Árla morguns í Garðabænum. Sólin skríður yfir þök einbýlishúsanna og læðist inn um gluggana. Einn sólstafur ferðast inn um einn glugga í vesturhluta einbýlishúss í fínum botnlanga í góðu hverfi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson stendur úti á miðju gólfi. Hann er með þunga bauga undir augunum; enn ein svefnlaus nótt. Hann nuddar á sér órakaða hökuna einbeittur á svip.
Fyrir framan hann er stór, hvítur veggur þakinn hundruðum ljósmynda. Á milli myndanna hafa verið strengdir rauðir þræðir. Við hverja tengingu eru svo handskrifaðir post-it miðar. Úr fjarlægð er þetta eins og manngerður köngulóarvefur vitfirrings. Á myndunum eru andlit og staðir; arabískur fursti að taka í höndina á jakkafataklæddum manni, höfuðstöðvar Kaupþings í Lúxemborg, sérstakur saksóknari, sænska ríkissjónvarpið, Jóhannes Kr. að borða túnfiskssamloku.
Sigmundur virðir vefinn fyrir sér eins og hann hefur gert svo oft áður. Skyndilega er eins og renni upp fyrir honum ljós: „Auðvitað...“
Hann tekur upp síðasta rauða þráðinn og festir hann með teiknibólu. Loksins sést heildarmyndin; allir rauðu þræðirnir tengjast í eina mynd. Myndin er af Sigmundi Davíð.
„Þetta var svo augljóst.“
Það er barið á dyrnar. Rödd Önnu Sigurlaugar berst undir hurðina.
„Sigmundur, þessu verður að ljúka.“
Hann hunsar hana, tekur upp símann og slær inn sama númer og hann hefur hringt í svo oft áður síðustu vikurnar. Nú hlýtur hann að svara.
Annars staðar í Garðabænum hringir sími. Nafn þess sem hringir birtist ekki á skjánum heldur einungis skilaboðin: „Ekki svara“
Bjarni Benediktsson hendir símanum í rúmið og virðir sjálfan sig fyrir sér í svefnherbergisspeglinum – hann lítur betur út en hann hefur gert lengi; brúnn, stæltur, gráu hárin fara honum vel. Hann fær sjálfan sig samt ekki til að brosa. Hann lítur á úrið sitt; tíu mínútur þangað til þessi helvítis ljósmyndari á að mæta.
Bjarni hatar nefnilega þennan hluta leiksins – kosningabaráttuna; þennan innantóma dans sem hann þarf nú að dansa næstu mánuði. Þegar Morgunblaðið hafði samband og bauð honum drottningarviðtal gat hann auðvitað ekki neitað. Fylgið aldrei lægra, stjórnarsamstarfið í molum og hann sjálfur rúinn trausti. Hann þurfti þetta.
Hann tekur bláköflótta bómullarskyrtu upp úr poka merktum Vinnufatabúðinni og klippir verðmiðann af. Hún er þröng yfir stóran brjóstkassann. Tvær tölur fráhnepptar eða ein? Hversu langt á maður að bretta upp ermarnar?
Þetta hafði allt verið hugmynd ljósmyndarans; „Hvað með að gera eitthvað skemmtilegt? Ná þér við einhvers konar heimilisstörf? Kannski í garðinum?“ hafði hann sagt.
„Garðinum?“
„Já þú veist: „Bjarni Ben ræktar garðinn sinn“ – fólk á eftir að elska þetta.“
Bjarni lokar augunum og finnur tómleikatilfinninguna hellast yfir sig eins og baðkar fullt af tjöru.
„Ok.“
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, situr í bænastöðu fyrir framan moldarbeð og heldur á lítilli skóflu. Þessi skófla er eins og skeið í risastórum höndum hans; höndum sem sjálfar líkjast helst tveimur skóflum. Ljósmyndarinn er nokkrum skrefum frá honum: „Jæja Bjarni, brosa og moka.“
Bjarni lokar augunum í eitt andartak. Hvernig hafði hann komist þangað? Þetta átti að vera auðveldara. Formaður, forsætisráðherra, krónprins. En þetta hafði ekki farið þannig. Síðan hann varð formaður hafði hann verið fastur í skugganum og nú þegar aðrar kosningar nálgast líður honum ekki eins og þær séu nýtt upphaf, þvert á móti er eins og hann sé fastur í kviksyndi. Píratar, Viðreisn. Af hverju hafði hann ekki stofnað Viðreisn? Hann hafði horft á eftir hófsamari vinum sínum hverfa yfir í þetta nýja stjórnmálaafl. Í hjarta sínu langaði hann að elta þá en hann var hlekkjaður fastur við eigin hásæti í yfirgefnum veislusal. Fyrir aftan hann svífur líflaus vofan af Illuga Gunnarssyni og Hildur Sverrisdóttir hvíslar „valfrelsi, nýsköpun, einkavæðing“ aftur og aftur. Sigríður Á. Andersen er líka þarna en hann heyrir ekki í henni ... eitthvað um bankaleynd.
