Hér er hugmynd fyrir ykkur, forystumenn ríkisstjórnarinnar: farið saman inn í herbergi, lokið hurðinni (eða hafið hana opna – það er skárra loft þannig auk þess sem þið hafið ekkert að fela), ákveðið kjördag til Alþingis, komið svo út og segið frá dagsetningunni.
Þetta hljómar einfalt af því að þetta er einfalt.
Þið getið farið inn í herbergi á skrifstofum Alþingis, í Stjórnarráðshúsinu, heima hjá ykkur, farið í sumarbústað, pantað ykkur hótelherbergi, gert þetta í Þingholtsstofunni á Hótel Holti, á dýraspítala, í Valhöll, á Laugavegi 4-6 eða jafnvel ekki einu sinni í herbergi – þið getið þess vegna verið úti í guðsgrænni náttúrunni, keyrt upp í Öskjuhlíð, farið í göngutúr á Esjuna, þið hefðuð gott af því. En það skiptir engu máli.
Þið getið verið tveir eða með aðstoðarmennina með ykkur eða alla ríkisstjórnina, þið getið jafnvel boðið konunum ykkar. Þið getið sýnt beint frá þessu á netinu. Það skiptir engu máli. Bara ekki taka Sigmund Davíð með.
Eðlilegt vinnulag 101
Það sem þið vitið er eftirfarandi:
a) Það verður kosið í haust. Þið hafið báðir sagt það ítrekað og splunkunýr og ferskur forseti Íslands áréttaði það með mjög afgerandi áherslu í innsetningarræðu sinni á mánudag. Sá eini sem er enn með verulegt vesen út af þessu er Sigmundur Davíð, en það skiptir engu máli af því að hann er ekki í ríkisstjórn og það er afskaplega hæpið að Guðni Th. Jóhannesson neiti að skrifa undir þingrofstillögu bara af því að einn hálfútskúfaður flokksformaður er með derring. Munið bara: ekki bjóða Sigmundi með á fundinn af því að hann mun skemma hann.
b) Haust er tiltölulega teygjanlegt hugtak. Það mætti jafnvel með sæmilega góðu móti halda því fram að það verði enn haust sirka í endaðan nóvember.
c) Flokkar þurfa minnst mánuð til að búa sig undir kosningar. Af því, ásamt lið b, leiðir að þið hafið tímabilið 4. september til 30. nóvember að vinna með.
d) Kjördagur verður á laugardegi, af því að kjördagar eru á laugardögum og þannig er það bara.
Þetta þýðir að þið hafið úr tólf laugardögum að velja. Ykkar verkefni er að horfa á þessa tólf laugardaga og velja einn. Bara einhvern. Þið getið dregið dag úr hatti, búið til litla miða og kastað pílu í þá, valið þann sem er næstur afmælisdegi einhvers af börnunum ykkar (eða hestunum ykkar eða skráningardegi bílanna ykkar eða deginum þegar þið misstuð sveindóminn) eða þið getið gert snögggreiningu á kostum og göllum hvers dags og valið svo út frá henni. Það skiptir engu máli.
Þetta er ekki flókið. Eiginlega er þetta svo lítið flókið að það er hálfkjánalegt að skrifa þetta hérna niður. Þetta er svolítið eins og að skrifa leiðbeiningar fyrir hálftíræða ömmu sína um það hvernig maður skiptir um stöð á sjónvarpinu hennar, nema að á nútímasjónvörpum er það reyndar talsvert flóknara verkefni en það sem þið standið frammi fyrir.
Þegar þið eruð svo búnir að velja og tilkynna dagsetningu getið þið hafist handa við að skipuleggja ykkur í kringum hana, af því að mér skilst að þið þurfið að klára svo mörg mikilvæg mál fyrir kosningar. Það er engin ástæða til að draga það í efa, þótt allir virðist hafa ólíkar hugmyndir um það hver þessi mikilvægu mál eru og hvernig þau eigi að líta út. En ein leið til að afgreiða þetta er að raða málunum á graf, þar sem x-ásinn sýnir mikilvægið, að ykkar mati, fyrir þjóðina og y-ásinn sýnir líkurnar, að ykkar mati, á að þið náið að koma málinu í gegnum þingið fyrir kjördag – svo takið þið þau sem eru í efri fjórðungnum hægra megin, keyrið þau áfram en geymið hin. Eðlilegt vinnulag 101. Þið getið þakkað mér síðar.
Dónaskapur
Ég er ekki að stinga þessu að ykkur af því að ég hlakka svo til kosninga. Þvert á móti kvíði ég þeim óskaplega. Ég kvíði áframhaldandi fréttum af rasistahreyfingum sem þykjast vera að daðra við framboð þangað til einhver flokkur bítur á agnið og lætur draga sig í popúlískar einangrunaráttir, ég kvíði því að vera með Sjálfstæðisflokkinn og Diet-Sjálfstæðisflokkinn í framboði saman, ég kvíði því þegar Píratar opinbera framboðslistana sína, ég kvíði kjánahrollinum sem ég mun fá þegar Samfylkingin heldur enn að hún sé stóri stjórnarandstöðuflokkurinn, ég kvíði samfélagsmiðlunum. Mest af öllu kvíði ég því þegar Framsóknarflokkurinn kynnir stóra kosningaloforðið sitt.
En þið lofuðuð þessum kosningum. Og það er dónaskapur að gefa ekki út þessa dagsetningu. Það er dónaskapur gagnvart öðrum flokkum á þingi og samflokksmönnum ykkar, það er mikill dónaskapur gagnvart nýjum framboðum, það er gríðarlegur dónaskapur gagnvart almenningi og það er meira að segja smá dónaskapur gagnvart sjálfum ykkur. Það lætur ykkur líta út eins og aula.
Kannski eruð þið löngu búnir að ákveða þessa dagsetningu en viljið bara ekki opinbera hana strax til að glata ekki einhverri ímyndaðri vígstöðu hvor gagnvart annars flokki – eða þá gagnvart hinum flokkunum. Treystið mér, jafnvel þótt svo væri léti það ykkur ekki líta út eins og minni aula.
Fyrir alla muni, hespið þessu bara af, einn tveir og þrír. Þið getið til dæmis gert þetta eftir hádegi í dag. Þetta ætti ekki að þurfa að taka nema svona klukkutíma eða tvo með öllu, í alvöru. En plís, ykkar vegna, ekki segja Sigmundi Davíð.