Ég trúi varla að ég sé að skrifa þetta, en mér verður reglulega hugsað til dálítils sem Björn Ingi Hrafnsson sagði einu sinni við mig.
Nánar tiltekið hvarflar hugurinn gjarnan til þess þegar ég velti fyrir mér samspili fjölmiðla og stjórnmála, sem gerist oftar en ég mundi vilja. Það er áhugavert samlífi og ekki óalgengt að sama fólk hafi reynslu af störfum við hvort tveggja. Það er líka ekkert skrýtið, það er æskilegt að þeir sem starfa við fréttamennsku hafi víðfeðman og almennan áhuga og þekkingu á samfélagsmálum, og eðli málsins samkvæmt gildir það sama um þá sem starfa í pólitík – að svipaðar manngerðir og jafnvel sömu einstaklingar skuli leita á báða starfsvettvanga er viðbúið og eðlilegt.
Það sem er hins vegar skrýtið er hvað það virðist stundum vera lítil fylgni á milli þess að pólitíkusar hafi starfað á fjölmiðlum og að þeir hafi skilning á eðli þeirra og samúð með starfsumhverfi þeirra og vinnuaðferðum. Stundum virðist manni að þeir stjórnmálamenn sem hafa bakgrunn úr fjölmiðlum séu jafnvel enn gjarnari á að kvarta undan umfjöllun um sig og sinn flokk en aðrir, væla undan ósanngirni og dylgja um annarlegar hvatir og samantekin ráð miðlanna og pólitískra andstæðinga þeirra um að klekkja á þeim.
Nokkrar tilgátur
Hvernig ætli geti staðið á þessu?
Er þetta af því að þeir þekkja heim fjölmiðlanna og vita sem er að þar eru í alvörunni allir alltaf í herferðum gegn hinum og þessum og að brugga pólitísk samsæri sem þeir reyna svo að matreiða sem óhlutdrægan fréttaflutning? Eru þeir ofvaxna barnið í jakkafötunum sem er einfaldlega að benda á að keisarinn er nakinn í sjónvarpinu að segja okkur fréttir? Eru þeir bara að segja satt?
Eða er þetta af því að þeir voru þannig fjölmiðlamenn sjálfir – alltaf með pólitískt agenda í umfjöllun sinni – og gera þess vegna ráð fyrir að aðrir hljóti að vera það líka? Ef það væri málið væru þeir viljandi eða óviljandi að líta fram hjá því grundvallaratriði sem aðgreinir þá frá öðrum fjölmiðlamönnum og er forsenda allrar þessarar umræðu: þeir hættu í fjölmiðlum til að fara í pólitík, hinir ekki.
Eða telja þeir sig bara þekkja nógu vel inn á fjölmiðlana til að vita að það sé hægt að sveigja þá og beygja að sínum vilja með nógu miklum kveinstöfum og ágangi, og gildi þá einu hvort gagnrýnin sé réttmæt og særindin raunveruleg? Eru þeir að gera sér upp hneykslun og reiði í von um að fréttamaðurinn hugsi sig tvisvar um næst?
Ég veit það ekki, en gæti trúað að eitthvað af þessu sé rétt – kannski dass af þessu tvenna síðarnefnda sem leggst svo ofan á aðalástæðuna sem er óháð öllum fjölmiðlabakgrunni.
Binga saga
Vegurinn á milli þessara tveggja starfsvettvanga er fjölfarnari í aðra áttina en hina – fleiri spreyta sig í fjölmiðlum á leið sinni í stjórnmálin en öfugt. Þegar ég skoðaði þetta fyrir einhverjum árum hafði vel rúmur meirihluti þáverandi þingflokks Sjálfstæðisflokksins verið blaðamaður á Mogganum um lengri eða skemmri tíma. Færri fara hina leiðina – það eru þá aðallega gamlir þingmenn og ráðherrar sem er plantað í ritstjórastóla hér og þar. Vissulega hafa margir fjölmiðlamenn einhvern bakgrunn úr ungliða- eða stúdentapólitík, en það er öðruvísi – hún er sjaldnast viðfangsefni fjölmiðlanna sjálfra og þess vegna fær fólk ekki jafnmikil tækifæri í slíku starfi til að næra í sér tortryggnina og aðsóknarkenndina.
