Fyrir nokkrum dögum var ég stödd í fagurblárri sundlaug fljótandi á vindsæng í Kaliforníu. Ég gerði þau reginmistök í fríinu að opna internetið og skoða íslenskar fréttir. Doj. Sjálfstæðisflokkurinn gleymdi að kjósa konur.
Viðbrögð þeirra sem skoruðu hátt í prófkjörinu við þessu voru stórkostleg og sýndu fram á að ennþá er fólk ekkert að hafa fyrir því að athuga hjá almannatengslafulltrúa hvað væri nú sniðugt að segja. Einn benti á að þegar hann hefði verið að kjósa hefði hann varla séð konu á kjörstað – og miðað við hversu fáar konur hann sá þarna þætti honum hið eðlilegasta mál að svo fáar konur væru ofarlega á lista. Með þessu benti hann á hið aldagamla vandamál – sem gott er að benda á þegar fólk heldur því fram að jafnrétti náist ef við tjillum bara aðeins og leyfum því að gerast: Við höfum haft nokkuð langan tíma til þess. Eða ok, ráðandi öfl hafa haft langan tíma til að kippa þessu í liðinn og það hefur enn ekki gerst.
Með þessu voru hrútarnir að viðurkenna að þeir sem þeir röðuðu í efstu sætin voru sömu týpurnar og þeir. Og að þeim þætti allt í lagi að smella upp lista með mönnum sem væri auðvelt að vera á grímuballi – án þess að þurfa að skipta um föt á milli vinnu og partýs. Aldrei nokkurn tímann hefur verið svo skýrt að kjósendur flokksins eru eiginhagsmunaseggir sem hugsa þröngt.
Kvenblindan er víða. Hvort sem um er að ræða þann hvimleiða vanda sem snýst um „hey við strákarnir héldum bara ekkert að þið vilduð vera með“ yfir í að hugmyndir konu í vinnuumhverfi eru hundsaðar, þar til einn karlmaður gerir þær að sínum. Mig langar svo mikið að þetta sé kjaftæði og ég sé að mislesa allt, en ég hef bæði lent í því sjálf og fjöldi vinkvenna líka. Stundum líður mér eins og ég sé í grínmynd um framakonu sem mun svo snúa á strákana og allt endar vel fyrir mig (án þess að giftast sætasta samstarfsfélaganum), en einmitt, það hefur enn ekki gerst, fyrir utan þegar ég sagði upp og leið eins og Bridget Jones fyrr á árinu. Það er óþolandi og takmarkað að stilla þessu upp í við og þið, en þannig töluðu sjálfstæðiskarlarnir. Þær hefðu bara átt að kjósa stelpurnar sínar, ekki við hefðum átt að hugsa aðeins lengra. Mix it up. Bland í poka.
En ef við gefum kjörklefakörlunum örlítið meira vægi, þannig að við ímyndum okkur að þeir séu ekki bara að hugsa um sig og að koma frændum sínum, vinum og kviðmágum að, heldur að þeir séu líka að hugsa til framtíðar. Mögulega eiga þessir menn fjölskyldu og tengslanet þar sem eru mögulega einhverjar konur, þó þeir taki kannski ekki sérstaklega eftir þeim. Hvaða skilaboð eru þeir að senda þeim, ekki bara með því að kjósa ekki konur, heldur líka með ummælum sínum? „Jafnrétti, já það kemur mér ekkert við. Það er eitthvað konustúss. Jafnrétti og blæðingar am I right guys hehehe?“
Hvað gerist svo? Nú eru konurnar í svokölluðum baráttusætum. Ég veit ekki hvort það er kallað það svona til þess að gera þau sæti meira spennandi í staðinn fyrir að segja bara „Þú ert alveg mjög líklega ekki að komast inn á þing.“ Verður það til þess að sjálfstæðiskonur standa með flokknum sínum sem aldrei fyrr og gera alls konar til að koma sínum „mönnum“ inn á þing? Ég held að þetta verði alveg öfugt, og að sterkar konur og göfugar, þó ég sé þeim ósammála um ýmislegt, yfirgefi þetta sökkvandi bleiseraskip. Og þá mun flokkurinn missa það litla traust kvenna sem er til staðar eftir þetta prófkjörsgrín.
Setjum upp jákvæðu gleraugun. Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera að fá góða slummu af þingmönnum hvort sem er. Miðað við eiginhagsmunaprófkjörið þá er ljóst að það verður eitthvað kannski gert í aðbúnaði þeirra sem fá bernaise-kransæðastíflu og mögulega skilar það sér á fleiri stöðum í almennu heilbrigðiskerfi en ekki bara í prívatgeiranum (je ræt). Það verður ekkert mál að fá þessa þingmenn í viðtöl í morgunútvörpum til að svara fyrir mistök sín, bæði elska þeir að heyra sig tala, útskýra fyrir konum hvað þær heyrðu vitlaust eða hvað þær meina, já og svo eru þeir ekkert fastir heima með einhver börn sem þarf að smyrja ofan í áður en þau fara í skólann. HOHOHOHO (slá í bumbuna sína).
Ég hef ekki alhæft um Sjálfstæðismenn síðan ég var í menntaskóla. Og alhæfingar eru erfiðar og oftast kjaftæði – og að alhæfa um stjórnmálaflokka er eins og að alhæfa um stjörnumerkin. „Hvað segið þið í nautsmerkinu um búvörusamningana?“
Ég vann einu sinni fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ég var í menntaskóla, og hafði verið ráðin í gegnum Hitt húsið eða menntaskólaleikfélagið mitt til að klæða mig í stóran grænan drekabúning sem á stóð SKULDAHALINN. Átti ég svo að elta R-listann í einhverri skrúðgöngu til að gera eitthvað grín að því hvað borgin skuldaði mikinn pening eða eitthvað, en tveir Heimdellingar fylgdu með til að skarast í leikinn ef eitthvað myndi gerast. Og óboj. Reiðir borgarar stóðu á halanum. Kona hrækti framan í mig. Mér var hrint. Heimdellingarnir voru hvergi sjáanlegir. Ég brotnaði niður og tók af mér hettuna: „Ég er ekki sjálfstæðiskona – mig vantaði bara peninginn til að kaupa stúdentsgjöf handa kærastanum mínum. Ég veit ekki alveg um hvað þetta snýst.“ Enn voru Heimdellingarnir hvergi sjáanlegir. Ég sagði það þá og ég segi það enn: Sjálfstæðismenn eru hræddir, litlir menn.
Konur, í bátana. Og blöstum svo Enyu: Sail away, sail away, sail away.