Þetta er ekkert sérstaklega skemmtilegt kjaftæði. Eiginlega meira eins og aðsent bréf í Heimili og skóla. Hvað um það, þetta er mitt kjaftæði og ég ræð. Frjálst land. Sorrí að ég sé til.
Nauðgun.
Ég man ekki hvenær eða hvernig nauðgun var útskýrð fyrir mér í fyrsta sinn. Ég man hins vegar að ég málaði mynd í hausnum á mér af ófrýnilegum körlum sem drógu ókunnugar konur inn í dimm húsasund. Ég vissi fyrir að Steingrímur Njálsson væri vondur maður sem gerði ógeðslega hluti við börn sem hlupu ekki nógu hratt undan honum, bollur eins og mig. Myndin sem ég sá af honum í DV er brennd í heilann á mér að eilífu, rétt eins og DVD–skjáhvílan á gamla sjónvarpinu mínu. Af og til dreymdi mig Steingrím meira að segja. Hann var að horfa á mig þvo mér með stóru sápustykki og talaði eins og Bessi Bjarnason í hlutverki Mikka refs. Já, þessar upplýsingar hjálpuðu mér nákvæmlega ekki neitt. Án þess að ég viti nokkuð um líkamlegt hreysti Steingríms Njálssonar á 9. áratugnum þá gef ég mér það að hann hafi getað hlaupið hraðar en flest börn.
Í síðustu viku las ég fjöldann allan af frásögnum kvenna á Twitter–reikningi Hildar Lilliendahl. Þær sögðu frá fyrsta kynferðisbrotinu sem þær urðu fyrir. Takið eftir … fyrsta. Af mörgum. Það er auðvitað algjör geggjun en núna finnst mér ég þurfa að slá nokkra varnagla. Það er enginn að segja að allar konur hafi orðið fyrir þessari reynslu, eða að aðeins konur hafi orðið fyrir þessari reynslu. Já, karlmönnum er líka nauðgað (hæ, kommentakerfi!) og stundum meira að segja af konum. Já, konur eru færar um að ljúga. Karlar líka. Og stundum falla armadillóar af himnum ofan í Texas. En burt séð frá öllu þessu þá eru flestir kynferðisafbrotamenn karlar og flestir þolendur konur.
Langfæstir kynferðisafbrotamenn eru hins vegar ógeðslegir karlar sem fela sig í dimmum húsasundum og langfæstir þolendur eru ókunnugar konur. Sögurnar sem við höfum öll heyrt, um nauðgaragengi með botnlaus tjöld á útihátíðum, eru undantekningar. Algengustu brotin eru framin af venjulegum karlmönnum og oftast gegn konum sem þeir þekkja.
Ég á son og stjúpson. „Mikið er ég nú feginn að eiga stráka,“ er hugsun sem hefur hvarflað að mér, ég viðurkenni það. Minni líkur á að þeir lendi í klónum á einhverju ógeðsliði. En eftir að ég las sögurnar hjá Hildi fór ég smám saman að átta mig á því að ábyrgð mín sem uppalandi er töluvert meiri þegar kemur að þessum málaflokki en ef ég ætti bara stelpur. Ég þarf að sjá til þess að drengirnir alist upp, vitandi það að sumt gerir maður ekki. Vitandi það að þó þeir fái fiðring í typpið, þá hafi þeir engan rétt á að ota því að einhverjum sem hefur ekki áhuga. Að þeir læri að lesa í aðstæður og virða „nei“–ið, hvort sem það er í formi orða eða látbragðs. Að þögn sé ekki sama og samþykki. Að þeim finnist þeir ekki eiga heimtingu á öllu þó þeir fái smá. Að suð sé ekki sexí. Að það sé ekki í lagi að klípa ókunnugt fólk. Að þeir geri sér grein fyrir því að gjörðir þeirra geti haft langvarandi áhrif á aðra. Að klámið sem þeir munu óhjákvæmilega horfa á sé ekki raunverulegt. Að ef þeir horfi á það séu þeir ekki að horfa á hressar brjóstabínur sem eru til í allt, heldur manneskjur sem búið er að brjóta niður andlega og líkamlega. Með öðrum orðum, ég þarf að gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að þeir verði ekki fávitar.
Hins vegar veit ég ekki hvernig í helvítinu ég á að geta minnkað líkurnar á að þeir verði fyrir kynferðisofbeldi. Mögulega með því að banna þeim að fara út úr húsi án þess að ég fylgi þeim upp að dyrum, hvert sem þeir fara. En meira að segja þá er ég ekki búinn að gulltryggja neitt. Þeir þurfa jú að stunda skóla, íþróttir og aðrar tómstundir, þar sem kynferðisafbrotamenn geta auðvitað látið til skarar skríða.
Ein hugmynd hérna. Hvað með að ég sleppi því að valda martröðum með því fræða börnin mín um allt það hræðilega sem þau gætu mögulega orðið fyrir og kenni þeim frekar eðlilega framkomu við aðra? Virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Þetta sem ég taldi upp hér ofar. Ef þú gerir síðan það sama með þínum börnum erum við búin að minnka líkurnar töluvert á því að börnin okkar misnoti hvert annað í framtíðinni. Það er nefnilega um það bil milljón sinnum líklegra að þér takist að koma í veg fyrir að barnið þitt verði gerandi en þolandi.
Auðvitað hlakka ég ekki til þess að taka þessa umræðu. Að heyra „Jæja strákar, nú ætla ég að ræða við ykkur um kynlíf,“ frá miðaldra manni með coffee breath er eitthvað sem öllum þykir eflaust óþægilegt. Allavega til að byrja með. En það er bókað auðveldara en að heimsækja son sinn á Litla Hraun. Skárra en að þurfa að fela sig í mjólkurkælinum í Bónus eftir að hafa rekist á foreldra brotaþola. Að þurfa að ljúga því að sjálfum sér að stelpan sé nú svona og svona og það séu tvær hliðar á öllum málum.
Ég get ekki komið vitinu fyrir ófreskjur í húsasundum. En mér ber skylda til að gera mitt allra besta til að stuðla að því að venjulegu karlmennirnir sem ég er að ala upp fremji ekki sama glæp og þeir.