Það verður ekkert góðæri eins og síðasta góðæri. 50 Cent í fertugsafmæli Björgólfs, Elton John í fimmtudagsafmæli Ólafs Ólafssonar. John Cleese, snekkjur, einkaþotur, kókaín, Hannes Smárason alltaf að leggja í fatlaðrastæði og Eyþór Arnalds keyrði á ljósastaur. Þvílíkir tímar.
Þetta góðæri er bara skugginn af hinu sanna góðæri. Nú er Tólfunni bara flogið út til Lúxemborgar svo Joey Drummer og Benni Bongó geti tekið víkingaklappið í jólapartíi hjá endurskoðunarfyrirtæki, og Eyþór Arnalds er stjórnarformaður ruslahaugs sem er alltaf að kvikna í.
Megavika, Tax Free dagar, Svartur fössari. Alþýðlegra góðæri. Heimilislegra og hversdagslegra góðæri. Bolagóðæri.
Við höfum það svo gott í einkaneyslunni að það tekur eiginlega enginn eftir því að það sé ekki nein ríkisstjórn. Okkar vegna má bara læsa þessari þjóðarskútu á cruise control þangað til hún siglir á síðasta ísjakann í norðurhafi og við verðum öll óumflýjanlega étin af vannærðum ísbirni eða skutluð af Kristjáni Loftssyni.
Eini sem er að svitna yfir þessu er forsetinn. Þetta áttu að vera bestu dagar lífs hans. Guðna hafði dreymt um þessa stund síðan hann var lítill pjakkur og heimtaði alltaf að vera Kristján Eldjárn þegar hinir krakkarnir vildu bara leika kúreka og indjána. Fyrstu dagarnir hafa vafalítið verið draumi líkastir; pólitískur óstöðugleiki, tvísýnar kosningar og krefjandi stjórnarmyndunarviðræður. Guðni hefur vaknað á undan klukkunni og stokkið á fætur líkt og Tumi í Corn Flakes auglýsingunni daginn sem hann átti fyrst von á Bjarna á Bessastaði til að afhenda honum umboðið. Síðan þá hefur hver einasti dagur verið eins; eilíf hringrás af því að afhenda og taka við þessu andsetna umboði. Það sem eitt sinn var spennandi inngrip í söguna er nú orðið að nístandi hversdagsleikanum; vakna, bursta, kaffi, lesa Moggann á dollunni, veita umboð til stjórnarmyndunar, borða, laumusígó á bak við Bessastaðakirkju, sofna, vakna aftur. Aftur og aftur um alla tíð. Þetta er elsta dæmisagan af þeim öllum: gættu hvers þú óskar þér því það gæti ræst.
Kannski er þetta meira eins og sagan af glerskónum hennar Öskubusku. Á meðan allar helstu stjórnmálahetjur nútímans reyna að sarga af sér hælinn eða saga af sér tærnar til þess að troða sér ofan í þennan stjórnarmyndunarskó er lítill sveitapiltur austur á héraði með nettan fót sem passar kannski akkúrat — ef bara einhver mundi biðja hann um að máta. Þessi fótur á það reyndar til að sýkjast og fyllast af bjúg og passar þá bara í einn strigaskó.
Þegar við héldum öll að Sigmundur væri horfinn var hann bara að safna kröftum og plana stórkostlega endurkomuveislu eins og Greifinn af Monte Cristó. Verst að veislan skuli vera á nákvæmlega sama tíma og 100 ára afmælisveisla Framsóknarflokksins er í Þjóðleikhúsinu. Sigmundur vill reyndar meina að hans partí sé líka 100 ára afmælisveisla Framsóknarflokksins, því auðvitað þarf Framsóknarflokkurinn jafn margar afmælisveislur og Paris Hilton sem hélt fimm sinnum upp á tuttugu og eins árs afmælið sitt. Ég vorkenni framsóknarfólki samt smá. Það hlýtur að vera erfitt að vera barnið í svona ljótum skilnaði.
