Sumarið ´16 hlýtur að verða yrkisefni ófárra kassagítarstrúbba um ókomna tíð. Það er eitthvað svo yfirmáta íslenskt og ævintýralegt við það, á pari við einn stóran brekkusleik undir stjörnubjörtum himni með Ferðalok í ótal misflúruðum útgáfum í bakgrunni. Allir vilja heimsækja okkur, allir halda með okkur, sigurbrautin er bein og björt. Við erum sætasta stelpan á skólaballinu, þessi sem er nýlaus við spangirnar og allir eru skyndilega skotnir í. Það er yfir okkur einhver óútskýranleg orka, við erum öskubuska umvafin töfrum. Að loknum forsetakosningum sem allir frambjóðendur unnu á einn eða annan hátt eigum við nú splunkunýjan forseta, bara töluvert krúttlegan sem almenn sátt virðist ríkja um og smellpassar inn í öskubuskufílinginn okkar á sinn nördalega hátt. Eftir kosningarnar sem allir unnu tókum við svo EM og svo gott sem sigruðum, hlutum í það minnsta titilinn Vinsælasti keppandinn og megum víst eiga von á heilum herskara af peppuðum aukatúristum þökk sé Gumma Ben og Húh-inu, vinsælasta hópeflisgjörningi síðan Gangnam Style var og hét. Svo er eiginlega alltaf sól, stöku sinnum blíð og heit útlandarigning.
Við áttum þetta jú inni, eftir raðniðurlægingu undanfarinna ára. Þegar óuppgert hrunið (sem við hljótum nú að greiða úr, lausnamiðuð með bros á vör) var aðeins farið að dofna í minningunni vorum við rekin út úr skápnum sem heimsmethafar í skattaskjólum með þrjá ráðherra fremsta í flokki, við sitjum uppi með stórlaskað heilbrigðis-og menntakerfi, einhvers konar Evrópumet í vinnumansali og gjólan leikur við klósettpappír í stað laufblaða á hverri grein. Elsku við. Sannarlega var tími kominn á örlitla uppreisn æru, lukku og ljúfari tíð.
Kosningarnar í haust hljóta með þessu áframhaldi að verða einn stór söngleikur, þar sem bjarteygðar og sviphreinar sálir keppast drengilega hver við aðra um að koma mannúðlegum og mikilvægum málefnum á framfæri, með almannaheill og alls ekkert annað fyrir augum. Óskastjarnan fann okkur enn á ný, aftur erum við best í heimi. En sá léttir. Þetta var erfitt andartak þarna, tíminn sem við vorum ekki alveg sannfærð um að vera best. Óþægilegur þessi uggur sem að sótti, óvissan um eigið ítrekað ágæti. Sá efi er nú blessunarlega minningin ein. Við erum víst best. Erlendir fjölmiðlar segja það.
Síðast þegar við vorum best hópuðumst við líka saman á Arnarhól og fögnuðum fræknum karlmönnum, ólympískum þjóðhetjum og víkingum. Hetjudýrkun er úrvals afþreying og einkar íslensk. Gleðin var þó skammvinn í það skiptið, við rúlluðum fljótlega í kjölfarið niður Arnarhólinn og feisplöntuðum í malbiki ofmetnaðar og óskapa. Auðvitað var það ekki íþróttahetjunum að kenna, né heldur Arnarhóli sem slíkum. Og glætan að það gerist aftur. Ekki erum við Íslendingar þekktir fyrir að feisplanta oftar en einu sinni á Lækjargötunni að góðu glensi loknu.
Það má gleðjast og fagna yfir glimrandi gengi og vænum drengjum, yfir því að geta loksins sameinast í gleði, verið stolt, hnarreist og kát. Það má. Förum bara varlega niður Arnarhólinn, hann á það til að vera háll.