Auglýsing

Rík­is­sjón­varpið sýndi á mánu­dags­kvöldið heim­ilda­mynd frá BBC um kjöt­neyslu. Í henni próf­aði lækn­is­fræði­mennt­aður þátta­stjórn­and­inn að borða óvenju­lega mikið af rauðu kjöti í fjórar vik­ur. Í lok mynd­ar­innar kom í ljós að hann hafði bætt á sig þremur kílóum af kvið­fitu og rokið upp í blóð­þrýst­ingi og kól­ester­óli.

Gera má ráð fyrir því að Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son hafi horft á þessa mynd og bein­línis ærst af mót­þróa­þrjóskuröskun því að rúmum hálfum sól­ar­hring síðar birti hann ljós­mynd á Face­book-­síð­unni sinni. Myndin var af þver­hand­ar­þykkri klessu af hráu nauta­hakki sem búið var að smyrja ofan á tekex. Með fylgdi svohljóð­andi yfir­lýs­ing: „Einn af mörgum kostum við íslenskt kjöt er að maður þarf ekki að elda það frekar en maður vill“, en hún hefði allt eins getað verið á þessa leið: „Fyrr mun ég dauður liggja úr kransæða­stíflu en að ég láti komm­ún­istana á RÚV segja mér hvað mér er fyrir best­u.“

Kannski var þetta alls ekk­ert svona. Lík­lega þarf ekki að espa Sig­mund Davíð upp í að borða tartar á tekexi, beint af blóð­ugum papp­írnum utan af hakk­inu, en jafn­vel þótt svo væri þá ætti hann sér samt máls­bæt­ur. Þetta var nefni­lega ekki eins klippt og skorið í heim­ilda­mynd­inni og upp­haf þessa pistils gefur til kynna. Raunar var meg­in­nið­ur­staða hennar sú að við vitum ósköp lítið um heilsu­fars­leg áhrif þess að borða mikið rautt kjöt. Hver rann­sóknin á eftir annarri sýndi ólíka nið­ur­stöðu; ein að það væri að drepa okk­ur, önnur að það væri mein­hollt, sú þriðja að það breytti engu. Það eina sem menn gátu nokkurn veg­inn komið sér saman um var að salt­aðar og unnar kjöt­vörur væru skæð­ar. 

Auglýsing

Skjald­bakan og Græn­lands­há­karl­inn

Þetta er einmitt mein­ið: það er svo margt sem við vitum ekki. Stundum finnst manni eins og við vitum í raun­inni ekki neitt. Nær­ing­ar­vís­indi eru bara eitt lítið dæmi. Þegar ég barn var mér kennt að líf­seig­ustu skepnur jarðar væru skjald­bök­ur. Þær áttu að geta orðið um það bil 200 ára gaml­ar. Þetta stóð í alls kyns bókum og aftan á Andr­és­blöðum og þessu trúði ég fram á full­orð­ins­ár. Þá fannst skyndi­lega 374 ára gömul kúskel á hafs­botni við Grímsey, sem var elsta dýr heims þangað til vís­inda­menn ald­urs­greindu Græn­lands­há­karl nokkrum árum síðar og komust að því að hann gæti orðið 400 ára og jafn­vel miklu eldri – við vitum það ekki. Og nú veit ég ekki heldur hverju ég á að trúa leng­ur. Ég hafði ekki einu sinni heyrt um Græn­lands­há­karl áður.

Þótt svona vís­inda­upp­götv­anir séu auð­vitað stór­kost­legar og heill­andi og færi okkur sífellt heim nýjan sann­leika, ný púsl í heild­ar­heims­mynd­ina, eru þær samt líka ógn­vekj­andi, vegna þess að margar þeirra svipta okkur öðrum sann­leika, gamla sann­leik­an­um; með öðrum orðum minna þær okkur á allt sem við vitum ekki. Og sömu­leiðis á allt það sem við teljum okkur vita og förum allt í einu að efast um.

