Þessi pistill er skrifaður á eina sportbarnum á Manhattan sem er að sýna Ísland-Austurríki. Ég er í hópferð, ekki þekkt fyrir að hafa gaman að íþróttum, þó ég ætti að hafa gaman að þeim verandi aðdáandi fallegra leggja, hópeflis, fjöldasöngs, búningapartýa, dagdrykkju og veðmála. Í kringum mig situr starfsfólk sendiráðsins og improvhópurinn minn. Ég dáist að þessari samkennd og mér líður eins og ég sé föðurlandssvikari að vera ekki að peppast eins mikið og hinir, svo ég hóf svona HannesHannesHannes-chant því að hann er einn af fáum sem ég veit hvað heita því ég tók viðtal við hann þegar hann leikstýrði júróvisjónmyndbandi fyrir Gretu Salóme.
Ég fékk vissulega hlýtt í þjóðarstoltið yfir meme-unum sem báru saman hversu margir búa á Íslandi vs. twitterfollowerar Ronaldos. Og ég hef rosalega gaman að því þegar leikmenn klóra sér í pippanum í mynd eða hagræða pungbindinu. Innan um öll peppdýrin hér sé ég eftir því að hafa ekki skellt mér á einn svona Íslandstrefil í fríhöfninni, eða fengið lánaða Íslands-lopahúfuna hennar Danielle sem ég gisti hjá.
Nei góðan daginn! Inn á Bloom’s Tavern gengur gamall skólabróðir, sem ég heilsa. Hann tekur ekki undir kveðjuna því mér skilst að hann haldi að ég hafi stungið undan honum fyrir fjórum árum. Blessaður drengurinn. Hann gengur út, og ég velti fyrir mér hvar hann ætlar að horfa á leikinn annars í þessari ófótboltuðu borg. This town er greinilega ekki big enough for the both of us. Og ég sem hélt að ef eitthvað gæti sameinað okkur eftir þennan hiksta væri það að hittast á fótboltabar í útlöndum.
Ég keypti mér einu sinni svona fótboltasokka, ætlaði að vera smart á 17. júní í Íslandshnésokkum við fallegan kjól og hælaskó. EN NEI - LÖPPIN Á ÞEIM VAR HVÍT og það var mjög ljótt. OK - er míkrófónn innan í boltanum eða er einhver foley-gæji að passa upp á að THÖBB-sparkhljóðið heyrist? Ég hef virkilegar áhyggjur af því að á föstudaginn þegar við erum að spinna söngleik á Del Close-maraþoninu að við fáum suggestion sem tengist gengi landsliðsins í fótbolta.
Oh, amerísku þulirnir setja alltaf áhersluna á annað atkvæðið í föðurnöfnum leikmanna Íslands. SkúlAHson. SigTHORsson. 10 mínútur eftir af leiknum. Loftræstingin á þessum amerísk/írska pöbb er komin í hámark, mér er nokkuð kalt, en sendiráðsstarfsfólkinu er heitt. Settleg kona segir að Hannes sé nú bara með lím í hönskunum.
Ég man eftir spurningu í SPK þar sem spurt var um reglur hjá KSÍ - um að fótboltamaður mætti ekki vera: Reykingamaður, síðhærður eða eitthvað eitt í viðbót. Svarið var „mætti ekki vera síðhærður.“ Þetta hefur breyst.
2 mín eftir, ég missi tökin og ligg í fanginu á vinkonu minni sem talar fyrir Diego í Dóru landkönnuði og Eydísi í Finnboga og Felix. Angist. Unnur Eggerts grípur um ennið eins og Rita Hayworth.
HVÍLÍKT LOKABRJÁLÆÐI. ÓKUNNUGT FÓLK FELLST Í FAÐMA. ÉG RÚSTAÐI RÖDDINNI Á MÉR OG MUN LÍKLEGA EKKI GETA SUNGIÐ Á FÖSTUDAG.
Til hamingju Ísland. Þetta gátum við. Á laugardaginn skulum við líka sýna hvað við getum og erum stórhuga. Og plís, eruð þið til í að gera allt sem í ykkar valdi stendur til að stöðva 83 ára gamla konu sem heitir sama nafni og ég, lítur út eins og ég nema 83 ára og er með fallegustu leggina í 101? Hún amma mín er nefnilega að hóta því að kjósa Davíð.
Ég ætla að ýta á send og klappa Íslendingnum í mér með því að fara og kveikja í kreditkortinu mínu í H og M.