Venjulegar ófreskjur

Haukur Viðar Alfreðsson

Þetta er ekk­ert sér­stak­lega skemmti­legt kjaftæði. Eig­in­lega meira eins og aðsent bréf í Heim­ili og skóla. Hvað um það, þetta er mitt kjaftæði og ég ræð. Frjálst land. Sorrí að ég sé til.

Nauðg­un.

Ég man ekki hvenær eða hvernig nauðgun var útskýrð fyrir mér í fyrsta sinn. Ég man hins vegar að ég mál­aði mynd í hausnum á mér af ófrýni­legum körlum sem drógu ókunn­ugar konur inn í dimm húsa­sund. Ég vissi fyrir að Stein­grímur Njáls­son væri vondur maður sem gerði ógeðs­lega hluti við börn sem hlupu ekki nógu hratt undan hon­um, bollur eins og mig. Myndin sem ég sá af honum í DV er brennd í heil­ann á mér að eilífu, rétt eins og DVD–skjá­hvílan á gamla sjón­varp­inu mínu. Af og til dreymdi mig Stein­grím meira að segja. Hann var að horfa á mig þvo mér með stóru sápu­stykki og tal­aði eins og Bessi Bjarna­son í hlut­verki Mikka refs. Já, þessar upp­lýs­ingar hjálp­uðu mér nákvæm­lega ekki neitt. Án þess að ég viti nokkuð um lík­am­legt hreysti Stein­gríms Njáls­sonar á 9. ára­tugnum þá gef ég mér það að hann hafi getað hlaupið hraðar en flest börn.

Auglýsing

Í síð­ustu viku las ég fjöld­ann allan af frá­sögnum kvenna á Twitt­er–­reikn­ingi Hildar Lilli­endahl. Þær sögðu frá fyrsta kyn­ferð­is­brot­inu sem þær urðu fyr­ir. Takið eftir … fyrsta. Af mörg­um. Það er auð­vitað algjör geggjun en núna finnst mér ég þurfa að slá nokkra varnagla. Það er eng­inn að segja að allar konur hafi orðið fyrir þess­ari reynslu, eða að aðeins konur hafi orðið fyrir þess­ari reynslu. Já, karl­mönnum er líka nauðgað (hæ, kommenta­kerf­i!) og stundum meira að segja af kon­um. Já, konur eru færar um að ljúga. Karlar líka. Og stundum falla arma­dill­óar af himnum ofan í Texas. En burt séð frá öllu þessu þá eru flestir kyn­ferð­is­af­brota­menn karlar og flestir þolendur kon­ur.

Lang­fæstir kyn­ferð­is­af­brota­menn eru hins vegar ógeðs­legir karlar sem fela sig í dimmum húsa­sundum og lang­fæstir þolendur eru ókunn­ugar kon­ur. Sög­urnar sem við höfum öll heyrt, um nauð­gara­gengi með botn­laus tjöld á úti­há­tíð­um, eru und­an­tekn­ing­ar. Algeng­ustu brotin eru framin af venju­legum karl­mönnum og oft­ast gegn konum sem þeir þekkja.

Ég á son og stjúp­son. „Mikið er ég nú feg­inn að eiga stráka,“ er hugsun sem hefur hvarflað að mér, ég við­ur­kenni það. Minni líkur á að þeir lendi í klónum á ein­hverju ógeðsliði. En eftir að ég las sög­urnar hjá Hildi fór ég smám saman að átta mig á því að ábyrgð mín sem upp­alandi er tölu­vert meiri þegar kemur að þessum mála­flokki en ef ég ætti bara stelp­ur. Ég þarf að sjá til þess að drengirnir alist upp, vit­andi það að sumt gerir maður ekki. Vit­andi það að þó þeir fái fiðr­ing í typp­ið, þá hafi þeir engan rétt á að ota því að ein­hverjum sem hefur ekki áhuga. Að þeir læri að lesa í aðstæður og virða „nei“–ið, hvort sem það er í formi orða eða lát­bragðs. Að þögn sé ekki sama og sam­þykki. Að þeim finn­ist þeir ekki eiga heimt­ingu á öllu þó þeir fái smá. Að suð sé ekki sexí. Að það sé ekki í lagi að klípa ókunn­ugt fólk. Að þeir geri sér grein fyrir því að gjörðir þeirra geti haft langvar­andi áhrif á aðra. Að klámið sem þeir munu óhjá­kvæmi­lega horfa á sé ekki raun­veru­legt. Að ef þeir horfi á það séu þeir ekki að horfa á hressar brjóstabínur sem eru til í allt, heldur mann­eskjur sem búið er að brjóta niður and­lega og lík­am­lega. Með öðrum orð­um, ég þarf að gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að þeir verði ekki fávit­ar.

Hins vegar veit ég ekki hvernig í hel­vít­inu ég á að geta minnkað lík­urnar á að þeir verði fyrir kyn­ferð­is­of­beldi. Mögu­lega með því að banna þeim að fara út úr húsi án þess að ég fylgi þeim upp að dyr­um, hvert sem þeir fara. En meira að segja þá er ég ekki búinn að gull­tryggja neitt. Þeir þurfa jú að stunda skóla, íþróttir og aðrar tóm­stund­ir, þar sem kyn­ferð­is­af­brota­menn geta auð­vitað látið til skarar skríða. 

Ein hug­mynd hérna. Hvað með að ég sleppi því að valda martröðum með því fræða börnin mín um allt það hræði­lega sem þau gætu mögu­lega orðið fyrir og kenni þeim frekar eðli­lega fram­komu við aðra? Virð­ingu fyrir sjálfum sér og öðr­um. Þetta sem ég taldi upp hér ofar. Ef þú gerir síðan það sama með þínum börnum erum við búin að minnka lík­urnar tölu­vert á því að börnin okkar mis­noti hvert annað í fram­tíð­inni. Það er nefni­lega um það bil milljón sinnum lík­legra að þér tak­ist að koma í veg fyrir að barnið þitt verði ger­andi en þol­andi.

Auð­vitað hlakka ég ekki til þess að taka þessa umræðu. Að heyra „Jæja strák­ar, nú ætla ég að ræða við ykkur um kyn­líf,“ frá mið­aldra manni með cof­fee bre­ath er eitt­hvað sem öllum þykir eflaust óþægi­legt. Alla­vega til að byrja með. En það er bókað auð­veld­ara en að heim­sækja son sinn á Litla Hraun. Skárra en að þurfa að fela sig í mjólk­ur­kæl­inum í Bónus eftir að hafa rek­ist á for­eldra brota­þola. Að þurfa að ljúga því að sjálfum sér að stelpan sé nú svona og svona og það séu tvær hliðar á öllum mál­um.

Ég get ekki komið vit­inu fyrir ófreskjur í húsa­sund­um. En mér ber skylda til að gera mitt allra besta til að stuðla að því að venju­legu karl­menn­irnir sem ég er að ala upp fremji ekki sama glæp og þeir.

Meira úr Kjarnanum