Þegar ég var barn voru pylsur soðnar á heimilinu á föstudögum. Það var mikil hátíðarstund því þá fékk ég líka ískalt glas af Pepsi úr flösku sem var keypt á föstudegi og dugði yfir helgina. Önnur flaska var ekki keypt fyrr en næsta föstudag en gos var ekki í boði á virkum dögum frekar en karamellukex eða ömmupizzur með Pizza Pronto.
Þetta voru einfaldir tímar; þegar fólk hélt að öll fita væri fitandi og lýðheilsustofnanir hvöttu fólk til að borða bara ógeðslega mikið af brauði. Fólk pældi minna í næringu. Pylsa var bara pylsa. Matur til að borða á föstudögum og þegar pabbi nennti alls ekki að elda.
Í dag er pylsan alveg jafn vinsæl og hún var, ef ekki vinsælli, en velgengni á óvini. Ráðist hefur verið á pylsuna úr ýmsum áttum undanfarið, nú síðast í dramatískri grein á Stundinni undir fyrirsögninni: „Leyndardómar þjóðarréttar Íslendinga“. Þar kemur meðal annars fram að kjötið væri grátt ef ekki væri fyrir litarefni og að hún sé búin til úr afurðum þriggja dýrategunda, sem kemur reyndar einnig fram á umbúðunum.
Næringarfræðingar hafa líka keppst við að spræna yfir skrúðgöngu pylsunnar og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur lýst yfir að fólk geti alveg eins drepið sig ef það ætlar að háma í sig pylsur og aðrar unnar kjötvörur. Miðað við upplýsingar sem koma fram í umfjöllun Stundarinnar er ég heppinn að vera á lífi eftir pylsupartí fortíðarinnar og ég verð að viðurkenna að ég áttaði mig ekki á því að ég hafi verið svona áhættusækið barn.
Allir sem hafa séð röðina fyrir utan Bæjarins beztu á venjulegum þriðjudegi vita að vinsældir pylsunnar eru lygilegar. Röðin liðast oft niður Pósthússtræti, nánast út á Austurstræti og inniheldur oftar en ekki spennta ferðamenn sem eru enn þá með kísilinn úr Bláa lóninu framan í sér, svo spenntir eru þeir að bragða á einni með öllu. Pylsan er framandi af því leyti að hún er böðuð í þremur tegundum af sósu sem sameinast bæði steiktum og hráum lauk í einhvers konar fjölþjóðlegri orgíu sem hefur slegið í gegn um allan heim í krafti orðspors. Á sama tíma erum við búin að vera með fólk í vinnu við að koma lambakjöti á erlenda markaði í áratugi en erum samt enn þá að borga með því.
Samt fær pylsan ekki þá virðingu sem hún á skilið. Í grein sem næringarfræðingurinn Geir Gunnar Markússon birti í fyrra og fór víða dró hann börnin inn í aðförina að pylsunni og sagði sorglegt að sjá foreldra fæða börnin sín á matmálstímum á pylsuvögnum bæjarins. Stundin er líka að hugsa um börnin og tekur fram í afhjúpun sinni að varað hafi verið við því að gefa börnum of mikið salt. Ég vil nota tækifærið og vara foreldra við að hafa hnakkinn á hjólum barna sinna ekki of hátt stilltan. Það getur verið alveg stórhættulegt.
Í grein Stundarinnar er einnig gert mikið úr því að pylsur sé framleiddar úr allskonar afgöngum sem falla til við slátrun á kindum, svínum og nautum. Á meðal þess notað er í framleiðsluna samkvæmt greininni eru afklippur í lágum gæðum, fituafgangar, kjöt af höfði, fætur dýra, húð dýra, blóð, lifur og aðrir ætir afgangar slátrunarinnar. Þetta er auðvitað talsverður skellur fyrir okkur sem töldum að pylsur væru framleiddar úr svínalund, nauta-ribeye og kindafille en lífið heldur víst áfram.
En pælum aðeins í þessu. Matarsóun er risastórt vandamál — svo stórt að vefurinn Matarsóun.is hefur verið settur í loftið gagngert til að fræða og miðla upplýsingum um hvernig megi minnka hana. Þriðjungur þess matar sem keyptur er inn á heimili fer í ruslið samkvæmt Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna. Matvælaframleiðendur eru alls ekki saklausir en framleiðslan hefur í mörgum tilvikum slæm áhrif á umhverfið.
Ef aðeins bestu bitarnir af skepnunum væru nýttir værum við eflaust í enn verri málum í dag. Ef það er hægt að fullnýta skepnurnar sem er þegar verið að slátra til að búa til fullkomlega æta vöru er þá ekki best að gera það? Er skárra að henda þessu eða er kannski betra að urða þessa gómsætu blöndu í mögum svangra túrista og saklausra barna? Eða þykjumst við vera eitthvað betri en Kúbverjar sem borða svínalappir með bestu lyst? Eða Mexíkóar sem borða höfuðið af kúnni?