Ég get ekki sagt að þessi “grab them by the pussy”-ummæli Donald Trump hafi komið mér í sérstaklega opna skjöldu. Ég var eiginlega meira sjokkeruð yfir að nota deit í húsgagnaverslun til að reyna að sjarma einhvern með nauðgarastælum. En svona í alvörunni, maðurinn hefur tjáð sig á svo niðrandi hátt um konur að fátt kemur á óvart. Ég hugsaði að þetta væri nú bara alveg týpískt eitthvað sem maður langt í burtu myndi láta út úr sér, og að svona væri bara hugsanagangurinn í klikkaða hluta Bandaríkjanna og það styrktist svo þegar vinir og kunningjar hans fóru að gera lítið úr þessu, sögðu að þetta væri nú bara týpískt strákahjal í búningsklefa. Einhverjir íþróttamenn tóku nú upp hanskann fyrir búningsherbergi og sögðu að ef vinir þínir ræddu svona saman á þeim vettvangi þá væri þeir frekar nauðgaralegar týpur.
Hvað er það við búningsklefa sem lætur svona tal viðgangast, já eða frekar af hverju ættum við að segja AH OK GERÐIST ÞETTA Í BÚÚÚNINGSKLEFA? ÞÁ ER ÞETTA NÚ ALLT Í LAGI HA? Er það hversu berskjaldaðir þeir sem spjalla saman eru? Ég nenni ekki að skella skuldinni á lítil typpi, það virðist vera svo stutt og ómálefnaleg leið. Sumir létu það fara fyrst og fremst í taugarnar á sér að giftur maður væri að tala svona og þess vegna mætti móðgast, að þetta hefði nú bara verið í lagi ef þetta væri einhleypur maður. Ég held að það séu samskonar týpur og taka „neitakk“ aldrei gilt nema því fylgi „ég er eign annars karlmanns.“ Við fussum og sveium yfir yfirgangi þessa manns, ómennsku hans, ruddalátum og dólgshætti og dæsum og segjum „Ameríka mar.“
En það eru ekki bara valdamiklir menn úti í löndum sem grípa óforvandis í tussur. Nei, í vikunni birtist ótrúleg grein um fóstureyðingar á Vísi.is, eftir Ívar Halldórsson, útvarpsmann. Fyrsta gúgl leiddi í ljós að maðurinn er asskoti duglegur að senda inn greinar, ég mæli sérstaklega með aðsendri grein um goslaust pepsi í bíó. Sem betur fer er hann ekki fastur penni þó ég hafi haldið það fyrst, en starfar þó hjá fjölmiðlaveldinu í Skaftahlíð, sem útvarpsmaður á Bylgjunni. Hér er gaman að skjóta því að þegar ég vann í Skaftahlíðinni var ekki vel séð að ég væri að skrifa greinar hér á þessum vettvangi, en þær voru nú nokkuð meinlausar miðað við þessa frumuklasatilfinningaklámsgrein. Í greininni voru tiltekin fjölmörg dæmi þess að fóstureyðingar væru ógeðslegar og hér eru á eftir ætla ég að skoða nokkra stórkostlega punkta. Ég verð þó að setja þann fyrirvara á að ég er „fóstureyðingasinni“ svo við notum orð Ívars, jafnvel gæti hann kallað mig „fastakúnna“ því að hann virðist halda að fyrir okkur fóstureyðingarsinnana sé þetta léttvægt mál – bara eitthvað sem maður skreppur í fyrir hádegi á þriðjudegi. Jú, ég veit vel að þetta er grínfígúra, en hann finnur sig knúinn til að skrifa, lesa yfir, kannski fékk hann jafnruglaðan vin sinn til að lesa yfir líka, og ýta á send.
„Að mínu mati hefur heilbrigðiskerfið staðið sig vel í að svæfa samvisku kvenna sem telja sig ekki tilbúnar til að taka á móti litlum lifandi einstaklingum. Mikil áhersla er lögð á heilsu verðandi móður; bæði líkamlega og andlega. Ef móðirin er ekki reiðubúin að eiga barnið (sem er auðvitað hennar eign þótt ófætt sé) fær hún blessun heilbrigðisyfirvalda til að ýta á Ctrl+Alt+Del, og skorast þannig snyrtilega undan því stórkostlega hlutverki sem bíður hennar.“
Ég get svæft samvisku hans með því að benda honum á að þetta er ekkert snyrtilegt, og að auki líkamlega og andlega erfitt, og þá er ég ekki bara að tala um fullorðinsbleyjuna sem kona er með þegar hún vaknar eftir aðgerð. Móðurhlutverkið er ekki eingöngu stórkostlegt og það að konur séu fæddar með verkfæri til þess að verða mæður þýðir ekki að við allar getum sinnt því hlutverki með sóma. Ívar virðist líka halda að fóstureyðing sé einkamál konu, og komi manninum sem frjóvgaði eggið ekkert við, að hann beri enga ábyrgð eða að fóstureyðing komi ekki við sálina á honum. Og auðvitað er hann windows-maður.
