Það var ekki fyrr en rútan náði 130 kílómetra hraða á fjölförnum malasískum þjóðvegi að það rann upp fyrir mér hversu mikil rökleysa mín eigin flughræðsla er. Þarna var ég, pollrólegur, með örlögin í höndunum á síðbarta keðjureykjandi manni sem virtist vera að keyra rútu í svona fjórða skiptið á meðan aðeins nokkrum dögum áður hefði ég fyrr viljað sleikja frunsu á handrukkara en að fara í þrjú flug á innan við sólahring.
Mín fyrsta minning af því að dreyma er ég, kannski þriggja ára, fastur inn í glugga- og hurðalausu barnaherbergi þar sem mannhæðahár Andrés Önd var að reyna að kyrkja mig. Augu hans voru slímugir hvítir sekkir og hann froðufelldi af hatri. Aftur og aftur dreymdi mig þessa sömu martröð. Ég veit ekki hvaðan þetta kom - líklega var það gengdarlausa heimilisofbeldið sem Andrés beitti hálf munaðarlausu frændur sína. Í það minnsta var ég alltaf myrkfælinn eftir þetta. Þetta varð svo slæmt á tímabili að ég gat ekki farið inn á stigaganginn í blokkinni minni að kvöldi til án þess að telja fyrst niður, draga djúpt inn andann, stökkva svo á ljósrofann til að kveikja og spretta upp á þriðju hæð því ég var sannfærður um að einhver hræðileg óværa kæmi á eftir mér upp úr kjallaranum og aðeins kraftur 60W ljósaperu gæti stöðvað hana.
Á næturnar gat ég ekki sofnað nema vera reifaður inn í sæng eins og nýburi, með öll ljós kveikt og útvarpið í gangi. Einhvern veginn æxlaðist það þannig að Eiríkur Jónsson var með kvöldþátt í útvarpinu á þessum tíma þannig að ómfögur rödd hans svæfði mig á hverri nóttu í marga mánuði. Takk Eiríkur.
Í öll þessi ár gerði myrkrið mér aldrei neitt.
Ótti er svo tær tilfinning. Hrá og mögnuð. Þegar við upplifum raunverulegan ótta er það eins og raflost, adrenalínið flæðir út í blóðið, hjartslátturinn hækkar, sjáöldurin víkka – og svo, þegar allt er liðið hjá og við erum enn lifandi – fyllist heilinn af sætu serótóníni. Þess vegna förum við í rússíbana, segjum draugasögur, förum á hryllingsmyndir í bíó og finnst innst inni gaman að láta bregða okkur.
En það er ekkert gaman að lifa í ótta.
Eftir ákveðinn aldur hættum við að vera hrædd við töff hluti eins og drauga, múmíur og Andrés Önd, og við tekur hversdagslegri ótti við fyrirbæri eins og nánd, skuldbindingar, mistök í starfi, krefjandi félagslegar aðstæður og að fá ekki samþykki sem kynverur. Persónulega var ég alltaf hræddastur við að deyja, hvort sem það væri úr krabbameini eða óumflýjanlegu flugslysi.
Hjá mér byrjar þetta alltaf eins. Ég gúgla flugnúmerið á fluginu mínu, kemst að því hvaða flugvélategund á að fljúga með mig, fer á Wikipedia-síðuna fyrir þá flugvél, skrolla beint niður í „incidents“ og les um allt sem hefur nokkurn tímann komið fyrir þá flugvél. Næsta sem ég veit er ég að ranka við mér inni á YouTube að horfa á mann sýna mér hvað gerist þegar maður hellir fati af óelduðum kjúkling ofan í þotuhreyfil. Svo sit ég stuttu síðar í flugvélinni sem ég var að lesa um og bíð eftir því að ger af risavöxnum, fleygum hænsfuglum fljúgi beint inn í báða hreyflana og grandi okkur.
Þetta skiptið var öðruvísi. Nokkrum dögum áður en ég átti að fara í flugin þrjú átti ég símatíma hjá lækni til að fá uppáskrifuð lyf gegn ærandi sótthita, öskrandi niðurgangi og öðrum hressum hitabeltissjúkdómum. Einhvern veginn barst talið að flugunum og hún spurði mig hvernig mér líði í flugvél. Ég reyndi að útskýra á yfirvegaðan hátt fyrir henni að í hvert skipti sem ég stígi inn í flugvél líði mér eins og rússneska hundinum Laiku, einu fyrsta spendýrinu sem var skotið út í geim og skilin þar eftir til að deyja. Lækninum fannst þetta ekki nógu gott og skrifar upp á Tafil, sem er einhver kvíðastillandi og ávanabindandi snilld.
Það er erfitt að útskýra hvernig það er finna ótta hverfa. Í þrjátíu þúsund feta hæð yfir Rússlandi með tvær kvíðastillandi flæðandi í gegnum æðar mínar lendum við í þannig ókyrrð að flugfreyjurnar krjúpa á ganginum á meðan það versta gengur yfir. Ég brosi til einnar áður en ég loka augunum og ímynda mér í hverju höggi að ég sé á seglskútu að fljóta letilega yfir öldu í hálfkyrrum sjó. Ég hugsa með sjálfum mér að svona líði flestum í flugi. Ekki fórnarlömb eigin rökvilluspírals.
Óttinn er nefnilega eins og sníkjudýr sem sífellt reynir að réttlæta eigin tilvist með því að spinna raunveruleika úr kjaftæði. Hann segir þér að hunsa 100 milljón örugg flug og einblína á þetta eina sem hrapaði. Ótti er oftast ekki rökrétt viðbragð við staðreyndum heldur brengluð afskræming á frumhvötum – eins og þvalur, holdugur líkami þinn að reyna að sannfæra þig um að þú sért ennþá svangur þrátt fyrir að hafa klárað næstum alla 10L tunnuna af Cheespuffs sem þú keyptir í einhverju neyslu-taugáfalli í síðustu Kostsferð.
Ég hef samkennd með fólki sem er hrætt við allskonar kjaftæði, en það þýðir ekki að við sem samfélag eða opinber stefna okkar eigi að ráðast af röklausum ótta fólks. Maður á að vera hræddur við snáka, moskítóflugur, opnar rafmagnsleiðslur og brjálaða rútubílstjóra en ekki drauga, múmíur, bogfrymla, flugferðir, Davíð Oddsson eða flóttafólk. Heilbrigðiskerfið er ekki rekið á forsendum fólks með heilsukvíða og flugmálayfirvöld taka ekki mið af sturluðum ótta hjá fólki eins og mér. Það er bara haldið góðlátlega í hendurnar á okkur og sagt að það verði allt í lagi. Af hverju ættu aðrir þættir stjórnsýslunnar að ráðast af jafn órökréttum hvötum?
Ef einhverjir óttast að koma fólks hingað sem misst hefur allt ógni vestrænni siðmenningu er ég ekki viss um að það fólk ætti að fara úr húsi án þess að vera með hjálm og í endurskinsvesti og sofa í læstri hliðarlegu. Og ef óttinn verður svo óbærilegur að þú sért alveg við það að kjósa Íslensku Þjóðfylkinguna – eða jafnvel annan, stærri popúlistaflokk sem hefur daðrar við þjóðernishyggju – mæli ég frekar með því að panta tíma hjá heimilislækninum þínum og biðja hann um að skrifa út nokkur spjöld af Tafil fyrir þig svo að þú getir fundið hvernig það er að stíga út fyrir óttann og við hin þurfum ekki að halda í höndina á kjaftæðinu í þér.