inn um á næturnar.
Ég vildi að ég gæti sannfært mömmu um að Davíð verði aldrei forseti. Þá gæti hún hætt að hugsa um að kjósa gegn honum og farið að hugsa um hvern hún vill sjá sem forseta. Kannski Guðna - en kannski líka Höllu eða Andra Snæ eða, ef hún er mjög töff, Elísabetu Jökuls.
Það er svo mikil synd að söguþráður þessarar kosningabarátta hafi fyrst snúist í kring um að kjósa gegn Ólafi Ragnari og snúist núna um að kjósa gegn Davíð Oddssyni. Kannski viljum við sem þjóð vera með forseta, það verður þá bara að hafa það. Ég vildi bara að þessi kosningabarátta hefði fengið að snúast um eitthvað annað en persónuleikabresti þessara glötuðu karla.