Jólin 2009 eru mér, fjölskyldu minni og nánum vinum afar eftirminnileg. Ég hafði verið í krukkunni hjá manni sem ég ákvað að gefa jólagjöf. Að vera í krukkunni hjá einhverjum þýðir að vera eins og ósjálfbjarga skordýr sem barn veiðir í sultukrukku, veitir því tímabundna gleði, er stundum hrist og vankað, milli þess sem það fær kannski vatn og hunang. Ég vissi nákvæmlega ekki neitt um hvort eða hvernig þessi maður vildi hafa mig í lífi sínu þrátt fyrir rúmlega ár af vitleysu, en ég ákvað nú bara samt að kaupa gjöf, hringja í systur hans og fá að fela gjöfina undir trénu. Á aðfangadagskvöld fékk ég SMS sem í stóð: „Þú ert geðveik. Þetta er besta gjöf sem ég hef fengið.“
Ég vissi ekki hvort ég ætti að lesa meira í, að ég væri geðveik eða að þetta væri besta gjöf sem hann hefði fengið. Við jólatréð hjá mér dregur heldur betur til tíðinda, haldið þið ekki að maðurinn hafi ekki bara líka komið með jólagjöf, og samkvæmt lýsingum föður míns sem er ekki mjög mannglöggur, hafði systir hans komið með hana fyrr um daginn, meðan ég var að keyra út aðra pakka. Í pakkanum er hringur. Ekki einhver trúlofunarhringur, bara svona sætur „dress jewelry“. Ég verð óstjórnlega glöð og sendi öllum vinum SMS um að jólakraftaverk hafi átt sér stað. Seinna um kvöldið kemur allur móðurættboginn í miðnæturdesert og að sjálfsögðu er þetta rætt. Móðurbróðir minn tilkynnir mér hátíðlegur í bragði að hann hafi tekið manninn á beinið á Ölstofunni á aðventunni og sagt honum að hætta að rugla í litlu frænku.
Þegar ég er orðin róleg, svona um kl. 2 á jólanótt, ákveð ég að senda þakkar-SMS til mannsins. Stendur þá ekki móðir mín upp og segir: „Ekki gera það. Hann gaf þér ekki neitt. Ég var að stríða þér. Fyrirgefðu ... þetta átti ekki að ganga svona langt.“ Ég stend upp, hleyp niður í gamla herbergið mitt og græt mig í svefn á jólanótt. 25 ára. Ég heyri í ömmu minni og fleirum húðskamma stríðnisjólapúkann móður mína. Daginn eftir hringir amma í mig og segir: „En Margrét mín, þú ert ekki í fýlu út í mömmu þína. Þú ert sár út í hann.“ Móðir mín er hins vegar enn mjög ánægð með þetta prakkarastrik hjá sér, og er þetta rifjað upp á hverju einasta aðfangadagskvöldi síðan.
Ekki dæma móður mína samt. Hún er í alvöru fyndnasta og besta kona í heimi. Við sóttum til dæmis systur mína út á flugvöll í gær og til að drepa tímann þá keyrði hún mig um í innkaupakerru, skríkjandi úr gleði og sagði „Ef við værum unglingar væri búið að henda okkur út.“
Ég lærði svo margt þessi jól, meðal annars að það að vera næs við einhvern þýðir ekki að viðkomandi stökkvi í jólafang þitt, sama hvað jólagjöfin er útpæld. Ég sá líka að það að vera einhleypur gefur besta fólkinu þínu skotleyfi á þig, og það er búið að vera sjálft svo lengi utan markaðar að það annað hvort veit ekki hvað þetta getur verið sárt eða heldur að æðsta takmark allra sé að vera í pakkanum, sem það er alls ekki.
