„Væri það illa séð ef ég sendi ykkur Kjaftæðið mitt ekki í kvöld, en alveg pottþétt fyrir kl. 09 í fyrramál?“ Þessa spurningu sendi ég á ritstjórn Kjarnans síðdegis í gær og fékk „ekkert mál“ til baka. Ég var nefnilega með plön fyrir kvöldið og allt of lítið sofinn til að vaka eitthvað frameftir. En þetta yrði ekkert mál, ég var með skothelt plan. Að eyða strætóferðinni heim úr vinnunni til að ákveða hvað ég ætlaði að skrifa um, leyfa því að malla framyfir kvöldmat, skrifa niður stikkorð og sirka tímaröð áður en ég færi að sofa, vakna síðan nógu snemma til að ná 7:26–vagninum, vera kominn í vinnuna rétt fyrir kl. 8:00 og hafa þá um klukkutíma til að skrifa eftir punktunum mínum. Deddlæn klukkan 9, vinnan byrjar 9 — þetta er hið fullkomna plan. Af hverju er ég að gera þetta alltaf á kvöldin eins og einhver helvítis auli?
Svo fór kvöldið reyndar þannig að plönin mín fóru út í veður og vind, en ég var svo hrifinn af þessu plani mínu að ég ákvað að halda mig við það. Eyddi kvöldinu þess í stað í að gera ekki neitt. Sem var reyndar alveg kærkomið. Börnin tvö á heimilinu tóku nefnilega ákvörðun um það um daginn að svefn væri ofmetinn. Ekki þeirra eigin, heldur svefn annarra. Sá eldri er sannfærður um það að draugur hafi flutt inn til okkar, nánar tiltekið í svefnherbergið hans, þannig að oftar en ekki endar hann uppí hjá okkur með tilheyrandi sprikli og smjatti. Börn taka nefnilega ekki mikið pláss þegar þau eru vakandi, en þegar þau sofa er eins og þau þrefaldist. Sá yngri hefur enga afsökun. Hann er bara að vera með leiðindi. Vaknar vælandi á hálftíma fresti frá 23:00 til 7:00. Hann er ekki einu sinni í sama herbergi þannig að ég þarf að taka röltið 10–15 sinnum yfir nóttina til að setja upp í hann snuð. Eins og hann geti ekki gert það sjálfur. Eru ársgömul börn kannski orðin nógu gömul til að hata foreldra sína?
„Haukur, vaknaðu!“ var það sem ég vaknaði við í morgun. Það síðasta sem ég vildi vakna við. Ónei, klukkan var 7:26. Ég leit út um gluggann og sá strætóinn minn bruna framhjá húsinu mínu. Hvernig gat þetta frábæra plan klikkað svona algjörlega? Ég henti mér í föt, burstaði tennur og hljóp út í dauðans ofboði. Næsti strætó var væntanlegur 7:41 og ég ætlaði ekki að missa af honum. Og djöfull er maður asnalegur þegar maður hleypur í hálku.
Ég rétt náði þessum vagni og ákvað að nota tímann. „Ókei, verkefnafundur í hausnum á mér. Sjitt, ég gleymdi að skrifa niður þessa punkta. Gott og vel, ég ætlaði að skrifa um snjóinn á sunnudaginn. Hvernig hann dregur fram það besta í okkur. Hvað hann gerir okkur kurteis og hjálpfús. Hvernig hann ætti að vera á hverjum degi þannig að við hættum að vera svona miklir hálfvitar. Hmmm, ég var kominn með einhverja snjalla myndlíkingu. Hvernig var hún aftur? Æi, andskotans helvíti. Ég gleymdi að taka með mér hjuts ess lasanjað frá því í gær sem ég ætlaði að borða í hádeginu. Af hverju ekur þessi strætóbílstjóri svona hægt? Ætli það sé eitthvað að honum? Ef ég næ ekki hinum vagninum í Hamraborg er ég í skítnum!“.
Klukkan 8:07 stoppaði seinni vagninn fyrir framan vinnuna mína. Ekki svo slæmt. Rúmur klukkutími orðinn að tæpum klukkutíma, þetta gæti verið verra. Sérstaklega í ljósi þess að fremstu dyrnar í vagninum virkuðu ekki og á hverju einasta stoppi þurfti vagnstjórinn að standa upp og opna þær með handafli. En ég hafði auðvitað ekki haft tíma til að borða neitt í hamaganginum. „Það tefur mig eflaust ekki það mikið þó ég stoppi örstutt í bakaríinu,“ hugsaði ég. Það er hvort eð er aldrei neitt að gera í þessu bakaríi … nema reyndar akkúrat núna. Þrír á undan mér, löööturhægir. Líklega nývaknaðir úr svæfingu eftir stóra skurðaðgerð. „Hvernig kaffi eruð þið með?“ spurði sá fyrsti. Frábært. Fyrst þarf hann að ákveða hvernig kaffi hann ætlar að fá, svo þarf afgreiðslukonan að búa það til … og frábært, hann heldur á seðli og er að tína saman eitthvað klink með því. Hann biður bókað um nótu.
Auðvitað bað hann um nótu. Með kennitölu meira að segja. Reyndar báðu þeir allir um nótu og þegar sá síðasti gerði það missti ég það út úr mér. „Guð minn góður!“ Úps, ég ætlaði bara að hugsa þetta, ekki segja það upphátt.
Klukkan 8:22 settist ég í sætið mitt í vinnunni og kveikti á tölvunni. „Ókei, ég hef ekki tíma til að skrifa eftir þessum punktum. Ég er fljótari að skrifa pistil um það að skrifa pistil. Sem er elsta trixið í bókinni, að skrifa eitthvað sjálfhverft og flippað í flýti vegna þess að þú skeist á þig.
Akkúrat núna þegar ég skrifa þessi lokaorð er klukkan orðin 9:07. Ég er búinn að svíkja Kjarnann. „Alveg pottþétt fyrir kl. 09 í fyrramál.“ Einmitt. Vinnufélagarnir mættir og ég get ekki einbeitt mér. Yfirmaðurinn sestur á móti mér og ég að reyna að feika það. Ég er kominn á „fyrirtækjatíma“. Þetta er óheiðarlegt. Það er eins gott að prófarkalesari Kjarnans sé vel sofinn, því þetta sem ég er að fara að senda er eins og górilla í ofnhönskum hafi vélritað það. En svona gerist víst þegar maður á börn.
Hey, vitið þið hvað er raunverulega elsta trixið í bókinni, jafnvel eldra en það að skrifa pistil um pistil? Að kenna börnunum sínum um það þegar maður gerir upp á bak.