Þessi pistill fjallar ekki um Donald Trump … djók. Auðvitað fjallar hann um Donald Trump.
Ég fór að sofa um klukkan hálftvö eftir miðnætti, eftir að hafa rýnt í fyrstu tölur og nánast fullvissað mig um að það væri ekkert að óttast. Að ég myndi vakna að morgni, kíkja á fréttasíðurnar og fá þær ánægjulegu fréttir að kona gegndi nú loksins einu valdamesta embætti heims, vonandi eftir sögulegt rúst á mótframbjóðandanum. Hún var að minnsta kosti aldrei að fara að tapa fyrir þessum snarbilaða bjálfa, ekki séns.
Nóttin fór meira og minna í það að reyna að svæfa annan og mun yngri bjálfa, níu mánaða son minn, sem ákveður stundum að vaka þegar allir aðrir sofa. Þegar hann sofnaði loksins um sexleytið ákvað ég að taka stöðutékk á kosningunum áður en ég legði mig fram að gargi vekjaraklukkunnar. Sá blundur fór fyrir lítið, enda varð mér líkamlega illt þegar ég sá í hvað stefndi.
Það gerðist margt fáránlegt á þessu ári. Það að Donald Trump hafi verið kjörinn forseti Bandaríkjanna er samt það fáránlegasta af öllu. Nýja Toblerónið, vinátta Pútíns og Steven Seagal, Axl Rose að syngja með AC/DC, meint geimferðaplön konu Sigmundar Davíðs — allt þetta til samans er minna fáránlegt en að Donald Trump sé að verða forseti.
Þegar úrslitin voru hérumbil ljós ávarpaði hann lýðinn og þar talaði mun geðslegri og yfirvegaðri Trump en við sáum í kosningabaráttunni. Fyrir nokkrum vikum ætlaði hann að sjá til þess að Hillary færi í fangelsi. Núna segir hann hana eiga þakkir skilið fyrir störf í þágu þjóðarinnar. Áður vildi hann reisa múr á milli Bandaríkjanna og Mexíkó. Núna ætlar hann að byggja brýr, skóla og spítala. Um daginn lofaði hann því að senda alla múslima úr landi. Núna segist hann ætla að verða forseti allra Bandaríkjamanna, óháð trú þeirra og uppruna.
Já, það er nokkuð ljóst að Trump slær flestum við þegar kemur að lýðskrumi. Lengi vel þótti mér alveg eins líklegt að framboð hans væri einungis samfélagsleg tilraun einmana skrilljarðamærings til að komast að því hvað hægt sé að hrópa mikla þvælu áður en maður er bremsaður af. Svona eitthvað í líkingu við athyglissjúkt internettröll, sem Trump reyndar er. En aldrei fengum við „nei djók“–ið sem við vonuðumst eftir. Og núna er hann á leiðinni í Hvíta húsið.
Hvernig gat þetta gerst? Hvernig getur einhver krossað við svona slappa týpu á atkvæðaseðli, hvað þá 60 milljón manns?
Ég ætla ekki einu sinni að reyna að svara þessu. Svörin eru líka svo mörg. Sumir trúa því eflaust í einlægni að Donald Trump muni takast að „gera Bandaríkin stórfengleg á ný“. Aðrir kjósa alltaf eftir flokkslínum, sama hvaða hlandhaus er í framboði. Einn hópur getur ekki ímyndað sér að kona geti orðið jafn góður forseti og karl. Aðrir bara einfaldlega hata Hillary. Einhverjir eru ennþá spældir yfir tapi Bernie Sanders og tóku gamla, góða „fokkit!“–ið á þetta. Svo er það fólkið sem veit fátt fyndnara og skemmtilegra en gamlir klikkhausar sem rífa kjaft. Sami hópur og finnst Charlie Sheen ógeðslega kúl og fyndin týpa, burt séð frá þeirri staðreynd að hann er ofbeldismaður og fíkill. Sami hópur og finnst Chuck Norris nettur gaur, þrátt fyrir að vera rasisti og hommahatari. Allt hefur þetta eitthvað vægi, mismikið eflaust, svo ekki sé minnst á allar hinar ástæðurnar fyrir kjöri Trump sem klárara fólk en ég hefur nefnt.
En núna sitjum við uppi með hann. Helvítis Trump! Vonandi skárri en Pútín en að öllum líkindum töluvert verri en Hillary, þrátt fyrir að hún sé með ýmislegt á samviskunni.
Reynum samt að líta á björtu hliðarnar. Þó að við séum mögulega öll að fara að bráðna öskrandi undir sveppaskýi einhvern tímann á næstu 4–8 árum er gott að fá staðfestingu á því að það eru ekki bara Íslendingar sem breytast í greindarskerta einfrumunga þegar þeir stíga inn í kjörklefa.
Mér líður samt alls ekki vel. Trump er hættulegur maður og bráðum verður hann einn valdamesti maður veraldar. Ég finn sömu ógeðstilfinninguna og ég upplifði þegar Snorri Steinn klúðraði vítinu í Ungverjaleiknum á ÓL 2012. Þá sömu og þegar hið frábæra „Það sem enginn sér“ fékk ekki eitt einasta stig í Eurovision 1989. Þá sömu og þegar óumdeilanlega versta manneskja heims, Boston Rob, varð í öðru sæti í Survivor: All-Stars — og kærastan hans vann milljón dollara.
Nei, ókei. Það var reyndar aðeins verra.