Ég hef aldrei litið á líkama minn sem musteri. Líkami minn hefur alltaf verið meira eins og einn af þessum hálfyfirgefnu verslunarkjörnum í úthverfunum; Austurver, Mjóddin, Grímsbær, Miðbær við Háaleitisbraut. Líkami minn er eins og Eiðistorg; bygging sem varð til af metnaði og von – var eitt sinn full af hlátri barna, en síðan þá hefur leikfangaverslunin lokað, hljóðfæraverslunin lokað. Það er búið að steypa upp í gosbrunninn og í staðinn fyrir sjoppuna er komin myrk hasspípuverslun. Eina sem stendur eftir er einn tragískur bar og rakarastofan sem bíður þolinmóð eftir því að síðasti fastakúnninn látist af náttúrulegum orsökum.
Þrátt fyrir þetta er ég núna að reyna að berjast gegn flóðinu með því að mæta í líkamsrækt nokkrum sinnum í viku. Ég fann nefnilega nýtt prógramm og app sem segir mér nákvæmlega hvaða lóðum ég á að lyfta, hversu þung þau eiga að vera og hversu oft. Þetta er auðvitað ekki í fyrsta skipti sem ég geri þetta. Ég hef gengið í gegnum alls konar lyftingaprógrömm og mataræði sem á að breyta lífi mínu. Ég hef borðað sex sinnum á dag, einu sinni á dag, annan hvern dag, ekki eftir klukkan sjö á kvöldin og ekki fyrir hádegi á daginn. Ég hef skorið burt kolvetni, mjólkurvörur, fitu, sykur. Labbað 10.000 skref á dag, hlaupið þrisvar í viku, æft hnefaleika og Víkingaþrek. Allt hefur þetta breytt öllu, svona á meðan það varði.
Það sem ég þrái er að halda áfram að þróast, að standa ekki í stað. Ég er eilíft þyrstur í að breytast. Erum við það ekki öll? Er það ekki ástæðan fyrir því að við skráum okkur á Crossfitnámskeið eða í MBA-nám? Lesum matar- og lífstílsblogg, reynum að rækta okkar eigin súr, rækta okkar eigin chiliplöntur? Reynum að læra að sauma út, prjóna, smíða sólpall, tala frönsku, halda úti heimilisbókhaldi í Excel?
Á sama hátt gerum við kröfu til umhverfis okkar að það standi ekki heldur í stað, að það haldi áfram að þróast og breytast. Við viljum mislæg gatnamót, fleiri græn svæði, fleiri hjólastíga, breikkun á stofnæðum, blandaða byggð. Við viljum fleiri virkjanir, færri virkjanir, hálendisþjóðgarð, göng undir Vaðlaheiði. Við viljum ný stjórnmál, nýja stjórnarskrá, betri umræðuhefð. Þorstinn í eitthvað nýtt og breytt er óseðjandi, endalaus. Ný tónlist, nýjar kvikmyndir, heilar sjónvarpsseríur í einu. Allt gerist strax, maður veit allt strax. Þegar fréttir birtast á bleki í dagblöðum gætu þær allt eins hafa gerst á einhverri annari öld.
Á samfélagsmiðlum keppast allir við að framleiða nýtt efni allan daginn; nýjar skoðanir, nýja brandara. Það er svo mikið brandaraálag á Twitter að það er ómögulegt að framleiða nýtt efni – ég er meira að segja byrjaður að endurvinna gamla brandara eftir sjálfan mig án þess að fatta það. Allt nýtt verður gamalt verður nýtt. Meira að segja byrjunin á þessum pistli er vísun í gamlan Facebook-status. Einu sinni gat maður samið einn góðan brandara og það dugði manni út árið; sagt hann í jólaboði, afmælisveislum, partíum, heita pottinum, fyrsta stefnumóti. Það var ekki fyrr en maður mætti í sama jólaboðið að ári sem maður þurfti að semja nýtt efni. Allur ferill Pablo Francisco gekk út á að ferðast um heiminn og vona að fólk væri ekki búið að heyra Little Tortilla Boy 100 sinnum.
