Er búinn að vera að hugsa um taktleysi undanfarið. Það verður stöðugt erfiðara að hunsa taktleysi vegna þess að í dag kemst einhvern veginn allt upp á yfirborðið. Sem er reyndar eiginlega alltaf jákvætt.
Ef Facebook hefði til dæmis ekki hleypt okkur inn í huga Vigdísar Hauksdóttur væri ekkert víst að við myndum vita hversu taktlaus hún er. Við myndum kannski ekki vita að hún er tilbúin að dissa að kynjamerkingar á salernum í Verzló hafi verið fjarlægðar, þrátt fyrir að það eigi að gera lífið auðveldara fyrir nemendur sem eru óvissir með kyn sitt.
Og ef fjölmiðlar væru ekki að sinna starfi sínu myndum við mögulega ekki vita hversu taktlausir stjórnendur slitabúa gömlu bankanna eru með því að lofa starfsfólki sínu veruleikafirrtum bónusum.
Breyttir tímar eru líka að færa okkur beinar útsendingar frá öllu mögulegu og þær geta reynst afhjúpandi. Við hefðum aldrei komist að því hversu taktlaus fréttamaðurinn Arnar Páll Hauksson er ef tæknin gerði ekki mögulegt að sýna frá viðburðum í beinni útsendingu á internetinu án þess að kalla til sjónvarpsstöð og her tæknifólks. Við hefðum aldrei heyrt hann segja brandarann sem á að hafa sannað að RÚV hatar ekki bara Framsóknarflokkinn heldur líka feitt fólk:
„Hvar ætlið þið að láta þennan feita vera? heheh…“ (Þetta „hehehe…“ sem fylgdi brandaranum hefur grínlaust haldið fyrir mér vöku.)
Efnistök brandarans fóru ekki fyrir brjóstið á mér. Mér skilst líka að enginn hafi verið rólegri yfir brandarnum en skotspónninn Sigurður Ingi sjálfur þannig að froðufellandi viðbrögð á borð við þau sem Vigdís Hauksdóttir bauð upp á eru í besta falli hlægileg. En eftir því sem ég hugsa meira um þetta finnst mér stöðugt hræðilegra að hafa orðið vitni að svona skelfilegu taktleysi á opinberum vettvangi.
Spurningarnar sem þjóta um huga minn eru óteljandi — sérstaklega vegna þess að hann sagði brandarann tvisvar við sama fólkið. Hvað hélt hann að myndi gerast? Hélt hann að Katrín Jakobsdóttir og Óttarr Proppé myndu springa úr hlátri og hvetja hann til að fara á svið með uppistandið sem er að verða til í skjalinu bRaNdArAr.doc í tölvunni hans?
Hélt hann kannski að Katrín Jakobsdóttur, einhver viðkunnanlegasta kona landsins, myndi bjóða honum að kless’ann, fylgja brandaranum eftir sjálf og jafnvel bæta í? „Kemur enginn frá Framsóknarflokknum? Eða er búið að steingelda Sigurð Inga á ómannúðlegan hátt eins og aðra feita grísi í þessu landi? Heheh…“
Eða hélt hann kannski að Óttarr Proppé myndi taka niður símanúmerið hans og adda honum á Facebook í þeim tilgangi að kynna hann fyrir Jóni Gnarr, vini sínum og fyndnasta manni landsins? Eða reyndar næst fyndnasta, á eftir Arnari Páli Haukssyni auðvitað.
Nei, það sem gerðist í raun og veru var að hann sagði fitubrandara við Katrínu Jakobsdóttur og Óttarr Proppé uppi á sviði á fjölmennum fundi í beinni útsendingu á internetinu rúmum mánuði fyrir Alþingiskosningar. Hann hefði alveg eins getað hafið ræðu á samkomu á vegum Unicef á svæsnum brandara um flóttamannavandann: „Heyrðuð þið um landamæri Grikklands og Makedóníu? Það hefur víst orðið algjör sprengja í aðsókn frá Sýrlandi … heheh…“.
Þvílík skelfing. Ekki misskilja mig samt. Það má gera grín að öllu. Samhengið er ávallt dómarinn — ekki viðbrögð fólks. En svona grímulaust taktleysi … það særir.
Brandarinn er hvorki brottrekstrarsök né tilefni til að taka upp dauðarefsingar, eins og mér sýndist Vigdís Hauksdóttir leggja til. Þvert á móti er hann tilefni til að hefja þjóðarátak gegn taktleysi. Opna umræðuna. Benda á að það er ekki aðeins stjórnmálafólk sem glímir við þessa ólæknandi veiru heldur fólk á öllum stigum þjóðfélagsins.
Sem þjóð þurfum við því að líta í eigin barm og komast að því eitt skipti fyrir öll hvar við ætlum að láta þennan feita vera — og þá er ég að sjálfsögðu að tala um feita, taktlausa fílinn sem tróð sér í herbergið þegar kynslóðin sem ræður öllu tengdist internetinu.