Ég kann vel við Brynjar Níelsson. Ég hef samt bara spjallað við hann einu sinni. Minnir mig. Þegar ég starfaði á Alþingi settist Brynjar einu sinni hjá mér í mötuneytinu. Ég sat einn við borð og var svolítið eins og nýi lúðinn í skólanum. Þetta var samt á Alþingi þannig að ég var umkringdur lúðum og var sjálfur frekar töff.
Áður en hann settist hjá mér þennan dag höfðu samskipti okkar farið þannig fram að hann gekk reglulega upp að borðinu mínu í mötuneytinu og sagði: „Ég elska unnar kjötvörur.“ Mögulega fyrirsjáanlegustu orð sem hann gat raðað saman. Samt fyndin. Við spjölluðum smá saman þennan dag, ég og Brynjar. Við töluðum um hitt og þetta tengt pólitík, ég man ekki alveg hvað. Ég man bara að við vorum frekar sammála um flest — sem þýðir að ég er frekar með á hreinu hvað við töluðum ekki um.
Ég hugsa stundum um þennan dag þegar Brynjar hæðist að Pírötum fyrir að vilja laga tennurnar í fátæku fólki. Eða þegar hann segir að jákvæðni fari í taugarnar á sér. Mig langar nefnilega að skilja Brynjar Níelsson. Hann er alls ekki vitlaus en ég held að hann sé samt mjög einfaldur persónuleiki. Svona náungi sem má ekki missa af tíufréttunum, á í mesta lagi tvær peysur (í tveimur svipuðum litum) sem hann notar utan vinnunnar og drekkur Beck’s —ekki vegna þess að hann er bragðgóður, heldur vegna þess að hann hefur alltaf gert það.
Á Facebook-síðu sinni í vikunni sagðist hann þjást af kvíða og depurð. Í sömu færslu gerði hann grín að stefnumálum Pírata ásamt því að brenna í huga fólks mynd af sveittum fótaaðgerðafræðingum skafa líkþorn af iljum hans og bróður síns. Færslan er stutt, meinfýsin og svolítið fyndin en ég held hún sé merkingarþrungnari en hún virðist í fyrstu.
Ég er ekki sálfræðingur en getur verið að innra með Brynjari búi lítill, dapur drengur sem notar háð og hroka í samskiptum við pólitíska andstæðinga þegar kvíðinn sækir á? Getur verið að ásjóna Brynjars, sem birtist okkur í fjölmiðlum, sé lirfa sem hefur búið til púpu utan um sig og bíður þess að springa út sem auðmjúkt og undurfagurt fiðrildi — laust við fordóma og hroka í garð þeirra sem berjast fyrir kvenfrelsi og niðurgreiddum tannlækningum?
Það sem skortir í íslenska pólitík er nefnilega auðmýkt og Brynjar Níelsson er einn af holdgervingum pólitíkur sem snýst um átök frekar en samræðu. Stjórnun frekar en þjónustu. Hann er alveg pottþétt að vinna vinnuna sína en getur ekki fyrir sitt litla líf svarað pólitískum andstæðingum opinberlega án hroka og háðs. Við lesum tilsvör Brynjars á vefmiðlum en hroki stjórnmálanna birtist meðal annars þannig að sumum finnst skrýtið að fólk vilji vita dagsetningu kosninga, sem eiga að fara fram í haust og voru boðaðar einhvern tíma í sumar.
Ég er ekki viss um að við fáum nokkurn tíma að sjá fiðrildið Brynjar Níelsson. Vissulega glitti í það þegar hann fékk stjórnlaust hláturskast á RÚV eftir að hann var inntur eftir svörum um hvernig hann tæki því að hafa ekki verið valinn innanríkisráðherra. Og innslagið stórkostlega um hversu auðvelt það er að bregða honum afhjúpaði í skamma stund Brynjar viðkvæmari og einlægari en við eigum að venjast. En ég hugsa að við munum ekki komast lengra inn í púpuna. Forherðingin er of mikil þó hárbeittur húmorinn sé eflaust þykkasta lagið.
Brynjar er nefnilega drullufyndinn en í hvert skipti sem það glittir í fiðrildið þá stoppar hann í gatið með því að fullyrða að maður eins og Davíð Oddsson yrði góður forseti. Eða segir að prestar Þjóðkirkjunnar valdi honum vonbrigðum vegna þess að þeir reyndu að hjálpa fólki sem gat ekki hjálpað sér sjálft.