Hvað er hundur lengi að læra skammta­fræði?

Það er mik­il­vægt þroska­skref í lífi ung­menna þegar þau átta sig á því að for­eldrar þeirra vita ekki endi­lega alveg allt, og enn stærra þegar þau læra að það er jafn­vel í lagi að vera ósam­mála lífs­skoð­unum þeirra. Fyrir mér var það svo enn merki­legri upp­götvun þegar ég fatt­aði hversu lítið mað­ur­inn hefur í raun rann­sakað – hversu smátt hvert afmarkað vís­inda­sam­fé­lag er í raun á heims­vísu. Í huga barns eru til nán­ast ótelj­andi mann­eskjur á jörð­inni og þar af leið­andi líka ótelj­andi vís­inda­menn sem hafa gert ótelj­andi rann­sóknir á bók­staf­lega öllu sem máli getur skipt og kort­lagt allt sem hægt er að vita um ver­öld­ina sem við búum í. En svo eld­ist maður og lærir að það er ekki þannig.

Við vitum ekki hvað við eigum að borða til að vera heil­brigð. Við vitum ekki af hverju okkur dreym­ir. Við vitum ekki af hverju summa talnar­að­ar­innar 1+2+3+4+5+... og út í hið óend­an­lega er -1/12. Samt er hún það. Við vitum greini­lega ekki hvert er elsta dýr jarð­ar. Það er geimur þarna úti sem við vitum eig­in­lega ekk­ert um. Við vitum ekki af hverju Don­ald Trump er for­seti Banda­ríkj­anna. Nóg getum við alla­vega rif­ist um það.

Er hugs­an­legt að við getum ekki vitað þetta? Ein­hvers staðar sá ég þeirri spurn­ingu varpað fram hversu langan tíma það mundi taka að kenna hundi skammta­fræði. Svarið var vita­skuld: það er ekki hægt. Alveg sama þótt fær­ustu vís­inda­menn ver­ald­ar, og hund­ur­inn líka, öðl­uð­ust eilíft líf og gætu dundað sér við kennsl­una í millj­arða ára þá mundi hund­ur­inn aldrei ná þessu. Heil­inn á honum réði ekki við það. Hundar eru bara of heimskir til að læra skammta­fræði. Sorrí.

Þessi hugs­ana­til­raun verður aðeins meira yfir­þyrm­andi þegar hún er heim­færð yfir á mann­fólk­ið. Hversu mikið ætli það sé sem mað­ur­inn getur ein­fald­lega ekki skil­ið? Kannski getum við ekki skilið áhrif kjöt­áts á manns­lík­amann. Það hljómar ólík­lega. Kannski erum við ein­fald­lega ófær um að skilja af hverju við kusum lyg­inn og fjöl­þreif­inn blöðru­sel sem for­seta valda­mesta ríkis heims. Kannski þarf þró­aðri heila í svo­leiðis félags­vís­indi.

LES­ENDUR ATH: Hér er u-beygja í pistl­inum

En ókei. Gleymið öllu sem ég er búinn að segja, af því að þótt það sé kannski ekki þvæla þá þvælist það samt fyrir því sem skiptir meira máli, sem er þetta:

Þrátt fyrir allt þá vitum við heilan hel­vítis hell­ing. 

Vís­inda­menn eru ekki fúskarar þótt þeir kom­ist stundum að ólíkum nið­ur­stöðum í ólíkum rann­sóknum með ólíkum aðferð­um. Það að vís­inda­menn greini á um sumt og þeir geri ennþá upp­götv­an­ir, sem betur fer, þýðir ekki að allt sem haldið er fram sé jafnsatt. Við þurfum ekki að vita allt til að vita margt.

