Heilinn er alveg ótrúlegt fyrirbæri og það vita allir. Magnaðasta sköpunarverkið, þvílíkt tryllitæki. Ef ekki væri fyrir heilann myndi enginn muna neitt né skilja neitt.
Ég hef í nokkurn tíma verið með heilann á heilanum. Til að gera langa sögu stutta þá er það einhvers konar sannfæring mín og míns heila að allt sem er og er ekki byrji og endi í heilanum. Einhvers staðar á leiðinni beit ég í mig kenningar Nietsczhes varðandi það að allt sem við höldum að sé satt sé sköpun mannsins. Að mennirnir hafi skapað allar mælieiningarnar og kerfin og aðferðirnar til að lýsa því sem fyrir ber, útfrá sinni getu til að skynja og skilja og sannleikurinn endi þar sem getunni sleppir. Heimurinn eins og við þekkjum hann er afurð heilans.
Ég fór að læra læknisfræði á gamalsaldri því mig langaði svo að skoða heilann, af ofangreindum ástæðum. Sem ég gerði og hef ég nú í dag handleikið þónokkra ferska og formalínbaðaða mannsheila. Ég var eins og Gollum með hringinn í fyrsta krufningatímanum. Að fá að sjá hann, snerta hann, finna áferðina, finna lyktina af honum, hvernig týpa var þessi heili? Hver felling og hver skor á sitt nafn og er eins í öllum, ólíkt því sem margir halda að um handahófskennda garnaflækju sé að ræða. Heilinn hefur þá sérstöðu meðal líffæra að vera í lokuðu rými, hauskúpunni, sem þýðir að ekki hefur verið gert ráð fyrir neinni útþenslu. Inni í þessu lokaða rými flýtur hann blessaður, í um 100 millilítrum af mænuvökva. Heilar eru nokkuð þungir, um 1300 grömm, en flotkrafturinn snýr á þyngdaraflið og við finnum ekki fyrir þyngdinni. Snilld? Einskær. Sérstakir heilahnífar eru notaðir til að sneiða hann niður þvers og kruss í þágu vísindanna. En þvílík vonbrigði, ég get ekki annað sagt. Það var nefnilega svo lítið að sjá, allavega miðað við að kryfja öll hin líffærin. Leyndardómar hans eru ósýnilegir berum augum.
Vonbrigði númer tvö voru að læra um geðlyfin. Í mörgum tilfellum er miklu minna vitað um hvernig þau virka, miðað við öll hin lyfin. Það stafar auðvitað af því hve lítið við vitum um heilann. Til dæmis er ekki sannað hvað veldur geðsjúkdómum á borð við þunglyndi. Mönnum er tamt að tala um þá tilgátu að um sé að ræða „efnafræðilegt ójafnvægi”, að þunglyndi orsakist af því að ekki sé nóg af taugaboðefnum, til dæmis dópamíni, serótóníni og noradrenalíni í taugamótunum milli þeirra billjóna taugafrumna sem eru í heilanum. En þetta er enn bara tilgáta og tilkoma hennar var tilviljun. Sagan segir að meðal sjúklinga sem gefið var blóðþrýstingslyfið reserpine á 6. áratugnum jókst sjálfsmorðstíðni upp úr öllu valdi. Lyfinu var ætlað að blokkera noradrenalín í æðakerfinu og lækka þannig blóðþrýsting en því miður stíflaði það einnig noradrenalínflæði í heilanum með fyrrgreindum aðleiðingum. Þær ályktanir voru því dregnar, skiljanlega, að lyf sem myndu auka taugaboðefnin í taugamótunum gætu dregið úr einkennum þunglyndis, t.d. með sérhæfðum seróntónín endurupptökuhemlum (e. Selective Serotonin Reuptake Inhibitors eða SSRIs). Þetta virðist gefast vel, svo vel að nánast annar hver maður hefur tekið inn slík lyf. Spurningin er hins vegar, ef aspirín slær á hausverk, er þá ástæða hausverkjarins skortur á aspiríni?
Ýmsar remedíur við geðveilum voru prófaðar á 20. öldinni. Svartur blettur í sögu læknisfræðinnar eru Nóbelsverðlaunin 1949. Þá deildu portúgalski taugasérfræðingurinn Egas Moniz og Walter Hess með sér verðlaununum fyrir svokallaða heilablaðsskurðaðgerð (e. leucotomy). Farið var með þar til gerðan hníf inn í gegnum augnbotnana og einfaldlega hrært aðeins í heilaberkinum. Sjúklingar voru ekki svæfðir og tók aðgerðin aðeins um 5 mínútur. Tugir þúsunda sjúklinga í Bandaríkjunum og Evrópu gengust undir þessa aðgerð með þeim afleiðingum að einkenni geðveikinnar máðust að einhverju leyti út, en það gerði persónuleiki og tilfinningalíf sjúklinga einnig, eins og þeir hefðu „misst sálina” samkvæmt lýsingum. Önnur aðferð var að freista þess að hreinlega endurræsa hausinn með raflosti eins og sjá má í þeirri fínu bíómynd One flew over the Cookoos nest.
