Í auðninni við Kirkjusand stendur mannlaus steypuklumpur sem eitt sinn var höfuðstöðvar eins stærsta banka landsins. Fyrir nokkrum árum var áætlað að byggja við, opna glæsilegar nýjar höfuðstöðvar. Allt þar til að það fannst svo mikil mygla að það þurfti að flytja fölt og hóstandi starfsfólk úr húsinu. Mygla svo djúpt inni í steypunni að það var engin leið að bjarga því. Rotið inn að beini. Látið.
Og það eina sem eftir stendur er líflaus, flagnandi, myglandi minning um banka sem hulin er með 300 fermetra blaktandi líkklæði í formi auglýsingar sem á stendur: „Ekki gefast upp. Það er hægt.”
Það er eitthvað ljóðrænt við að ímynda sér að þessi daufdumba auglýsingaherferð hafi fæðst í deyjandi húsi í skýi af svífandi sveppagró. Fólk mundi hata þetta aðeins minna ef bankinn hefði eitthvað að segja, einhverju við að bæta. Í staðinn reynir þessi risavaxna fjármálastofnun að klæða sig í FUBU-peysu og Dickies-buxur í misráðinni endurgerð af „Never Been Kissed“ og þykjast tala við ungt fólk á jafningjagrundvelli: „Þetta er ekkert mál krakkar, það eina sem við þurfum að gera er að spara bara smá. Ég er til dæmis að spara fyrir útborgun í nýjar höfuðstöðvar því að mínar eru rotnar að innan“. Það er auðvitað alltaf heilræði að spara – svona frumheilræði eins og að bursta tennurnar, taka lýsi og fara ekki svangur að versla. En þegar skilaboðin koma frá risavaxinni fjármálastofnun hljóma þau frekar mjóróma og veikluleg – eins og baðvörður að ráðleggja einhverjum í ljósum logum að drekka bara meira vatn.
Það eru næstum þrjú ár síðan ég skrifaði um Gámakynslóðina. Þá var helsta von ungs fólks á sökkvandi húsnæðismarkaði „að stafla upp notuðum vörugámum í einhverju ódýru verksmiðjuhverfi, skera á þá glugga og fylla af IKEA-húsgögnum“. En það hlýtur margt að hafa breyst á þremur árum, er það ekki? Núna er góðæri, ný ríkisstjórn, Ólafur Ragnar er orðinn sandkorn í eyðimörk sögunnar og Sigmundi Davíð tókst að greiða efnamestu fasteignaeigendum landsins út 70 milljarða króna fyrirframgreiddan arf í formi Leiðréttingarinnar áður en hann var loks kallaður aftur heim til plánetunnar sinnar.
Fyrir þremur árum voru 800 námsmenn á biðlista eftir stúdentaíbúð, nú eru þeir tæplega 1200. Íbúðalánasjóður segir að það vanti 9000 íbúðir næstu þrjú árin til að anna eftirspurn og á sama tíma er áætlað að fasteignaverð hækki um 40%, bara í ár. Auðvitað eru engin einföld svör við þeim níu plágum Egyptalands sem lagst hafa á húsnæðismarkaðinn: Myglu, rottumítlum, ferðamönnum, GAMMA, sveitarfélögunum, krónunni, kapítalismanum, verðtryggingunni og Finni Ingólfssyni. Einhvern veginn er ábyrgðin samt alltaf okkar. Við eigum að vera duglegri, fyrirhyggjusamari, skynsamari. Við eigum að eyða minna, neyta minna, vinna meira, spara meira. Síst af öllu eigum við að láta eins og húsnæðisvandi ungs fólks sé partur af stéttabaráttu. Að þetta sé mögulega kerfislægt vandamál.
