Auglýsing

„Væri það illa séð ef ég sendi ykkur Kjaftæðið mitt ekki í kvöld, en alveg pott­þétt fyrir kl. 09 í fyrra­mál?“ Þessa spurn­ingu sendi ég á rit­stjórn Kjarn­ans síð­degis í gær og fékk „ekk­ert mál“ til baka. Ég var nefni­lega með plön fyrir kvöldið og allt of lítið sof­inn til að vaka eitt­hvað fram­eft­ir. En þetta yrði ekk­ert mál, ég var með skot­helt plan. Að eyða stræt­ó­ferð­inni heim úr vinn­unni til að ákveða hvað ég ætl­aði að skrifa um, leyfa því að malla fram­yfir kvöld­mat, skrifa niður stikkorð og sirka tíma­röð áður en ég færi að sofa, vakna síðan nógu snemma til að ná 7:26–vagn­in­um, vera kom­inn í vinn­una rétt fyrir kl. 8:00 og hafa þá um klukku­tíma til að skrifa eftir punkt­unum mín­um. Dedd­læn klukkan 9, vinnan byrjar 9 — þetta er hið full­komna plan. Af hverju er ég að gera þetta alltaf á kvöldin eins og ein­hver hel­vítis auli?

Svo fór kvöldið reyndar þannig að plönin mín fóru út í veður og vind, en ég var svo hrif­inn af þessu plani mínu að ég ákvað að halda mig við það. Eyddi kvöld­inu þess í stað í að gera ekki neitt. Sem var reyndar alveg kær­kom­ið. Börnin tvö á heim­il­inu tóku nefni­lega ákvörðun um það um dag­inn að svefn væri ofmet­inn. Ekki þeirra eig­in, heldur svefn ann­arra. Sá eldri er sann­færður um það að draugur hafi flutt inn til okk­ar, nánar til­tekið í svefn­her­bergið hans, þannig að oftar en ekki endar hann uppí hjá okkur með til­heyr­andi sprikli og smjatti. Börn taka nefni­lega ekki mikið pláss þegar þau eru vak­andi, en þegar þau sofa er eins og þau þre­fald­ist. Sá yngri hefur enga afsök­un. Hann er bara að vera með leið­indi. Vaknar vælandi á hálf­tíma fresti frá 23:00 til 7:00. Hann er ekki einu sinni í sama her­bergi þannig að ég þarf að taka röltið 10–15 sinnum yfir nótt­ina til að setja upp í hann snuð. Eins og hann geti ekki gert það sjálf­ur. Eru árs­gömul börn kannski orðin nógu gömul til að hata for­eldra sína?

Auglýsing

„Hauk­ur, vakn­að­u!“ var það sem ég vakn­aði við í morg­un. Það síð­asta sem ég vildi vakna við. Ónei, klukkan var 7:26. Ég leit út um glugg­ann og sá strætó­inn minn bruna fram­hjá hús­inu mínu. Hvernig gat þetta frá­bæra plan klikkað svona algjör­lega? Ég henti mér í föt, burstaði tennur og hljóp út í dauð­ans ofboði. Næsti strætó var vænt­an­legur 7:41 og ég ætl­aði ekki að missa af hon­um. Og djöf­ull er maður asna­legur þegar maður hleypur í hálku.

Ég rétt náði þessum vagni og ákvað að nota tím­ann. „Ókei, verk­efna­fundur í hausnum á mér. Sjitt, ég gleymdi að skrifa niður þessa punkta. Gott og vel, ég ætl­aði að skrifa um snjó­inn á sunnu­dag­inn. Hvernig hann dregur fram það besta í okk­ur. Hvað hann gerir okkur kurt­eis og hjálp­fús. Hvernig hann ætti að vera á hverjum degi þannig að við hættum að vera svona miklir hálf­vit­ar. Hmmm, ég var kom­inn með ein­hverja snjalla mynd­lík­ingu. Hvernig var hún aft­ur? Æi, and­skot­ans hel­víti. Ég gleymdi að taka með mér hjuts ess lasanjað frá því í gær sem ég ætl­aði að borða í hádeg­inu. Af hverju ekur þessi strætó­bíl­stjóri svona hægt? Ætli það sé eitt­hvað að hon­um? Ef ég næ ekki hinum vagn­inum í Hamra­borg er ég í skítn­um!“.

Klukkan 8:07 stopp­aði seinni vagn­inn fyrir framan vinn­una mína. Ekki svo slæmt. Rúmur klukku­tími orð­inn að tæpum klukku­tíma, þetta gæti verið verra. Sér­stak­lega í ljósi þess að fremstu dyrnar í vagn­inum virk­uðu ekki og á hverju ein­asta stoppi þurfti vagn­stjór­inn að standa upp og opna þær með handafli. En ég hafði auð­vitað ekki haft tíma til að borða neitt í hama­gang­in­um. „Það tefur mig eflaust ekki það mikið þó ég stoppi örstutt í bak­arí­in­u,“ hugs­aði ég. Það er hvort eð er aldrei neitt að gera í þessu bak­aríi … nema reyndar akkúrat núna. Þrír á undan mér, löööt­ur­hæg­ir. Lík­lega nývakn­aðir úr svæf­ingu eftir stóra skurð­að­gerð. „Hvernig kaffi eruð þið með?“ spurði sá fyrsti. Frá­bært. Fyrst þarf hann að ákveða hvernig kaffi hann ætlar að fá, svo þarf afgreiðslu­konan að búa það til … og frá­bært, hann heldur á seðli og er að tína saman eitt­hvað klink með því. Hann biður bókað um nótu.

Auð­vitað bað hann um nótu. Með kenni­tölu meira að segja. Reyndar báðu þeir allir um nótu og þegar sá síð­asti gerði það missti ég það út úr mér. „Guð minn góð­ur!“ Úps, ég ætl­aði bara að hugsa þetta, ekki segja það upp­hátt.

Klukkan 8:22 sett­ist ég í sætið mitt í vinn­unni og kveikti á tölv­unni. „Ókei, ég hef ekki tíma til að skrifa eftir þessum punkt­um. Ég er fljót­ari að skrifa pistil um það að skrifa pistil. Sem er elsta trixið í bók­inni, að skrifa eitt­hvað sjálf­hverft og flippað í flýti vegna þess að þú skeist á þig.

Akkúrat núna þegar ég skrifa þessi loka­orð er klukkan orðin 9:07. Ég er búinn að svíkja Kjarn­ann. „Al­veg pott­þétt fyrir kl. 09 í fyrra­mál.“ Einmitt. Vinnu­fé­lag­arnir mættir og ég get ekki ein­beitt mér. Yfir­mað­ur­inn sestur á móti mér og ég að reyna að feika það. Ég er kom­inn á „fyr­ir­tækja­tíma“. Þetta er óheið­ar­legt. Það er eins gott að próf­arka­les­ari Kjarn­ans sé vel sof­inn, því þetta sem ég er að fara að senda er eins og gór­illa í ofn­hönskum hafi vél­ritað það. En svona ger­ist víst þegar maður á börn.

Hey, vitið þið hvað er raun­veru­lega elsta trixið í bók­inni, jafn­vel eldra en það að skrifa pistil um pistil? Að kenna börn­unum sínum um það þegar maður gerir upp á bak. 

Meira úr sama flokkiKjaftæði
None