Pönkarinn, skáldið og ævintýramaðurinn Henry Rollins varpaði eitt sinn fram þeirri kenningu að tónlist væri lykillinn að friði á jörðu. Hann var hvorki sá fyrsti né síðasti til að gera það, en sagan sem hann sagði í kjölfarið var skemmtileg.
Ímynduð hersveit ungra manna undirbýr árás á óvinabúðir. Þegar hermennirnir nálgast heyra þeir óm í fjarska. „Hvað er þetta?“ Það er sól og steikjandi eyðimerkurhiti. Hersveitin þokast nær. „Er þetta tónlist?“ Hermennirnir nema staðar og bíða færis á bak við hól skammt frá óvinabúðunum. Þeir sjá óvinahermennina að leik, algjörlega varnarlausa. Berir að ofan drekka þeir bjór og sparka fótbolta sín á milli. „Þessa tónlist þekki ég,“ segir einn af okkar mönnum og gengur upp á hólinn. „Ég trúi þessu ekki, þeir eru að hlusta á Ramones!“
Til að gera langa sögu stutta, þá gátu hermennirnir í þessari krúttlega barnslegu sögu ekki hugsað sér að drepa aðra unga menn sem hlustuðu á sömu tónlist og þeir. Þess í stað lögðu þeir niður vopn og sömdu frið. Allt endaði þetta svo í allsherjar rokkpartíi þar sem eini ágreiningurinn snerist um það hver væru þrjú bestu lögin með Slayer (rétt svar: Silent Scream, War Ensemble og Angel of Death).
Svona virkar heimurinn auðvitað ekki í alvörunni. Ef ég væri á það hræðilegum stað í lífinu að ég væri í hernum, sjálfviljugur eða tilneyddur, þá myndi óvinur minn fá kúlu í hausinn, jafnvel þó hann væri í Bad Religion–bol. Drepa eða vera drepinn — þannig virkar þetta víst. Fyrir utan það að ef þessi kenning ætti að virka þá þyrftu allir að fíla sömu músík. Óvinahermaður í Muse–bol fengi til dæmis ekki skot í hausinn. Ég myndi miða á hnéskelina eða miltað eða eitthvað og leyfa þessu að gerast svolítið hægt.
En það er eitthvað til í því að maður leyfi fólki frekar að njóta vafans ef það kann að meta sömu hluti og maður sjálfur. Ef ég þyrfti að velja þá myndi ég alltaf bjarga manninum í Carcass–hettupeysunni frá drukknun frekar en gaurnum með Maroon 5–húðflúrið við hliðina á honum. Ekkert persónulegt, en honum er nær að hlusta á svona leiðinlega hljómsveit. Ég myndi gefa söngvaranum í Iron Maiden hálfan síðasta matarskammtinn minn ef við værum saman á fleka úti á ballarhafi frekar en að gefa Beyoncé hann. Ég er ekki einu sinni Iron Maiden–aðdáandi, en Iron Maiden er þungarokk og þungarokk vinnur alltaf popp. Sorrí Bey, þú verður bara að borða trjábörkinn af flekanum.
Og út frá þessari sömu hugmyndafræði nálgast ég Óttar Proppé (að gefnu tilefni; hér er Óttarr, um Óttar, frá Óttari til Óttars — reynum nú öll að vera með þetta á hreinu). Ég fæ mig einfaldlega ekki til þess að vera reiður við hann, þrátt fyrir að mjög margir í bergmálsklefanum mínum séu það. Ég er engu að síður bæði vonsvikinn og hissa. „Hann er einn af okkur, þetta hlýtur að vera hluti af einhverju vinstri/miðju–snilldarplotti,“ hugsaði ég í hvert einasta skipti sem ég sá hann valhoppa um göturnar með nýja besta vini sínum í Viðreisn. „Hann er að halda þeim heitum, hann er að þreyta þá. Þetta er svona stangveiðitaktík. Hahaha, svipurinn á Bjarna verður óborganlegur!“ En svo var hann bara ekkert að því.
Kannski er ég svona blindur og hrekklaus en ég trúi því samt ennþá að hann sé ekki skunkur. Ég útiloka það að vísu ekki alveg, en ég leyfi Óttari að njóta vafans þar til annað kemur í ljós. Af því að hann er einn af … mér. Hann er í pönkhljómsveit eins og ég, hann bara hlýtur að vera góður gaur. Kannski vingaðist hann við Bjarna og Benna til þess eins að tryggja sér heilbrigðisráðuneytið, eitt af allra mikilvægustu ráðuneytunum, þar sem hann ætlar svo sannarlega að láta til sín taka. Stytta biðlista og standa í hárinu á einkavæðingarsinnum. Minnka greiðsluþátttöku sjúklinga og tryggja aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu. Byrja að borga hjúkrunarfræðingum mannsæmandi laun og fá þessi sirka hundrað stykki sem vantar til starfa á Landspítalanum til að snúa þangað aftur. Kannski mun honum takast það sem allir flokkar hafa lofað með einum eða öðrum hætti fyrir hverjar einustu alþingiskosningar sem ég man eftir; að endurreisa heilbrigðiskerfið. Mikið væri það nú gaman.
Ég hef minni trú á hinum ráðherrunum. Þeir hlusta bókað allir á Genesis, Pink Floyd, kántrí og karlakóra. Ég tengi ekkert við þannig fólk.