Ríkissjónvarpið sýndi á mánudagskvöldið heimildamynd frá BBC um kjötneyslu. Í henni prófaði læknisfræðimenntaður þáttastjórnandinn að borða óvenjulega mikið af rauðu kjöti í fjórar vikur. Í lok myndarinnar kom í ljós að hann hafði bætt á sig þremur kílóum af kviðfitu og rokið upp í blóðþrýstingi og kólesteróli.
Gera má ráð fyrir því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi horft á þessa mynd og beinlínis ærst af mótþróaþrjóskuröskun því að rúmum hálfum sólarhring síðar birti hann ljósmynd á Facebook-síðunni sinni. Myndin var af þverhandarþykkri klessu af hráu nautahakki sem búið var að smyrja ofan á tekex. Með fylgdi svohljóðandi yfirlýsing: „Einn af mörgum kostum við íslenskt kjöt er að maður þarf ekki að elda það frekar en maður vill“, en hún hefði allt eins getað verið á þessa leið: „Fyrr mun ég dauður liggja úr kransæðastíflu en að ég láti kommúnistana á RÚV segja mér hvað mér er fyrir bestu.“
Kannski var þetta alls ekkert svona. Líklega þarf ekki að espa Sigmund Davíð upp í að borða tartar á tekexi, beint af blóðugum pappírnum utan af hakkinu, en jafnvel þótt svo væri þá ætti hann sér samt málsbætur. Þetta var nefnilega ekki eins klippt og skorið í heimildamyndinni og upphaf þessa pistils gefur til kynna. Raunar var meginniðurstaða hennar sú að við vitum ósköp lítið um heilsufarsleg áhrif þess að borða mikið rautt kjöt. Hver rannsóknin á eftir annarri sýndi ólíka niðurstöðu; ein að það væri að drepa okkur, önnur að það væri meinhollt, sú þriðja að það breytti engu. Það eina sem menn gátu nokkurn veginn komið sér saman um var að saltaðar og unnar kjötvörur væru skæðar.
Skjaldbakan og Grænlandshákarlinn
Þetta er einmitt meinið: það er svo margt sem við vitum ekki. Stundum finnst manni eins og við vitum í rauninni ekki neitt. Næringarvísindi eru bara eitt lítið dæmi. Þegar ég barn var mér kennt að lífseigustu skepnur jarðar væru skjaldbökur. Þær áttu að geta orðið um það bil 200 ára gamlar. Þetta stóð í alls kyns bókum og aftan á Andrésblöðum og þessu trúði ég fram á fullorðinsár. Þá fannst skyndilega 374 ára gömul kúskel á hafsbotni við Grímsey, sem var elsta dýr heims þangað til vísindamenn aldursgreindu Grænlandshákarl nokkrum árum síðar og komust að því að hann gæti orðið 400 ára og jafnvel miklu eldri – við vitum það ekki. Og nú veit ég ekki heldur hverju ég á að trúa lengur. Ég hafði ekki einu sinni heyrt um Grænlandshákarl áður.
Þótt svona vísindauppgötvanir séu auðvitað stórkostlegar og heillandi og færi okkur sífellt heim nýjan sannleika, ný púsl í heildarheimsmyndina, eru þær samt líka ógnvekjandi, vegna þess að margar þeirra svipta okkur öðrum sannleika, gamla sannleikanum; með öðrum orðum minna þær okkur á allt sem við vitum ekki. Og sömuleiðis á allt það sem við teljum okkur vita og förum allt í einu að efast um.
Hvað er hundur lengi að læra skammtafræði?
Það er mikilvægt þroskaskref í lífi ungmenna þegar þau átta sig á því að foreldrar þeirra vita ekki endilega alveg allt, og enn stærra þegar þau læra að það er jafnvel í lagi að vera ósammála lífsskoðunum þeirra. Fyrir mér var það svo enn merkilegri uppgötvun þegar ég fattaði hversu lítið maðurinn hefur í raun rannsakað – hversu smátt hvert afmarkað vísindasamfélag er í raun á heimsvísu. Í huga barns eru til nánast óteljandi manneskjur á jörðinni og þar af leiðandi líka óteljandi vísindamenn sem hafa gert óteljandi rannsóknir á bókstaflega öllu sem máli getur skipt og kortlagt allt sem hægt er að vita um veröldina sem við búum í. En svo eldist maður og lærir að það er ekki þannig.
Við vitum ekki hvað við eigum að borða til að vera heilbrigð. Við vitum ekki af hverju okkur dreymir. Við vitum ekki af hverju summa talnaraðarinnar 1+2+3+4+5+... og út í hið óendanlega er -1/12. Samt er hún það. Við vitum greinilega ekki hvert er elsta dýr jarðar. Það er geimur þarna úti sem við vitum eiginlega ekkert um. Við vitum ekki af hverju Donald Trump er forseti Bandaríkjanna. Nóg getum við allavega rifist um það.
Er hugsanlegt að við getum ekki vitað þetta? Einhvers staðar sá ég þeirri spurningu varpað fram hversu langan tíma það mundi taka að kenna hundi skammtafræði. Svarið var vitaskuld: það er ekki hægt. Alveg sama þótt færustu vísindamenn veraldar, og hundurinn líka, öðluðust eilíft líf og gætu dundað sér við kennsluna í milljarða ára þá mundi hundurinn aldrei ná þessu. Heilinn á honum réði ekki við það. Hundar eru bara of heimskir til að læra skammtafræði. Sorrí.
Þessi hugsanatilraun verður aðeins meira yfirþyrmandi þegar hún er heimfærð yfir á mannfólkið. Hversu mikið ætli það sé sem maðurinn getur einfaldlega ekki skilið? Kannski getum við ekki skilið áhrif kjötáts á mannslíkamann. Það hljómar ólíklega. Kannski erum við einfaldlega ófær um að skilja af hverju við kusum lyginn og fjölþreifinn blöðrusel sem forseta valdamesta ríkis heims. Kannski þarf þróaðri heila í svoleiðis félagsvísindi.
LESENDUR ATH: Hér er u-beygja í pistlinum
En ókei. Gleymið öllu sem ég er búinn að segja, af því að þótt það sé kannski ekki þvæla þá þvælist það samt fyrir því sem skiptir meira máli, sem er þetta:
Þrátt fyrir allt þá vitum við heilan helvítis helling.
Vísindamenn eru ekki fúskarar þótt þeir komist stundum að ólíkum niðurstöðum í ólíkum rannsóknum með ólíkum aðferðum. Það að vísindamenn greini á um sumt og þeir geri ennþá uppgötvanir, sem betur fer, þýðir ekki að allt sem haldið er fram sé jafnsatt. Við þurfum ekki að vita allt til að vita margt.
Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru staðreynd. Og staðreyndir eru staðreyndir. Það eru engar „alternative facts“. Það voru ekki 1.500.000 manns á innsetningarathöfn Donalds Trump. Það er staðreynd. Hún er ekki alternatíf og það er ekki til neitt alternatíf við hana. Hundar eru ekki langlífustu skepnur jarðar, lifa ekki í milljarð ára og geta ekki lært skammtafræði (þetta síðasta þyrfti líklega að rannsaka áður en hægt er að flokka það sem staðreynd). Og unnar kjötvörur eru vondar fyrir okkur. Það er staðreynd. Þangað til annað kemur í ljós.