Ískaldur, næðandi vindurinn leikur sér fyrir utan gluggann á meðan ég sit vafin í eitthvað sem getur ekki ákveðið sig hvort sé teppi eða sjal. Það er ótrúlegt hvað maður fer að sakna hluta sem maður hafði ekki hugmynd um að hefðu áhrif á mann eða jafnvel fóru í taugarnar á manni um leið og maður er án þeirra. Hvað mig varðar fór ég að sakna íslenska veðursins þegar ég var tvær vikur á jógasetri á Costa Rica.
Nú gætuð þið dregið þá ályktun að ég sé ofdekruð prinsessa sem hreinlega kann ekki gott að meta og vissulega hefðuð þið rétt fyrir ykkur. En í þetta sinn er sagan að minnsta kosti örlítið flóknari. Sjáið til ég er ekki bara ofdekruð prinsessa sem hreinlega kann ekki gott að meta, ég er líka óvenju hvatvís og fífldjörf í orðum en algjör heigull þegar að hólminum er komið.
Ég hafði verið á höttunum eftir nýjum ævintýrum þar sem þau síðustu höfðu ekki farið svo vel; au pair í Sviss í heila tvo mánuði áður en ég flúði aftur heim, rómantískt frí til Prag með kærastanum sem ég svo dömpaði stuttu eftir að við komum heim, fjölskylduferð til Flórída þar sem ég var allan tímann í símanum við fyrrverandi kærastann að biðja hann um að byrja aftur með mér (sem hann gerði og ég dömpaði honum svo aftur). Nýbúin að harka af mér þriggja ára háskólanám í grein sem ég þoldi ekki var ég því reiðubúin að hrista af mér álögin og fara loksins í ferðalag sem myndi vera skemmtilegt.
Í trúgirni minni sá ég fullkomna fríið í hillingum; dekur á ströndinni, hlýja goluna við Kyrrahafið, og jógað að sjálfsögðu. Ég sem hafði aldrei á ævi minni stundað jóga ákvað að fara í tveggja vikna þrekbúðir í iðkun sem ég hafði nákvæmlega enga þjálfun í. Mér var sagt að mataræðið yrði að öllum líkindum léttara en ég væri vön en lét það sem vind um eyru þjóta. Ég á það nefnilega til að draga úr alvarleika óþægilegra staðreynda og láta eins og allt sé í lagi þangað til ég spring. Hérna er örugglega góð tímasetning að minnast á það að BS-gráðan sem ég lauk var í sálfræði.
Eftir langt ferðaleg komst ég loks á setrið. Sjóinn var hvergi að sjá. Engin strönd, bara gamalt, fúið hús inn í agnarsmáum bæ með lélegri nettengingu og engu heitu vatni. Hvað varðar jógað voru allir á svæðinu nema ég í framhaldskennaranámi svo ég hafði í raun ekkert fyrir stafni nema að reyna að halda í við hópinn.
Jóga er afar andlega þenkjandi iðkun með mikla tengingu við trúarbrögð. Því legg ég til að allir þeir sem ætla sér að iðka jóga af svo mikilli alvöru velti því fyrir sér hvort þeir séu yfir höfuð andlega þenkjandi eða með snefil af tengingu við trúarbrögð. Ég er hvorugt. Ég trúi ekki á orkuflæði, gyðjur, táknræni tilviljana eða að alheimurinn sé að reyna að segja mér eitthvað. Fólk á víst erfitt með að sætta sig við tilviljanir en það er enginn að toga í strengina. Það er ekkert æðra plan. Við erum bara einhverjar lífverur í stanslausri tilvistarkreppu sem lendum í alls konar aðstæðum oft út af engu sérstöku. Upplífgandi ekki satt? Ég er rosalega skemmtileg í partýum.
Því sat ég í tvær vikur og beit í tunguna á mér þegar fólkið í kringum mig talaði um áhrif stjörnumerkjanna á persónuleika þeirra og hvað erfðabreyttur matur væri að drepa okkur öll. Með fullri virðingu fyrir skoðunum annarra þá missirðu allan rétt á að predika um skaðsemi sykurs á líkamann á meðan þú keðjureykir sígarettur allan liðlangan daginn. Svoleiðis heitir hræsni. Annað dæmi um slíkt er að forsíðumyndin mín á Facebook er af mér að gera jógastöðu á ströndinni við sólsetur.
Á degi þrjú hafði ég undirbúið flóttaleið til fjölskyldu minnar í Kanada. Ég ætlaði að breyta fluginu mínu, strjúka af hippakommúnunni og vera í Ontario þangað til tími væri kominn að fara aftur til Íslands og ekki segja neinum að ég hefði gefist upp. Með hvatningu vina og fjölskyldu ákvað ég þó að gefa þessu ævintýri annan séns og reyna að halda það út. Og þá varð allt betra, ég varð snillingur í jóga og hugleiðslu, sprakk út eins og blóm og allt varð dásamlegt. Endir.
Nei.
Í staðinn föstuðum við til að hreinsa líkamann og borðuðum nánast ekki neitt í marga daga. En fastan kynti bara undir bræði minni. Eftir nokkra daga hrósaði einn kennarinn mér fyrir hvað ég væri byrjuð að grennast. Ég þakkaði honum fyrir en sagði honum ekki frá því að það væri líklegast ekkert nema vatn og að það væri ekki skynsamlegt að borða svona lítið prótein á meðan maður stundaði krefjandi líkamsrækt í marga klukkutíma á dag. Þegar líða tók á nýja megrunarkúrinn minn fór ég að stelast út í búð eftir hvern hádegismat og kaupa snakk og kex sem ég át svo í laumi. Ég kom heim þyngri en ég fór út.
Þegar ég fór heim langaði mig að gráta af gleði. Á leiðinni til baka að flugvellinum og þar með að malbiki, siðmenningu og kapítalisma tautuðu ferðalangar mínir um illsku mannsins gegn náttúrinni á meðan mig langaði helst að kyssa flekkótta gangstéttinna og fara í handsnyrtingu.
Þegar ég loksins var komin aftur á klakann var ég eitt stórt bros. Vindurinn stakk mig inn að beini og ég var honum svo þakklát. Þessi ferð var ekkert nema peningasóun. En af illu má oft draga lærdóm. Ég er reynslunni ríkari og ætti nú að geta byrjað að segja nei við klikkuðum hugmyndum sem ég hef ekki raunverulegan áhuga á í staðinn fyrir að sannfæra sjálfa mig um að mér muni örugglega líða betur þegar ég er komin á staðinn. Næsta ferðalag sem ég sjálf skipulegg verður upp í sumarbústað með góða bók, allar Scrubs seríurnar, dökkt súkkulaði, þægilegar náttbuxur og tvær ferðatöskur af snyrtivörum.
Þannig já, ég er ofdekruð prinsessa sem kann ekki gott að meta. Nema ömurlega, íslenska veðrið.