Ég gleymi því aldrei þegar ég sá hana fyrst. Það var aðfangadagskvöld, mögulega fyrsta aðfangadagskvöld tíunda áratugarins, ég er ekki alveg með það á hreinu, en hún var það fallegasta sem ég hafði augum litið — og hún var mín. Þegar ég stakk honum inn … æi, þetta er lélegt djók og eiginlega fyrir neðan mína virðingu. Byrjum upp á nýtt. Ég er semsagt að tala um NES-tölvuna sem ég fékk í jólagjöf frá foreldrum mínum 1990-og-eitthvað.
Japanski tölvuleikjarisinn Nintendo hefur alltaf haft vald yfir mér. Ég man eftir mér rauðhærðum og lúðalegum, að öllum líkindum með skott, handfjatlandi samlokutölvuspil fyrirtækisins með mysingsmenguðum barnsfingrum. Ég raðaði kössum með glerflöskum á færiband, frelsaði prinsessur úr haldi óðra apa og lagði stund á stafræna garðrækt. Var aldrei sérstaklega flinkur en þetta var skárra en að leika sér úti.
Eftir nokkurra ára spiksöfnun í boði Nintendo gekk svo fyrrnefndur áratugur í garð. Þó ég sé uppalinn í Garðabænum var ég aldrei hið dæmigerða dekurbarn. Þess vegna átti ég ekki nema þrjá eða fjóra leiki í Nesið. Náði ótrúlegum árangri í Super Mario 1 og 3, var fínn í Ski or Die og skítsæmilegur í Micro Machines. Fljótlega fór ég þó að sýna öðrum og fullorðinslegri hlutum áhuga*.
Í dag, rúmlega tveimur áratugum, 20 leiguíbúðum og 200 hræðilegum láglaunastörfum síðar, er ég loksins orðinn fullorðinn. Á eigin íbúð, finnst gaman í vinnunni, nýt þess að vera í faðmi konu og barna á kvöldin, fer í IKEA um helgar (sjálfviljugur) og sauð meira að segja mitt fyrsta ýsuflak í gær. Já, líf mitt er sannarlega ljómandi, fyrir utan það að ég hef enn ekki náð Nintendo–kílóunum af mér.
Ég hljóma kannski bitur, en ég kenni Nintendo um hvern einasta snakkpoka, hvern einasta snúð og hverja einustu tertusneið sem ég hef lúðrað í mig undanfarin 30 ár. Ljósmyndir af mér segja allt sem segja þarf. Þær sem voru teknar áður en ég villtist inn í undraveröld Nintendo sýna heilbrigt og spengilegt barn. Myndir teknar síðar sýna eitthvað sem minnir minna á barn og meira á nýuppblásna 17. júní-blöðru. Sök Nintendo er óumdeilanleg og því er það nokkuð írónískt að nýtilkomið þyngdartap mitt sé fyrirtækinu að stórum hluta að þakka.
Eftir að snjallsímaleikurinn Pokémon Go tók sér bólfestu í símanum mínum hefur lýsið runnið af mér í stríðum straumum. Leikurinn virkar þannig, fyrir þá sem þekkja ekki fyrirbærið, að því meira sem þú labbar, því betri árangri nærðu í leiknum. Ef þú situr bara heima í sófanum þá gerist ekki neitt. Á rétt tæpum tveimur mánuðum hef ég gengið tæpa 200 kílómetra í leit að japönskum furðuskepnum með nöfn á borð við Snorlax, Jynx og Jigglypuff. Barist um yfirráð** yfir svokölluðum „líkamsræktarstöðvum“ sem bera enn undarlegri nöfn. „Helgi Hóseasson“ er stöð sem ég stunda grimmt, „Eiríkur Hjartarson hóf hér skógrækt“ er önnur.
Markhópur leiksins er sagður vera fólk á öllum aldri, en staðreyndin er sú að flestir Pokémon-spilarar eru á grunn- og framhaldsskólaaldri. Mér hefur því oft liðið eins og dónakarli þegar ég rekst á ungmenni af holdi og blóði í þessum leiðöngrum mínum. Ég sé yfirleitt strax hvað þau eru að gera, vonandi gera þau slíkt hið sama.
En núna er skólinn byrjaður. Börnin hafa einfaldlega ekki lengur tíma til að veiða Pokémona allan daginn, og mögulega er áhuginn eitthvað búinn að minnka (hvað segið þið um nýyrðið „veiðileiði“?). Hagur minn í leiknum hefur allavega vænkast töluvert undanfarnar vikur. Mér sýnist reyndar að notendahópurinn sé núna aðallega samsettur af hálfmiðaldra fólki eins og mér. Konum sem vilja í kjólinn fyrir jólin og körlum sem þykjast vera að þessu fyrir börnin sín — og trúa því meira að segja sjálfir.
Ég er að þessu fyrir sjálfan mig. Hlæðu bara! Ég er kominn á level 24, legg klukkutíma fyrr af stað í vinnuna og fer lengri leiðir á alla áfangastaði. Hættur að fara út í sjoppu. Lýg því núna að ég sé að fara út í sjoppu og fer í labbitúr í staðinn. Blóðþrýstingurinn eins og hjá Annie Mist (heimilislæknirinn minn sagði þetta í alvöru) og næsta sumar mun ég spóka mig daglega í Nauthólsvík, kannski ekki skorinn eins og grískur guð, en að minnsta kosti með vel ásættanlegan dad bod — og mína eigin líkamsræktarstöð í vasanum.
* Ég teiknaði einu sinni mynd af allsberri konu vegna þess að ég þorði ekki að eiga klámblöð eins og vinir mínir. Og nei, ég teikna ekki vel. Ég vildi bara að deila þessu með ykkur vegna þess að ég asnaðist til að segja einhverjum þessa sögu um daginn og ég vil ekki að þið heyrið þetta annars staðar.
** Áfram gulir!