Nú ætla ég að segja eitt sem ég veit að við sem eitthvað vitum og munum erum að hugsa en þorum ekki endilega að segja og það er: Lífið var rugl í gamla daga og ég lofa daginn sem Guð á himnum fann upp snjallsímann og hengdi framan á barn nútímans eins og medalíu.
Við könnumst öll við hneykslunarpósta á samfélagsmiðlum með myndum af glataðri æsku okkar daga, a.k.a. niðursokknum börnum með nefið ofan í snjallsíma við hliðina á myndum af rjóðum barnahópi úti að leika í „gömlu góðu dagana“.
Í alvörunni? Var allt svona fullkomið í gamla daga? Voru allir svo fróðir að lesa bækur í stað þess að glápa á youtube? Var alltaf gott veður og allir úti allan daginn? Svo mikið frjálsræði og allt svo miklu betra þá, annað en í dag? Einmitt það. Þessa nostalgíuáróðursvitleysu verður að stöðva. Stans. Skoðum þetta aðeins.
Hvernig væri að kíkja inn í vitleysisganginn og misskilningana sem grasseruðu þegar ekkert var alnetið. Ég, sem dæmi, hélt að Laugardalshöllin héti Laugardagshöllin þangað til ég var átján ára. Í þrjú ár reifst ég við vinkonur sem héldu því fram að Michael Jackson væri að syngja um bað en ekki bad (þetta plötuumslag!). Mér var sagt að ef ég velti mér niður grashól fengi ég garnaflækju og mundi missa alla útlimi á innan við hálftíma. Þessu trúði ég þangað til ég var tólf ára. Hákarlar ráðast frekar á örvhentar stelpur með sítt hár. Trúði þessu þangað til ég var tíu ára.
Við sem erum fullorðin í dag ólumst upp innan um misvitlaust fólk allan daginn, út og inn. Eina vonin fyrir mörg okkar var að hitta gáfaða frænku eða frænda í fermingarveislu en síðan kannski aftur í stúdentsveislu. Svo fékk maður bara einhverjar random upplýsingar einhvers staðar frá á nokkurra ára fresti. Glefsur hér og þar um hitt og þetta. Og þangað til næsti fróðleiksmoli barst ráfaði maður bara um í óupplýstri þoku af misskilningi og fáfræði.
Og öryggið? Frjálsræðið og sakleysið í gömlu góðu dagana? Skemmtilegu leikirnir úti í götu fram á kvöld? Eigum við ekki að taka smá real talk hérna og kalla þetta það sem þetta var: „Miðaldir“. Allir í bekknum mínum áttu heimasmíðuð vopn og maður minn, þau voru notuð. Krakkar gengu um með grjót í vösum, snjóboltar voru bleyttir og frystir, naglar negldir í spýtur, táragasi var sprautað inn í kennslustofur og baunabyssur voru hlaðnar fyrir venjulegan handavinnutíma á miðvikudagsmorgni. Á meðan býsnast er yfir bardagatölvuleikjunum í dag gleymist að á miðöldum tókum við þátt í einum slíkum í raunheimum frá því við vorum fjögurra ára og upp í fimmtán ára. Leiksvæði okkar voru steyptir húsagrunnar og hopp ofan af annarri hæð ofan í snjóskafla og steypustyrktarjárn. Ég lá beinbrotin í heilan dag eftir frímínútur í sjö ára bekk vegna þess að ekki náðist í foreldrana. Og var látin ganga heim af spítalanum með volgt gifsið í rigningu. Og myrkri.
Annað: Ef heimur fer svona mikið versnandi hví mælist þá miklu minni drykkja og reykingar hjá unglingum í dag? Þeir sem halda því fram að í gamla daga hafi börn bara hlaupið beint út í skóg að leika allan daginn eiga að come clean hérna: Það var farið út í skóg að fokking reykja og drekka spíra á sunnudagseftirmiðdegi. Búmm.