Geðlæknisfræðinni (og fleiru) hefur stundum verið lýst sem pendúl milli tveggja skauta, líkama og sálar. Eiga geðræn vandamál sér taugafræðilegar orsakir eða eru þau sálræn? Blanda af þessu tvennu? Hvar liggja mörkin milli sálar og líkama og eru slík mörk til? Hvað er sálin? Þetta eru háexistentíalískar spurningar. Langþægilegast er auðvitað að leita lausna í líkamlegum orsökum því læknirinn getur gefið pillu. En málið með geðið er að læknirinn veit ekki frekar en aðrir menn hvað nákvæmlega veldur geðsjúkdómum. Jafnvel ekki hvað pillan gerir.
Menn geta séð glasið hálffullt eða hálftómt eða séð jafnvel gíraffa og ekkert glas. Ef við göngum útfrá því að eðlileg heilastarfsemi byggi á jafnvægi milli taugaboðefna, er þá ekki áhugavert að spá í hversu lítið í raun þarf til að kollvarpa skynjun okkar á heiminum? Öll vitneskja sem við höfum í höndunum byggir á skilningarvitunum. Skilningarvit, flott orð. Ef við hugsum okkur að við mennirnir hefðum annað sett af taugaboðefnum, eða kannski bara í öðrum hlutföllum, þá væri veröldin kannski allt allt önnur. Kannski liði tíminn hraðar eða hægar. Fyndum nýjar lyktir og heyrðum nýjar tíðnir. Kannski sæjum við álfa sem eru allt í kringum okkur en við getum bara ekki séð, ekki með þessu venjulegu boðefnasetti allavega. Menn sjá víst litla álfa á sveppum. Ef allir væru alltaf á sveppum væru litlu álfarnir eðlilegur hluti af veröldinni, eins og eitthvað norm, eins og eitthvað huglægt sem er en er ekki, til dæmis egó. En spurningin er, ef sveppir komu á undan litlu álfunum, hvort kom þá á undan, heimurinn eða boðefnasettið í hausunum sem skynja heiminn?
Andans mólekúl eða The spirit molecule er annað heiti á skynörvandi efninu DMT (N,N-dimethyltryptamine). Það finnst í ýmsum plöntum í fjarlægum löndum og eru þær ýmist reyktar eða úr þeim bruggað te, t.d. ayahuasca – te þeirra Suður-Ameríkubúa. Efnið hefur í árþúsundir verið notað við allskonar sjamanískar trúarathafnir. Áhrifum þess er lýst sem djúpri andlegri reynslu þar sem menn tengjast yfirnáttúrulegum æðri mætti og upplifa svífandi alsælu sem felst í samruna við alheiminn. Tíminn stoppar og menn heimsækja aðra heima og víddir og skeggræða við guð og geimverur um sannleikann. Reynsluboltar segja upplifunina hafa breytt lífi þeirra og tala um að eftir DMT-tripp viti þeir loksins muninn á því að hugleiða og hugsa með lokuð augun. Sumir vísindamenn telja að DMT sé náttúrulega framleitt í heilaköngli (e. pineal gland), sé afleiða melatóníns og þjóni þeim tilgangi að skapa guðlega upplifun. Ég veit ekki hvað er satt og logið í því en ég veit að René Descartes taldi að heilaköngullinn væri bústaður sálarinnar. Ég veit ekki hvað er satt og logið í þeirri kenningu heldur, ég meina, hvað er sálin? En spurningin er aðkallandi og augljós, hvort kom á undan guð eða DMT?
Já, heilinn er magnað sköpunarverk, þvílíkt tryllitæki. Það sem gerir heilann einstakan sem rannsóknarefni miðað við allt annað er að hann sjálfur er rannsakandinn. Hann er endalaus uppspretta óvissu fyrir sjálfan sig. Það er nefnilega það. Ég beit það líka í mig einhvern tímann á leiðinni, að óvissan sé hálfgert bensín lífsins. Í alvöru. Við viljum ekkert vita hvernig allt virkar. Forvitnin keyrir okkur áfram. Aristóteles sagði, “The more you know, the more you know you don’t know”. Það á svo sannarlega við um heilann. Og er það ekki magnað? Það er eins og hann hafi séð við sjálfum sér. Móðir Náttúra er kannski bara að fyrirbyggja þunglyndi með því að henda í okkur slíkri óþrjótandi auðlind óvissu. Hún ætti nú skilið Nóbelinn fyrir það.