Í þessum pistli verður rætt um eina tilgátu um hvarf Birnu Brjánsdóttur. Ég sendi hlýjar kveðjur til aðstandenda en vil setja varnagla á að lesa þennan pistil ef málið tengist ykkur á einhvern hátt.
Við sitjum límd við tölvuskjáina og bíðum frétta af ungri og týndri stúlku. Vísbendingar og tilgátur eru óhugnanlegar og einhverjir virðast ekki sjá mörkin á því að giska um örlög alvöru manneskju og plotts í Ófærð. Við höfum öll tengipunkta við þessa stúlku; eigum barn á svipuðum aldri, vorum að djamma á Húrra þetta kvöld, höfum labbað síðustu leiðina sem hún sást margoft. Og, sumum okkar hefur verið byrlað nauðgunarlyf, sem er ein af hinum fjölmörgu tilgátum á samfélagsmiðlunum, þó lögreglan hafi ekki gefið neitt út um það.
Þarna úti er í alvöru fólk sem ákvað að skrifa við fréttir, ekki „Sendi aðstandendum hlýjar kveðjur,“ „Gangi lögreglunni sem allra best“ eða „Höfum augun opin.“ Nei, það ákveður að skrifa „Þetta sýnir bara að stelpur eiga ekkert að vera að dandalast einar og svo á að passa upp á drykkinn sinn.“
Í fyrsta lagi vitum við bara ekki neitt þegar þessum pistli er skilað inn (rétt fyrir miðnætti á miðvikudagskvöldi). Í öðru lagi veit enginn hvort eitrað var fyrir henni þetta kvöld. Í þriðja lagi, ef eitthvað saknæmt hefur átt sér stað, af hverju erum við enn föst í því að benda á hvað brotaþoli gerði rangt?
Að byrla einhverjum nauðgunarlyfi er ekki eitthvað stundarbrjálæði, eða misskilningur á jái og nei-i. Það krefst skipulags, viðbjóðs og svartrar sálar. Nauðgunarlyf, hvað sem það var, hefur verið sett í drykkinn minn og drykki margra sem ég þekki. Þetta er allt of fokking algengt. Eftir að ég lenti í þessu sjálf legg ég mig fram um að spyrja fólk sem er næstum út úr heiminum á tjúttinu hinnar einföldu spurningar „Er allt í lagi?“ Oft er svarið bara jájá, en einu sinni hef ég hjálpað stúlku að finna vini sína og grunur lék á að hún hefði lent í þessu.
Systir mín, hetjan mín, stöðvaði eitthvað mjög dúbíús fyrir nokkrum árum. Hún hafði fylgst með stúlku á barnum sem virtist vera alveg út úr heiminum. Hún tekur síðan eftir því að tveir menn styðja hana á milli sín, á leiðinni út af barnum. Hún fær ónotatilfinningu í magann, en tekur af skarið og gengur rösklega að tríóinu. „SIGGA!!!!“ segir systir mín, „langt síðan ég hef séð þig.“ Mennirnir tveir gufa upp á nóinu. Hvort sem þeir ætluðu sér að nýta sér ástandið eða höfðu eitrað fyrir stúlkunni, þá er það alveg á hreinu að þetta voru einhver ógeð. Og saman í þessu. Á hvaða tímapunkti ræðirðu svona við félaga þinn? „Eigum við að tjippa inn í að kaupa rohyphnol?“ Eða „Hey, sjáðu þessa… eigum við að taka hana heim saman?“
„Hvernig hefurðu það?“ getur verið ógeðslega mikilvæg spurning.
Við erum í þessu saman. Pössum upp á hvert annað.
Áfram lögreglan og ást út í tómið.