Þessa dagana eru samfélagsmiðlar fullir af fólki að gera annað af tvennu: a) formæla árinu 2016, sem hafi leitt hörmungar yfir heimsbyggðina og drepið frá okkur flest okkar besta fólk í einni beit, eða b) benda á að ár geti ekki verið vond – þau séu bara mælikvarði á tíma, hafi hvorki illar né góðar fyrirætlanir og að líklega muni fólk áfram deyja á næstu árum, þess vegna stoði lítið að skeyta skapi sínu á árinu 2016, það sé gagnslaus iðja og þar með í raun skaðleg af því að hún taki tíma og athygli frá öðru sem skipti meira máli, hinum raunverulegu sökudólgum sem þurfi að ræða. Árinu kennir illur ræðari.
Af þessum tveimur hópum er sá síðarnefndi miklu óbærilegri.
Auðvitað er enginn að kenna árinu 2016 um allt það slæma sem gerðist árið 2016 – það er ekki ártalinu 2016 að kenna að Prince tók of stóran skammt af verkjalyfjum eða að Aleppo var breytt í útrýmingarbúðir fyrir framan nefið á okkur hálfpartinn í beinni útsendingu. Það er enginn að segja það. Það er að minnsta kosti enginn að meina það. Og það þarf augljóslega ekkert að útskýra það fyrir neinum þótt sumir taki þannig til orða. Það er ekki sambærilegt við það að trúa á hindurvitni.
Árið er uppfinning mannsins þótt það miðist við gang himintunglanna. Það er ekkert sjálfgefið að árið sé eins og það er, eða að það sé yfirleitt til. Við þurftum bara einhverja leið til að mæla tímann, mæla aldur, mæla söguna. Sums staðar er árið öðruvísi.
Nema hvað. Árið 2016 gerðist ýmislegt slæmt og ýmislegt gott, en mörgum hér á Vesturlöndum, og kannski aðallega mörgum í loftbólunni sem flestir lesendur þessa pistils búa í, finnst eins og það hafi verið óvenjulega meinlegt. Það á sér alls konar skýringar, fólk talar um Trump og Brexit og signir sig, það talar um hryðjuverk og það talar kannski mest um öll menningaríkonin sem féllu í valinn og dregur fram rykfallnar plötur til að setja á fóninn. Það talar líka aðeins um myndirnar sem við erum loksins farin að skoða frá Sýrlandi.
Nýársbrumið
Þetta er allt eðlilegt. Árið er ekki verri tímarammi en hver annar til að vera argur út í. Öll eigum við slæma daga og hlökkum þá til að fara að sofa og hefja næsta dag á skemmtilegri nótum. Stundum eigum við vondar vikur þar sem allt gengur á afturfótunum og vinnan er erfið og leiðinleg. Ef við erum Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þá eigum við vonda mánuði. Fyrirtæki eiga vonda ársfjórðunga. Það er nú meiri mælieiningin.
Nú finnst einhverjum við hafa átt vont ár, þrátt fyrir Ísland á EM og Wintris-ævintýrið og vinsældir Guðna Th. Jóhannessonar. Þá er bara tilvalið að nota þessi tímamót, sjálf áramótin, til að kveðja það. Vakna á nýju ári, teygja úr sér í þynnkunni, horfa út um gluggann á rakettuprikin á kafi í slabbinu, hlusta á innblásið áramótaávarp Sigurðar Inga Jóhannssonar frá kvöldinu áður í Sarpinum á RÚV.is og svo fréttirnar af því hvernig Óttarri Proppé gengur að mynda hægrisinnuðustu ríkisstjórn Íslandssögunnar og áformum hennar um aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Passa svo að skipta áður en fréttin frá Sýrlandi byrjar, kannski yfir á innhringitíma á Bylgjunni – hver veit nema maður ársins 2016, Sigmundur Davíð, sé á línunni. Finna svo Careless Whisper á Youtube og gleypa fjórar panódíl. Var það ekki það sem við vildum?
Nei, ég segi svona. Auðvitað verður 2017 gott ár. Geggjað ár. Besta árið til þessa. Sannið bara til.