Markaðurinn sér um sig sjálfan. Þetta jafnast allt út.Ég veit ekki hvort við eigum að lesa of mikið í það að ráðherra húsnæðismála var í fyrra lífi formaður Samtaka atvinnulífsins og vildi þá meina að þyngsti myllusteinninn utan um háls íslensku þjóðarinnar væru sturlaðar kröfur láglaunafólks um mannsæmandi kjör. Ég reyndar öfunda hann ekki sérstaklega af því að vera velferðarráherra í ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Síðasti velferðarráðherra, Eygló Harðardóttir, eyddi nánast öllu síðasta kjörtímabili í að reyna að koma í gegn frumvörpum um umbætur í húsnæðismálum. Þetta var allt kæft. Of dýrt. Of mikið inngrip. Alveg þangað til að þessu var ýtt í gegn, útvötnuðu og allt of seint.
Markaðurinn sér um sig sjálfan. Þetta jafnast allt út.
Auðvitað er best að treysta bara einkaframtakinu. Núna er til dæmis hægt freista þess að fá 95% lán hjá byggingafélagi athafnamannsins Sverris Eiríkssonar sem meðal annars hefur rekið blómlega starfsmannaleigu, smálánafyrirtæki, veðlánafyrirtæki, vasast eitthvað með demanta í Sierra Leone, selt Herbalife, keypt gull, unnið þjónustuþrekvirki með Gömlu Smiðjunni auk þess auðvitað að bjóða öllum helstu Snapchat-stjörnum landsins í bröns í Þrastarlundi. Svo er Ólafur Ólafsson líka að hamra upp 330 íbúðum. Benedikt Sveinsson keypti líka ræstirisann ISS þannig að það er hægt að borga föður forsætisráðherrans fyrir að þrífa þetta allt saman.
Við erum sem sagt í öruggum höndum. Ekkert getur farið úrskeiðis hér.
Framlag alþjóðlega stórfyrirtækisins IKEA er að byggja smáíbúðablokk fyrir starfsfólkið sitt sem það getur leigt á hagkvæmu, skandinavísku velferðarverði í fullkominni kapítalískri osmósu atvinnu- og einkalífs. Í þeirri veröld eyðir maður deginum í að ráfa um fullkomlega skipulagðar eftirlíkingar af sænskum skynsemisíbúðum að selja fólki HOKKÅSEN-rúmdýnur þangað til sólin sem maður sá aldrei sest og maður labbar yfir götuna í tíu hæða niðurhólfaða skjalaskápinn við hliðina á vinnustaðnum. Þar getur maður dagað uppi í chic 27 fermetra skandinavískri líkkistu í einhvers konar Garðabæjareyðimörk. Þar fer maður með kvöldbænina þar sem maður þakkar Ingvari Kamprad fyrir að leyfa manni að búa í svona hagkvæmu og vel skipulögðu heimili og sofnar svo liggjandi á HOKKÅSEN-dýnunni sinni dreymandi köttbullar og knäckerbröd. Og maður má aldrei segja upp því að annars er það bara í hakkavélina á almenna leigumarkaðnum þar sem fólk þarf að troða sér fimm saman í risíbúð eins og það búi á háaloftinu hjá Önnu Frank.
Við erum samt öll frosin í hakkavélinni nú þegar. Það er eins gott að ég elska kærustuna mína því að ég get aldrei nokkurn tímann hætt með henni – það er bara efnahagslegur ómöguleiki. Ég er hrúðurkarl á hennar lífi. Bandormurinn í iðrum tilveru hennar. Kannski er þetta uppskriftin að hinum fullkomna heimi – veröld þar sem ekkert breytist. Enginn getur flutt, enginn getur selt, enginn getur stækkað við sig. Börn þurfa aldrei að horfa upp á foreldra sína skilja og foreldrar þurfa aldrei að horfa upp á börnin sín flytja að heiman. Kynslóð í formalíni.
Annað hvort það eða berjast til dauða um síðustu kjallaraholurnar í hungurleikum yfirstéttarinnar á meðan Flórídaþrútnir Garðbæingar horfa á og láta léttklædda vikapilta mata sig með Costco-grilluðum rotisserie-kjúklingalærum.
Að minnsta kosti er Hanna Birna búin að segja af sér.