„Stundum þegar tveir pabbar elska hvorn annan of mikið geta þeir ekki búið saman lengur. Þá þarf annar pabbinn að flytja í eyðibýli á Norðausturlandi og hætta að mæta í vinnuna. En þú færð tvær heilar afmælisveislur í staðinn fyrir eina! Þær eru reyndar á sama tíma þannig að þú verður bara að ákveða hvorn pabbann þú elskar meira. Og nei, þú mátt ekki bara vera heima hjá Viggu frænku um jólin.“
Annars eru allar helstu jólahefðir Íslendinga á sínum stað; Coca-Cola lestin, Oslóartréð, froðufellandi umræða um kirkjuheimsóknir skólabarna og hysterískir foreldrar sem fréttu að eitthvað freknótt óféti úr Garðabænum hefði fengið iPhone í skóinn. Mestu Skröggarnir eru samt allt-var-betra-í-gamladaga verslunareigendurnir við Laugaveg sem hata gangandi vegfarendur svo mikið að leiðtogi þeirra, Björn Jón Bragason, dreymir líklega standpínudrauma um að keyra malbikunarbíl niður allar gangstéttir þangað til Laugavegurinn verður loks tvíbreiður og öll verslun getur farið fram í gegnum bílalúgur.
Reyndar virðist helmingur gangandi vegfarenda vera ráfandi, tómeygðir ferðamenn sem hafa ekki efni á því að kaupa neitt. Það hlýtur að vera áfall að panta sér ferð til Íslands í desember í von um vetrarparadís með snjóþekju og norðurljósum og fá í staðinn 8 stiga hita, rigningu og myrkur. Jöklalausar jöklaferðir og norðurljósalausar norðurljósaferðir. Þannig að eina sem hægt er að gera er að ráfa upp og niður Laugaveginn og troða sér inn í lundabúðirnar. Kannski 24 ferðamenn í hverri búð þegar hámark vistvænnar ferðamennsku hlýtur að vera max 9. Þar húka þeir og verpa óhamingjusömum litlum gulleggjum sem fjármagnar nýja góðærið okkar. Það væri kannski hægt að hafa rútuferðir að United Silicon kísilverinu í Reykjanesbæ svo ferðamenn geti fengið að upplifa alvöru íslenska áramótabrennulykt.
Þetta er samt allt veðrinu og krónunni að kenna. Aumingja krónan. Sama hvað fer úrskeiðis er það allt henni að kenna. Þegar hún er veik þá erum við öll blönk og getum ekkert farið né keypt, og þegar hún er sterk þá hefur enginn efni á því að kaupa fiskinn okkar og allir ferðamennirnir hata okkur. Ef krónan væri áhrifagjarn unglingur og fólk myndi koma svona fram við hana væri hún löngu komin með alvarlega átröskun og kvíða.
En við skulum ekkert hafa of miklar áhyggjur af þessu. Kaupum, kaupum, kaupum. Fyrst koma jólin og svo falla niður tollar á sjónvörpum, gasgrillum, snyrtivörum, skotvopnum og öllu því sem hugurinn girnist. Eyðum þessum góðærispeningum bara ef við eigum þá, og jafnvel ef við eigum þá ekki. Í versta falli sækjum við bara um næstu Leiðréttinguna. Smá svekk með heilbrigðiskerfið, öryrkjana, flóttabörnin, flest láglaunafólk og aumingja ólæsu PISA-börnin. Gengur bara betur í næsta góðæri.
En við höfum samt aldrei haft það betra, og þegar við höfum það svona gott þá má ekki kvarta, má ekki tala niður árangurinn, má ekki vera neikvæður. Enga öfundsýki. Hljómar þetta kannski kunnuglega?
Hitamælir og áttaviti þessa samfélags er samt auðvitað Árni Johnsen. Í mestu maníunni var hann að þiggja mútur, kýla Hreim í Landi og Sonum og fylla garðinn sinn af óðalsteinum á kostnað Þjóðleikhússins. Og í mesta niðurtúrnum sat hann í fangelsi að búa til steinlistaverk á meðan hann barðist fyrir réttindum fanga. Í síðustu viku sást svo til hans í Smáralind með stútfulla innkaupakerru sem honum hafði einhvern veginn tekist að troða í rúllustiga. Hvernig? Af hverju? Af hverju tók hann ekki lyftuna? Nennti hann ekki að finna hana? Hugsaði hann kannski bara aldrei út í það hversu fráleitt það væri að keyra innkaupakerru upp rúllustiga? Þegar allt kemur til alls erum við öll smá Árni Johnsen; bljúg og blíð þegar árar illa en í góðærinu troðum við innkaupakerrunni bara hvert sem við viljum — af því að fokkaðu þér, við erum Árni Johnsen.
Út er komin fyrst bók Hrafns Jónssonar, Útsýnið úr fílabeinsturninum. Hana er er hægt að kaupa í vefverslun Kjarnans hér. Bókin er einnig fáanleg í verslun Máls og Menningar á Laugavegi.