Ljósmyndarinn réttir honum stóran kálhaus.
„Haltu á þessum eins og þú sért að fara að planta honum í beðið.“
Kannski gæti hann bara látið sig hverfa; keypt sér pallbíl og skika af landi. Plantað kartöflum og kálhausum. Fundið bragðið af söltum, réttlátum svita eftir erfiðan vinnudag. Eina pólitíkin væri ómið frá útvarpsfréttunum á meðan hann drykki miðdegiskaffið sitt. Bjarni finnur sig svífa úr eigin líkama, upp úr garðinum sínum; hann sér sjálfan sig, ljósmyndarann og kálhausinn verða að svörtum dílum. Hann svífur meðal skýjanna, sér landslagið breytast fyrir neðan sig; borg verður að hrauni og mosagrónum fellum. Fjöllin verða að flötu undirlendi, grasið bærist í vindinum.
Þarna. Þarna mundi hann byggja sér lítinn kofa.
Sími hringir og Bjarni fellur samstundis aftur til jarðar. Aftur í garðinum. Hann lítur á skjáinn:
„Ekki svara“
Anna Sigurlaug opnar loks hurðina. Sigmundur situr á gólfinu með símann í fanginu og starir á flóðlýsta vegginn fyrir framan sig. „Þau sviku okkur,“ muldrar hann, jafnmikið við sjálfan sig og við hana. „Þau sviku okkur öll.“ Anna Sigurlaug krýpur fyrir framan manninn sinn sem líkist þó mest litlum, týndum dreng á þessu andartaki. „Horfðu á mig Sigmundur.“ Hann lítur upp.
„Stefán Einar var að hringja. Hann ætlar að taka við mig stórt viðtal. Hann segir að ef það komi vel út þá verði því dreift inn á öll heimili. Öll, Sigmundur.“ Hún brosir til hans.
„Ég ætla að segja þeim allt; frá öllum lygunum og svikunum. Landið mun skjálfa þegar ég er búin að segja það sem ég þarf að segja.“ Hún stendur upp og lítur niður á Sigmund sem sjálfur lítur upp með aðdáunaraugum.
„Stattu upp Sigmundur. Þú ert enn formaður Framsóknarflokksins, þú skalt áfram verða formaður Framsóknarflokksins. Sama hvað það kostar.“
Í fyrsta skipti í margar vikur færist einlægt bros yfir andlit Sigmundar Davíðs.
Nokkrum götum frá Bjarna er Kolbeinn Árnason, stjórnarmaður gamla Landsbankans, LBI, að leggja lokahönd á bindishnút. Síminn gefur frá sér kunnuglegt hljóð; nýr tölvupóstur. Kolbeinn tekur upp símann:
„Hæ Kolbeinn, Við gengum ekki frá bónus fyrir síðasta ár. Ég legg til 1 millj evrur. Hvað segir þú. Kv.“
Kolbeinn brosir og slær inn svar.
„Takk Meira en nog :-).“
Í einbýlishúsi í gamla vesturbænum hellir brúnaþungur maður kaffi í bolla. Á bak við hann óma kvöldfréttir sjónvarps. Enn einn dagurinn af hamförum í Sýrlandi; heilu húsaraðirnar jafnaðar við jörðu í sprengjuárásum. Steypa, málmur, gler, líkamshlutar og grátandi fólk. Maðurinn hristir höfuðið og slekkur á sjónvarpinu. Stafir kvöldsólarinnar læðast inn um eldhúsgluggann og grípa steypuryk á lofti. Maðurinn starir út í bakgarðinn á hamfarirnar sem endalausar framkvæmdir nágrannans höfðu valdið. Þar sem eitt sinn hafði verið falleg innkeyrsla var bara hola full af skítugu regnvatni. Garðurinn fullur af grjóti og möl. Plaströr og spýtur, margar hverjar með nöglum í, liggja á stangli.
„Þetta er eins og Aleppo,“ segir maðurinn upphátt við sjálfan sig og hristir hausinn.
Hann tekur sopa af kaffinu; það er allt of heitt – brennir bæði tungu og varir. Maðurinn frussar svörtum vökvanum niður á hvíta skyrtuna sína. „Ónýt,“ hugsar hann og lokar augunum.
„Okkar eigin djöfulsins Aleppo...“