Þessi óseðjandi þorsti í breytingar endurspeglast í síðustu kosningum. Við köllum eftir nýjum stjórnmálum. Ný stjórnmál kalla á nýja stjórnmálaflokka. Á endanum eru tólf flokkar í framboði, sjö komast á þing og núna þurfum við að púsla saman ríkisstjórn einhverra þeirra. Aumingja Guðni Th. situr eins og kófsveittur Dr. Mengele á Bessastöðum og reynir að sauma saman handahófskennda líkamsparta til þess að búa til einhverskonar skandinavískan velferðarríkis-uppvakning.
Hvers vegna fá flokkarnir í ríkisstjórninni sem var felld í mótmælahrinu ennþá 40% atkvæða? Líklega því að við viljum, þegar allt kemur til alls, engar breytingar. Að minnsta kosti ekki breytingar sem eru sársaukafullar eða kosta okkur eitthvað. Fjölmenning kostar, jafnrétti kostar, jöfnuður kostar. Það þarf alltaf einhver átök til að rétta af kerfi, hugsa suma hluta þess upp á nýtt. Af hverju að rugga bátnum þegar við (verandi ég sem hagnast á núverandi kerfi) höfum það bara ágætt?
Þórður Snær varar í ágætum leiðara við því að við séum enn að bíða eftir okkar eigin popúlísku brjálæðingum. Hvar er okkar Trump? Okkar Le Pen? Okkar Svíþjóðardemókratar? Íslenska þjóðfylkingin náði aldrei flugi þrátt fyrir vel heppnaðan stofnfund á Café Catalinu. Það þýðir samt ekki að afturhaldssöm einangrunarstefna hafi ekki náð fótfestu á Íslandi. Þvert á móti hafa kerfisvarnarflokkarnir tveir, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, verið mjög klókir í að halda þeim úlfum hangandi á sínum geirvörtum. Í hvert skipti sem menn eins og Ásmundur Friðriksson segja eitthvað rasískt og klikkað er svarið að orð hans „samræmist ekki stefnu flokksins“. Það er gott og blessað, en þegar honum er laumað í 2. sætið á lista og beint inn á þing er það annars konar, lævísara samþykki. Auðvitað eru ekki allir í þessum flokkum rasistar, en á meðan orðræðan er látin viðgangast gerast þau sek um rasisma af gáleysi.
Okkar eigin Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skrifaði pistil þar sem hann hamraði á því að stjórnmálamenn verði að þora að „taka umræðuna“ um viðkvæm mál eins og innflytjendamál. Það er vinsæl mantra þeirra sem vilja ekki staðhæfa rasíska hluti, en velta þeim svona aðeins fyrir sér. Smá racist-curious .
Við erum hins vegar alltaf að taka þessa umræðu, við gerum fátt annað en að taka þessa umræðu. Það sem Sigmundur meinar er að fólk verði að hlusta á hans einangrunarsinnaða, hrædda og fordómafulla arm umræðunnar. Það sem hann meinar er að það sé ákveðinn hópur sem einangrar umræðuna, kæfir niður skoðanaskipti með árásum og pólitískri rétthugsun, þessir móðgunargjörnu riddarar rétthugsunar.
En hversu langt á að láta samkennd fyrir hættulegum skoðunum ganga? Viljum við normalísera kynþáttahyggju, einangrunarstefnu og misrétti í nafni virðingar fyrir umræðunni?
Það er að vísu alveg rétt að við smættum endalaust samtalið niður í lélega frasa: Gnarristar, Samfóistar, Sjálfgræðisflokkurinn, Samspillingin, Sjálfsókn, Freki kallinn, Reiða fólkið, Góða fólkið. Við erum öll jafnhörundsár og móðgunargjörn. Hinir móðgunargjörnu móðga móðgarana með móðgunargirni sinni sem kallar fram enn meiri móðgun hinna móðguðu, allir skrifa tíst og Facebookpósta og áfram keyrir þessi retóríska rúnklest, hring eftir hring eftir hring. Tjú tjú!