Komum við þá aftur að því sem Björn Ingi Hrafnsson, nú fjölmiðlamógúll en þá fyrrverandi borgarfulltrúi, sagði við mig. Eða hann sagði þetta kannski ekki beint við mig, heldur meira í minni viðurvist, og kannski ekki einu sinni við neinn sérstakan – þetta var meira í ætt við óformlega yfirlýsingu – og þótt það væri líklega ofmælt að ég hafi litið á Björn Inga sem einhvers konar læriföður minn þá hefur þetta sem hann sagði engu að síður setið í mér í öll þessi ár.
Björn Ingi er einn af þeim sem hafa farið báðar leiðir á milli pólitíkur og fjölmiðla. Hann byrjaði í blaðamennsku sem smástrákur á Flateyri, skrifaði þaðan í Moggann, vann sig upp í stöðu þingfréttaritara áður en hann fór í stjórnmálin sem frægt varð.
Það var svo í aprílbyrjun 2008 sem leiðir okkar lágu saman á Fréttablaðinu. Mánuðirnir á undan höfðu verið farsakenndir, Björn Ingi hafði verið í brennidepli fjölmiðla í REI-málinu svokallaða og á endanum hrakist úr borgarstjórn undan ásökunum um óhófleg fatakaup í kosningabaráttu tveimur árum fyrr. Guðjón Ólafur Jónsson, gamall vinur hans og samherji, sagðist vera með heilt hnífasett í bakinu eftir Björn Inga. Allt var þetta bæði fyndið og tragískt eins og svo margt.
Hann var viðfangsefni frétta svo til vikulega en tveimur mánuðum eftir afsögnina birtist hann allt í einu á ritstjórn Fréttablaðsins. Björn Ingi hafði verið ráðinn ritstjóri Markaðarins, fylgirits blaðsins um viðskipti og efnahagsmál, meira og minna án vitundar eða vilja annarra stjórnenda blaðsins.
Andrúmsloftið var einkennilegt, og í einum af göngutúrum sínum yfir ritstjórnargólfið sagði hann okkur frá því í óspurðum fréttum að hann væri læknaður – það hefði bara tekið hann nokkra daga frá afsögninni úr borgarstjórn að losna við þá tilfinningu að annar hver maður í samfélaginu væri beinlínis andstæðingur hans, að stjórnmálin væru slíkur bönker að það að segja skilið við þau hefði verið eins og að losna úr álögum, vakna úr transi, að skyndilega hefði hann séð skýrt að úti um allt væri bara fólk að vinna vinnuna sína án þess að það hefði endilega að markmiði að annað hvort eyðileggja fyrir honum eða hjálpa honum. Í minningunni talaði hann eins og frelsaður fíkill.
Krónísk vænisýki
Kannski var hann bara að reyna að koma sér í mjúkinn hjá blaðamönnum sem hann hélt, eflaust réttilega, að litu á hann sem einn af kvartsáru pólitíkusunum – hann hefði jú verið einn af mörgum sem hefðu gert athugasemdir við eitt og annað sem skrifað hafði verið um þá í ritstjórnardálkum og víðar. Kannski var hann aldrei svona djúpt í bönkernum – kannski var hann og er enn í honum. Kannski voru aðrir stjórnmálamenn það ekki þótt hann hefði verið það. Hann var auðvitað heldur ekkert bara að tala um fjölmiðla.
Og kannski man hann þetta ekki eins og ég, hann leiðréttir mig þá.
Ég held hins vegar að þarna sé komin hin ofureinfalda skýring á því að Oddný Harðardóttir skuli túlka létt spjall í Vikunni með Gísla Marteini sem atlögu að Samfylkingunni, að Bjarni Benediktsson rjúki upp til handa og fóta þegar Kastljós fjallar um neyðarlán Seðlabankans til Kaupþings fyrir átta árum, tekur hana til sín persónulega og fyrir hönd flokksins og talar um að fréttinni hafi verið „plantað vegna kosninganna“, að Vigdís Hauksdóttir sé eins og hún er, að Sigmundur Davíð sé verstur allra þrátt fyrir alla sína fjölmiðlareynslu – dæmin eru óteljandi: ástæðan er sú að stjórnmál gera fólk ofsóknarbrjálað.
Það er ekki flókið en það er auðvitað ekki heldur nógu gott og einhver gerði vel í að reyna að breyta tendensnum sem veldur þessu. Ekki síst af því að þetta magnast upp í kringum kosningar, og einmitt þá erum við einhvern veginn öll komin með eina tána í pólitík og fáum þar með snert af þessari vænisýki. Og við megum eiginlega ekki við því að vera svona tens.