„Ég veit um eina konu sem lifði af fóstureyðingu eftir að hafa verið brennd í átján klukkutíma í móðurkviði.“
Brennd? HA? Í átján klukkutíma? Ég skil ekkert. Ég veit um tvenns konar fóstureyðingar sem framkvæmdar eru hér á landi: Annars vegar svokallað útskaf þar sem allt er tekið úr leginu, eða að fósturlát er framkvæmt með lyfjagjöf. En guð minn góður, ég væri líka á móti fóstureyðingum ef þær væru framkvæmdar með brennipennanum úr smíðastofunni í Austurbæjarskóla, en þá vegna kvennanna sem gangast undir þær. Mögulega ruglar Ívar hér saman löglegum og ólöglegum fóstureyðingum. Þar sem fóstureyðingar eru ólöglegar deyja konur af völdum þeirra, og þá deyja tveir frumuklasar, fóstur og manneskjan með fóstrið í sér.
„Í Danmörku brást lækni bogalistin í einni fóstureyðingunni, og þegar hann stóð þarna í herberginu, augliti til auglits við lítinn lífelskandi einstakling, gat hann ekki framkvæmt fóstureyðinguna. Fóstrið er í dag auðvitað fegið að hafa fengið að halda lífi.“
Lífselskandi já. Jahá. Jájá. Einmitt. Eina sem vantar í þessa sögu er að fóstrið hafi sungið Þrek og tár þegar það átti að deyða það, já eða Ég er kominn heim. Fóstur á þessu stigi hafa ekki tilfinningar eða hugsanir. Læknar sem framkvæma fóstureyðingar eru sérhæfðir og eyða nokkrum fóstrum á dag, geri ég ráð fyrir, af hverju á þessi gæji að hafa þyrmt akkúrat þessu fóstri? Var þetta fóstrið sem fyllti mælinn eða var þetta fóstur extra kjút? Hvernig heldur Ívar að fóstureyðingar séu framkvæmdar? Eins og skurðaðgerðir eða keisaraskurðir – legið opnað nei úbb þarna er fóstur sem starir á mig með hvolpaaugum best að loka aftur? Fóstureyðingar fara fram í gegnum leggöng. Ef fóstur er ekki deytt áður en það er fjarlægt, t.d. með lyfjagjöf, þá ætti það að taka það úr móðurkviði á þessum stigi málsins að vera instant deyðing. Fóstureyðingar eru framkvæmdar innan tólf vikna, sextán vikna í undantekningartilfellum, tuttugu og tveggja vikna ef um er að ræða fæðingargalla eða að meðgangan valdi móðurinni skaða. Augliti til auglitis? Augnlokin geta ekki einu sinni opnast á þessu stigi meðgöngu. Fyrir utan það að þetta yrði algjör bylting ef satt er: Að hægt sé að taka fóstur út úr legi á þessum tíma, að það lifi af, verandi á stærð við barbíbarn, og sé hægt að smella því aftur inn og plögga naflastreng og allt? ÓTRÚLEGT. Fyrir utan það að ef fóstur getur lifað af utan móðurkviðs eftir minna en þriggja mánaða meðgöngu, hvað erum við pína okkur í sex mánuði til viðbótar?
„Með fullri virðingu fyrir „óvart“ verðandi mæðrum og þeim persónulegu krísum sem þær standa oft frammi fyrir, leyfir samviska mín mér ekki að leggja blessun mína yfir fóstureyðingar; eyðingu á lifandi fóstrum.“
Með fullri virðingu, hann ber í alvöru enga virðingu fyrir frumuklösunum sem hann kallar „óvart“ verðandi mæður. Hann heldur áfram og telur upp mikilmenni sem heimurinn hefði misst af ef þeim hefði verið eytt sem fóstrum. Ég efast um að þessir menn hefðu orðið þeir meistarasnillingar sem honum finnst þeir vera hefðu þeir verið aldir upp gegn vilja móðurinnar. Við getum líka snúið þessu við. Marie Curie eignaðist sitt fyrsta barn þegar hún var þrítug. Beyoncé var þrjátíu og eins. Ég held að þær hefðu fetað aðra braut hefðu þær orðið ófrískar á óheppilegum tíma, já eða „óheppilegan hátt.“ Hann nefnir líka kunningjakonu sína sem eyddi stúlkubarni. Fóstur eru kyngreind í sónar á 18.-22. viku. Og aftur: "Valkvæðar" fóstureyðingar eru framkvæmdar á fyrstu tólf vikum meðgöngu. Og hver er þessi útvarpsmaður sem notar orðalagið „að leggja blessun sína yfir fóstureyðingar?“ Munu fleiri útvarpsmenn fylgja í kjölfarið og leggja blessun sína (eða ekki) yfir hluti sem koma þeim ekki við? Ætli Ólafur Páll Gunnarsson sé tilbúinn að leggja blessun sína yfir það að þegar ég fer á Bæjarins bestu þá panta ég mér ekki pulsu, heldur pulsubrauð með steiktum og tómat?
Ég geri mér fulla grein fyrir því að ummæli forsetaframbjóðanda og gríntýpu sem sendir inn svona greinar á miðil sem birtir allt, hafa mismikið vægi. Þetta sýnir okkur samt að fólk á ýmsum stigum samfélagsins, og út um allt, á í engum vandræðum með að tjá sig um og eigna sér píkur og leg annara. Mér finnst það óþægilegt. Látið kynfærin mín í friði strákar.