Síðan þá hafa jólin verið upp og ofan. Nánasta fjölskylda hefur vit á að spyrja ekki, þau vita að upplýsingarnar koma ef mér finnst ég þurfa að deila þeim. Aðrir, not so much. Ég fæ iðulega spurninguna hvernig ástarlífið gangi, og ef ég hef svar við því skiptir fólk sér af ólíklegustu hlutum. „Nennirðu að deita mann sem á börn?“ Eh, hver á ekki börn? Móðurbróðir minn, þessi sami og tók manninn á beinið í sögunni að ofan, var óvæntur bandamaður eitt árið þegar hann þrumaði yfir boðið: „Látið hana Margréti í friði, hún er eina manneskjan í þessari fjölskyldu með einhverja standarda.“
En þetta eru ekki bara fjölskylduboðin. Vinnustaðapartýin eru líka svona, og virðist jólahátíðin kveikja á vorkunartóni fólks sem maður hittir á hverjum degi, en þekkir ekki neitt.
Fyrir mér er sannasta sena kvikmyndasögunnar úr Brigdet Jones þar sem hún situr við enda langborðs, og er spurð "So, Bridget, how is your love life?" og boðið stöðvast og allir horfa spyrjandi augum á fríkið í partýinu, manneskju sem kom ein, og allir vorkenna. Það er frábært að vera ein á jólunum. Ég þarf ekki að raka á mér lappirnar, kaupi bara þykkar svartar sokkabuxur og kaupi mér geggjaða jólagjöf, sem í ár er vikuferð til New York.
En skjótt skipast veður í lofti og reður í klofi og kannski hef ég svar við þessu í ár. En ég mun ekki gefa neitt upp ef fólk spyr að fyrra bragði.
Ef þig langar að spyrja einhleypan um hvernig ástarlífið er, byrjaðu á að gefa upplýsingar um þig og ástarlífið þitt. Beyoncé hefur nefnilega sýnt okkur að fjörið hættir ekkert eftir hjónavígslu, ónei. Ég vil vita hvort þú vitir af því að maðurinn þinn er á Tinder á bakvið þig. Ég vil vita hvort þú náir honum ennþá upp. Hvernig breytingaskeiðið er að fara með hjónalífið. Hvort þú sért í alvöru hamingjusamur. Hvort bókin sem þú fékkst í jólagjöf var svona svakalega góð að þú gast ekki slitið þig frá henni, en ekki veruleikaflótti til að þurfa ekki að eiga samskipti við maka þinn og fjölskyldu. Annars geturðu bara kyngt þessari spurningu og dregið svar af handahófi hér, sem eru öll sönn svör einhleypra vina:
- Ég svaf hjá fjórum á einni viku í nóvember. Konan á húð og kyn vildi ekki hæfæva mig... ert þú kannski til í það tanta?
- Gengur svona helvíti vel, núverandi metið er vika áður en ég fæli fólk frá með persónuleika mínum og píku.
- Maður sem ég vinn með er mikið að senda mér myndir af typpinu á sér á snapptjatt, hann segist vera að hætta með kærustunni en ég veit það ekki. Ég fékk sko enga mynd á aðfangadagskvöld, finnst þér að ég eigi að lesa í það?
- Ég er yfir mig skotin(n), en ég myndi aldrei kynna viðkomandi fyrir ykkur því þið eruð bæði leiðinleg og dómhörð.
- Æ hann er giftur þannig ég get eiginlega ekki talað um það. Held að þú þekkir hann samt.
- Ég er búin að kaupa daginn eftir-pilluna svo oft að apótekarinn í Laugavegsapóteki er orðinn vinur minn og ég er að hugsa um að bjóða honum í afmælið mitt.
- Takk fyrir að spyrja, ég er upp með mér að þú berir hag minn fyrir brjósti, en mér finnst þessi spurning rosalega persónuleg og svolítið dónaleg og ég ætla ekki að svara henni.
Og þið sem spilið í einhleypu deildinni, stelið svarinu hans frænda míns. „Látið mig í friði. Ég er eina manneskjan í þessu boði með einhverja standarda.“ Hendið svo jólaglögginu í gólfið, gangið út og skellið hurðum.
Gleðileg jól.