Lofts­lags­breyt­ingar af manna­völdum eru stað­reynd. Og stað­reyndir eru stað­reynd­ir. Það eru engar „alt­ernative fact­s“. Það voru ekki 1.500.000 manns á inn­setn­ing­ar­at­höfn Don­alds Trump. Það er stað­reynd. Hún er ekki alt­erna­tíf og það er ekki til neitt alt­erna­tíf við hana. Hundar eru ekki lang­líf­ustu skepnur jarð­ar, lifa ekki í millj­arð ára og geta ekki lært skammta­fræði (þetta síð­asta þyrfti lík­lega að rann­saka áður en hægt er að flokka það sem stað­reynd). Og unnar kjöt­vörur eru vondar fyrir okk­ur. Það er stað­reynd. Þangað til annað kemur í ljós.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar.
Segir ofsagróða stórútgerða hafa ruðningsáhrif – „Þjóðin fær ekki réttlátan hlut í arðinum“
Þingmaður Samfylkingarinnar spurði matvælaráðherra á þingi i dag hvort hún hygðist leggja fram frumvarp um breytingar á lögum sem vinna gegn samþjöppun í sjávarútveginum. Ráðherrann telur mikilvægt að grafast fyrir um þessi mál.
Kjarninn 16. maí 2022
Anna Sigríður Jóhannsdóttir
„Með hækkandi sól“
Kjarninn 16. maí 2022
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Ítreka stuðning við ákvörðun Finnlands og Svíþjóðar að sækja um aðild að NATO
Forsætisráðherrar Íslands, Danmerkur og Noregs hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir segja að ríkin muni aðstoða Finnland og Svíþjóð með öllum ráðum verði öryggi þeirra ógnað áður en aðild að Atlantshafsbandalaginu gengur í gildi.
Kjarninn 16. maí 2022
Framsóknarflokkurinn í Mosfellsbæ fékk fjóra bæjarfulltrúa kjörna í svietarstjórnakosningum um helgina og er í lykilstöðu við myndun meirihluta.
Framsóknarflokkur sagður horfa til samstarfs með öðrum en Sjálfstæðisflokki í Mosfellsbæ
Samkvæmt heimildum Kjarnans telur Framsóknarflokkurinn í Mosfellsbæ niðurstöður kosninganna ákall frá kjósendum um að binda enda á stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins. Þetta er í fyrsta sinn í rúm 50 ár sem flokkurinn er ekki sá stærsti í bænum.
Kjarninn 16. maí 2022
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir er oddviti Viðreisnar.
Þórdís Lóa útilokar ekki meirihlutasamstarf við Sjálfstæðisflokk og Framsókn
Þótt þrír af flokkunum sem standa að fráfarandi meirihluta ætli að fylgjast að í komandi viðræðum útilokar oddviti Viðreisnar og eini borgarfulltrúi þess flokks ekki að mynda annars konar meirihluta. Það opnar glufu fyrir Sjálfstæðisflokkinn að völdum.
Kjarninn 16. maí 2022
BJörgunarmenn að störfum í Durban eftir gríðarleg flóð.
Hamfarir í Suður-Afríku tvöfalt líklegri vegna loftslagsbreytinga
Ef veðurfar væri svipað nú og það var fyrir iðnbyltingu myndu hamfarir á borð við þær sem kostuðu 435 manneskjur lífið í Suður-Afríku í apríl eiga sér stað á 40 ára fresti en ekki einu sinni á hverjum tuttugu árum.
Kjarninn 16. maí 2022
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, skrifar undir umsögnina ásamt aðalhagfræðingi samtakanna.
Samtök iðnaðarins vilja framlengja milljarða króna endurgreiðslur vegna byggingavinnu
Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á voru endurgreiðslur vegna „Allir vinna“ átaksins hækkaðar upp í 100 prósent. Á tæpum tveimur árum kostaði það ríkissjóð 16,5 milljarða króna í tekjum sem voru ekki innheimtar.
Kjarninn 16. maí 2022
Tæknivarpið
Tæknivarpið
Tæknivarpið – iPod lagður til grafar
Kjarninn 16. maí 2022
Meira úr sama flokkiKjaftæði
None