Það er vinsæl greining að við höfum öll fest okkur inn í okkar eigin bergmálsklefum. Á okkar eigin samfélagsmiðlastreymum sjáum við bara fréttir sem styrkja okkar heimsmynd og skoðanir sem við erum sammála frá fólki sem við höfum handvalið í kringum okkur, að við séum orðin blind á hið víðara samfélag. Við fæðumst samt inn í bergmálsklefa. Fjölskyldan okkar er okkar fyrsti bergmálsklefi, svo vinirnir sem við veljum okkar, menntaskólinn sem við förum í, borðið sem við sitjum við, háskólanámið sem við veljum, vinnan sem við ráðum okkur í. Við erum alltaf að einangra okkur í okkar eigin litla horni. Ég held að átökin sem við finnum fyrir núna séu þvert á móti partur af hinu opna interneti. Allir þessari mismunandi bergmálsklefar að snertast eins og tveir naktir menn sem rekast óvart saman í sturtuklefanum í Vesturbæjarlauginni. Fólk öskrar úr einum klefanum yfir í annan.
Hver ber ábyrgð á umræðunni? Í kjölfar kosningasigurs Trump er verið að lemja á fjölmiðlum fyrir að ýta undir svokölluð post-truth stjórnmál – umræðu handan sannleikans. Geggjaður frasi. Græðgi fjölmiðla í að framleiða fyrirsagnir á að hafa leyft frambjóðanda eins og Trump að fara ítrekað með rangt mál. Hann fékk að smíða sinn eigin spéspegil af raunveruleikanum í friði. Einnig eru samfélagsmiðlar eins og Facebook gagnrýndir fyrir að ritskoða ekki falskar, ósannar fréttir. Að fréttaveitur fólks hafi verið uppfullar af upplognum fréttum, að þær fái of mikið vægi í samanburði við sannleikann. En hversu miklu máli skiptir sannleikurinn fólk þegar allt kemur til alls? Þegar fólk deilir sjokkerandi fyrirsögnum án þess að nenna að lesa fréttina eða sannreyna innihaldið. Hversu langt á umhverfið þá að ganga til þess að reyna að hafa vit fyrir þessu fólki? Á Mark Zuckerberg að senda öllu þessu fólki persónuleg skilaboð þar sem hann reynir að útskýra fyrir þeim að orðið pizza í tölvupóstum Hillary Clinton sé ekki barnaníðingaslangur, að bólusetningar hafi ekki gert Adolf Hitler einhverfan, að íslenska ríkið geti bæði tekið við flóttamönnum og greitt út örorkubætur?
Það er gott að hafa skoðanir, að láta málefni skipta sig máli. Það er gott að rökræða og rífast, það er gott að reyna að taka þátt í því að móta siðferði og gildi samfélagsins sem maður býr í. En við erum öll í samkeppni um skoðanir. Það er pressa á öllum að bregðast við öllu. Við virðumst gleyma því að við erum öll orðin fjölmiðill. Við berum einhverja smá ábyrgð á því sem við segjum og gerum. Öll vanhugsaða vitleysan sem flæðir stanslaust í gegnum huga okkar allra er meitluð í stein um leið og hún lendir á Facebookveggnum okkar.
Þegar við erum óumflýjanlega búin að gjöreyða hvert öðru í Trumpísku kjarnorkustríði á næstu átta árum og geimverurnar koma loksins og róta í rústum siðmenningar okkar og finna löngu niðurgrafinn tölvuþjón Google í Palo Alto, Kaliforníu verður það fyrsta sem þær finna langt rant sem þú skrifaðir um að einhver rithöfundur hljóti að vera kynferðisbrotamaður því að hann skrifar svo ljótar bækur. Þær munu hrista báða hausana sína og segja „Ég trúi ekki að hún sé lektor í upplýsingatækni“ og fljúga svo á brott.