Já. Ég er búinn að eyða meirihluta vikunnar inni á Dohop að reyna að finna flug til Frakklands sem verður ekki til þess að ég þurfi að bóka sérstakan neyðarfund með þjónustufulltrúanum mínum, Skúla Mogensen og mömmu. Ég er búinn að stressborða sælgæti og pitsur daglega í meira en viku og ég er búinn að lesa yfir texta lagsins Ég er kominn heim fjórum sinnum á dag til að þurfa ekki að hreyfa bara varirnar og þykjast syngja með ef röðin í Krónunni brestur skyndilega í söng.
Evrópumótið í fótbolta kjamsar bókstaflega á mér þessa dagana og mér líður mjög vel þar sem ég veltist rennandi blatur um í tranti þessa ótrúlega íþróttaviðburðar. Nema reyndar þegar Ísland spilar. Þá líður mér mjög illa í slétta tvo klukkutíma. Alveg „Gúgla einkenni“-illa. Alveg „er læknavaktin opin?“-illa. Alveg „þekki ég einhvern sem á bandarísk verkjalyf??“-illa.
Þetta mót er að breyta mér. Daginn sem Ísland og England mættust keyrði ég fyrir aftan bíl sem var með tvo íslenska fána blaktandi úr rúðum afturhurðanna. Ég vissi ekki að nokkrum klukkustundum síðar yrði opna tekin frá undir eitt mesta afrek íslenskrar íþróttasögu í Öldinni okkar en samt sá ég ekkert athugavert við þetta. Einhvern tíma hefði mér fundist fánarnir tveir hallærislegir en ekki þennan dag. Allt var eins og það átti að vera.
Ég hef stundum velt fyrir mér við hvaða tilefni Íslendingar gætu hópast út á götu og fagnað saman. Hefur það gerst oft? Það gerðist þegar handboltalandsliðið kom með silfrið frá Peking. Annars sér maður þetta yfirleitt í sjónvarpinu þegar stórlið í útlöndum fagna meistaratitlum. En þetta gerðist líka þegar Ísland vann England. Það var mánudagskvöld og fólk datt í það, söng og fór í sleik. Réttilega.
Það sem ég er að reyna að segja, en á erfitt með vegna þess að leikurinn næsta sunnudag hefur lamað tímabundið í mér miðtaugakerfið, er að mér finnst þetta allt frábært. Og ég vil ekki að þetta taki enda. Þjóðremba er skelfilegt hugtak en það má ekki rugla því saman við hið krúttlega þjóðarstolt. Og þjóðarstolt getur verið mjög mikið. Sérstaklega þegar landslið ná góðum árangri og fólk um allan heim klórar sér í höfðinu og spyr hvernig í andskotanum þau fara að þessu.
Áður en mótið hófst fannst mér treyjan glötuð, ég fékk slæm útbrot þegar ég heyrði Ég er kominn heim og ég var tilbúinn að stofna Facebook-síðu til að berjast fyrir því að þjóðsöngnum yrði breytt. Fannst vanta allt fútt í hann. Vildi stríðssöng. Fjör. Eitthvað sem kallar á steittan hnefa — eins og þjóðsöngur Spánverja. Eða Breta. Jafnvel Portúgala.
Í dag þrái ég hins vegar ekkert meira en treyjuna. Ég stend sjálfan mig að því að raula Ég er kominn heim þegar ég kem heim á daginn og þegar ég heyri þjóðsönginn áður en leikir landsliðsins hefjast fæ ég svo mikla gæsahúð að mig langar til að hita pönnu, henda á hana smjörklípu, snöggsteikja mig og bera fram með aspas og soðnum kartöflum. Smá dill. Rjómalöguð sósa. Trés bien!
Stemningin er stórkostleg og ég ætla ekki að krefjast þess að við höldum í hana þegar mótinu er lokið. Fer ekki fram á að við nýtum samtakamáttinn, þó það væri fínt. Ég ætla bara að vera raunsær og njóta á meðan þetta er í gangi. Sjúga þessa stemningu ofan í lungun í hverjum einasta andardrætti og marinera í mér þindina með þessu unaðslega andrúmslofti.
Ég er nefnilega annar maður á meðan EM er í gangi. Betri maður. Í vikunni sendi utanríkisráðuneytið strákunum okkar lambalæri, grænar baunir í dós, rauðkál og skyr í þakklætisskyni fyrir frammistöðuna á EM. Einhvern tíma hefði ég hlegið og meitlað kaldhæðið tíst á Twitter um hvernig sveitalúðarnir í ráðuneytinu senda niðursoðnar baunir til hóps manna sem dvelja í matarkistu Evrópu — en ekki í þetta skipti.
Ég las þessa frétt og hugsaði í fullkominni einlægni: „En skemmtilegt.“
Og ég stend við það. Því þetta er ógeðslega skemmtilegt. Allt við þetta. Ekki vekja mig.