Og hér kemur játning sem verður erfið fyrir foreldra mína að lesa en ég tek einn fyrir teymið og læt vaða því ég er hvort sem er búin að afhjúpa heimsku mína með talinu um hákarlana og Laugardagshöllina, sorrí, Laugardalshöllina, svo hér kemur það: Eftirlitslaus partý einhver? Í dag, þökk sé netinu og foreldrum á samfélagsmiðlum, geta unglingar varla pantað pizzu saman án þess að haldinn sé teymisfundur með félagsfræðingi og fulltrúa úr hverfisráði. Ef tekin er mynd og það sést glitta í burkna þeirra Gógóar og Jóa, sem eru víst á Kanarí, er búið að ræsa út nágrannavaktina, lögregluna og foreldraráðið áður en unglingarnir geta svo mikið sem kveikt á bubbles tölvuleiknum og beðið um auka hvítlauksolíu.
En í gömlu góðu dagana? Látum okkur sjá. Við hertókum heilu einbýlishúsin yfir helgi ef einhver var einn heima, teppalögðum stofugólfið með pepperóní og hengdum köttinn upp í næsta gervihnattadisk áður en foreldrar okkar siluðust til að hringja og athuga hvort við værum á lífi. Og já, alveg rétt, þau gátu auðvitað ekki hringt. Því við vorum öll „á skátamóti á Úlfljótsvatni”. Þar var auðvitað enginn sími, ekkert rafmagn (skátaferð) og engin leið að staðfesta neitt. Sjáumst á sunnudaginn kæru foreldrar.
Við lugum og lugum og lugum. Það er í raun ekki skrýtið að margt fullorðið fólk í dag gangi um bogið og með vöðvabólgu því við burðumst með heilu bunkana af lygum, svikum og prettum í farteskinu. Líf mitt fram að tvítugu er í raun ein stór lygasaga.
Þegar ég var í 8. bekk var til dæmis kveikt í Árbæjarskóla á miðjum skóladegi. Slökkviliðið mætti og heilum bekk var bjargað út um gluggann. Þrír fengu reykeitrun. Og ekki svo mikið sem hálft símtal á nokkurt foreldri. Ég missti af öllu saman því ég hafði hringt mig inn veika þann daginn, án þess að nokkur úr fjölskyldu minni vissi auðvitað, og var heima hjá annarri „veikri“ vinkonu að horfa á vídeó. Þegar systir mín sem var í 10. bekk sá bekkinn minn, sótsvartan í framan, koma hlaupandi út úr dönskutíma, sá hún mig hvergi. Hún hljóp grátandi um reykfyllta gangana að leita að mér þangað til aldraður dönskukennari dró hana út á leikvöllinn þar sem krakkarnir höfðu hópast saman á meðan skólinn brann. Einhver þar úti sagði henni að ég hefði skrópað í skólann þann daginn. Síðar um kvöldið borðuðum við fjölskyldan saman kótilettur í raspi. Enginn fattaði neitt og við systur þögðum og sögðum foreldrum okkar ekkert. Þögn í boðinu.
Þegar við vorum ellefu ára tók vinkona mín strætó niður á Grensásveg á hverjum degi eftir skóla. Þar hékk hún í sjoppu og keppti við róna í einhverju spili í Rauða kross kassa. Þangað til hún var fimmtán ára hélt hún að Rauði krossinn þýddi „spilavíti“. Þá held ég nú að MineCraft heima í sófa fyrir framan arininn í faðmi fjölskyldunnar hefði verið skárra en skítugt spilatæki innan um harðsvíraða dópista niður á Grensás (Hæ Davíð minn).
Og að lokum kæri heimur: Börn sem eru niðursokkin í símum eru oft að gúggla hluti. Þau eru ekki endilega að leggja hvort annað í einelti og skrifa dólg á netið. Við fullorðna fólkið sjáum um meirihlutann af því með virkum í athugasemdum og þegar pistlar á borð við þennan eru dissaðir. Börnin okkar aftur á móti eru að lesa allskonar fróðleik á netinu. Ekki að horfa á kattamyndbönd eins og við vegna þess að heilar okkar eru skemmdir eftir of mikla landadrykkju, límsniff og vosbúð í æsku.
Hér kemur pæling: Treystum því að börnin okkar séu mörgum sinnum klárari en við vorum nokkurn tímann. Ég get til dæmis ekki kveikt á sjónvarpinu án þess að bæði börnin mín (4 og 15 ára) séu heima til að hjálpa mér. Og á meðan ég veit hvar þau eru á öllum stundum alltaf þá verður þetta í lagi. Og nei, ég kveikti ekki í skólanum. En ég veit hver gerði það. Og ég mun aldrei segja frá því.