Sæll, Guðni. Má ég kalla þig Guðna? Þú þekkir mig ekki. Ég heiti Atli Fannar en ég ætla ekki að gefa upp hvort ég hafi kosið þig í vor. Ég kýs hins vegar að æfa á sama stað og bróðir þinn…
…
Allavega. Ég skrifa þér þetta bréf vegna þess að ég er ánægður með þig. Engin kaldhæðni. Ég er einlægur hérna — fullkomlega berskjaldaður og í snertingu við tilfinningar mínar.
Þú ert búinn að standa þig vel þessa fyrstu mánuði í embætti en þeir hafa eflaust ekki verið auðveldir. Þú ferð ekki í Krónuna til að kaupa vítamín eða á Domino’s án þess að fjölmiðlar birti um það fréttir. Ég veit allt um það, enda skrifaði ég fréttina um Megavikuferðina sjálfur og birti á fréttavefnum mínum. Þessar ferðir rata í fréttir vegna þess að við erum ekki vön því að forsetinn hagi sér eins og venjulegur maður.
Ég get líka trúað að starfið hafi ekki alltaf verið skemmtilegt. Ég skoðaði reglulega dagskrá forsetans þegar Ólafur Ragnar var í embætti og furðaði mig á því að nokkur maður nennti þessu. Dagskráin hefur lítið breyst eftir að þú tókst við en samkvæmt henni ertu til dæmis búinn að taka á móti hópi fullorðinna skáta, sendiherrum Litháhens og Kúveits, stjórn Evrópska handknattleikssambandsins og sendinefnd frá kínverska fyrirtækinu Sinopec Group þar sem Wang Yupu var í broddi fylkingar.
Þú ert líka búinn að leggja hornstein stöðvarhúss Þeistareykjavirkjunar, eiga fund með forseta Evrópuráðsþingsins og opna útvegssýninguna Sjávarútvegur 2016 ásamt henni Elizu okkar. Svo ertu búinn að hleypa af stokkunum söfnunarátaki Kiwanishreyfingarinnar á Íslandi, eiga fund með bæjarstjórn Vesturbyggðar og heimsækja Patreksskóla, sem er grunnskólinn á Patreksfirði. Pabbi minn er einmitt þaðan.
Vissulega færðu að hitta allskonar fólk en ég á bágt með að trúa að hver dagur í starfi forseta sé rússibanareið. Fólk er misjafnt og það eru ekki góðar líkur á því að þú fáir að hitta skemmtilegt fólk á hverjum degi, þó mér finnist líklegt að sendiherra Kúveit sé mjög hress náungi. En þú ert forseti Íslands og starfið er að sjálfsögðu ekki allra. Ég gæti til dæmis ekki sinnt þessu starfi, einfaldlega vegna þess að ég myndi ekki þola það að svona margt fólk ætlist til þess að fá að hitta mig, taka í höndina á mér og tala við mig um vinnuna sína.
Mér líður hins vegar mjög vel að vita af þér í starfinu og ég held að þú hafir gaman að þessu. Eða ég vona það. Annars eru hræðileg ár framundan á Bessastöðum. Það sem ég er hins vegar að reyna að koma orðum að, er að ég er ánægður með þig. Svo ánægður að ég ákvað að skrifa þetta bréf.
Ég ákvað semsagt að skrifa þér bréf eftir blaðamannafundinn á Bessastöðum í vikunni. Var þetta ekki annars stærsta verkefnið eftir að þú tókst við? Að veita stjórnarmyndunarumboð (mér sem fannst merkilegt að elda ommilettu á miðvikudaginn). Þetta var allavega aðeins mikilvægara en fundurinn þinn með stjórn Evrópska handknattleikssambandsins um daginn.
Það var samt ekki efni fundarins sem heillaði mig heldur framkoma þín, sem kristallaðist þegar þú varst spurður hver myndi fá hluta launa þinna, sem þú ætlar að gefa frá þér í kjölfar ríflegrar launahækkunar.
„Þarf ég að segja það? Á ég að vera einhver móðir Teresa hérna sem gortir sig af því?“
Minn maður.
Ég veit ekki hvort þú áttir þig á hversu hressandi það er að sjá embættismann svara eins og maður, án þess að fjölmiðlar þurfi að túlka svörin næstu vikurnar. Það sem þú sagðir var alveg skýrt en þú tókst meira að segja sjálfur að þér að fyrirbyggja allan misskilning í færslu á Facebook síðar um daginn. Það er örugglega skrýtið að vera allt í einu kominn með einkabílstjóra og þrjár milljónir á mánuði en þú virðist samt ekki ætla að umbreytast í hefðbundinn embættismann.
Og ég ber mjög mikla virðingu fyrir því.
Guðni, ég starfaði einu sinni á fjölmiðli þar sem það var opinber stefna ritstjórans að hrósa aldrei. Ég fylgi ekki þessari stefnu og vil því nota þennan vettvang til að hrósa þér fyrir góða frammistöðu á fyrstu mánuðum þínum í embætti. Þetta lofar bara mjög góðu og ég sé ekki eftir að hafa kosið … að lyfta lóðum á sama stað og bróðir þinn.
Þinn vinur,
Atli Fannar