500.000 króna fíllinn í herberginu

Auglýsing


Það var í miðjum munúðarfullum aðdrætti myndatökumannsins á verðmiða þriggja kílóa pakkningar af ítalskri parmaskinku sem ég upplifði fölskvalaust þakklæti fyrir beina útsendingu Vísis frá opnun Costco. Það var einhver værð yfir því að fylgjast með Kolbeini Tuma ráfa stefnulaust um gangana í leit að einhverju haldbæru andartaki til að flytja fréttir af – eins og að sitja við höfn á sólríkri sumarnóttu og horfa skemmtiferðaskip sigla út lygnan fjörð.

Sumir virkja nútvitund með öppum, hlusta á frumskógarhljóð, sjávarnið; ég horfi greinilega á annað fólk versla.

Ég hugsa að þetta sé bergmál af gamalli skilyrðingu úr æsku. Ég var frekar einrænt barn; leið oft best með mér sjálfum. Ein mín helsta dægradvöl var að hanga. Hanga í sjoppum, hanga í búðum. Ég hékk á Tröllavídjó og las aftan á spólur. Ég hékk í Hugföngum og las aftan á Action Force-kalla og körfuboltamyndir. Hékk í Japis og las aftan á Sega Megadrive-tölvuleiki. Hékk í Skífunni og las aftan á No Limit Records-diska. Nálægð við neysluna án neyslunnar. Án þess að eignast alla þessa hluti varð til þessi hugmynd um hluti sem fyllingu – að langa.

Auglýsing

Og þetta hefur fylgt mér. Stundum labba ég inn í ELKO án þess að ætla að kaupa neitt; labba bara framhjá uppþvottavélunum og ryksuguvélmennunum og heilsusnjallúrunum. Vil vera á sporbaug í kringum dýr raftæki. Þúsundir hugmyndasnauðra para eru eins. Heilu sunnudagarnir sem fara í að ráfa inn í Kolaportið, í gegnum garðyrkjudeild Bauhaus, framhjá öllum verslununum í Smáralind og ranka svo við sér sex tímum síðar með hálfétinn lambaskanka fyrir framan sig í IKEA. 

Það var nákvæmlega svona sem ég rankaði við mér inni á verst nefndu vörusýningu Íslandssögunnar, Amazing Home Show, um síðustu helgi. Vakna á sunnudegi, fæ mér kaffibolla og allt í einu stend ég inni í Laugardalshöllinni að skrá mig í happdrætti hjá einhverjum fasteignasala til að eiga kost á því að vinna 100.000 króna inneign í Epal. Á meðan situr hópur af daufeygðum börnum og hlustar á Björgvin Franz, í búningi Jasmínar prinsessu, syngja Disneylög fyrir aftan mig. Þarna var sannarlega eitthvað fyrir alla: Básar með gluggatjöldum, yfirbyggðum svölum, tekkhúsgögnum, varmapumpum í sumarbústaði. Það eru íbúðir á Spáni, skandinavísk húsgögn, risavaxið marmarakar með kínverskum gullfiskum og súrrealísk brjóstmynd af Napóleon með höfuðið af Basset-hundi. Allir básarnir reyndu að lokka bugaðar barnafjölskyldur og parauppvakninga til sín með súkkulaðimolum og gosdrykkjum. Einn viðskiptabankinn var bæði að gefa appelsínflöskur með lakkrísröri og ókeypis þriggja mínútna greiðslumat, og Atlantsolía var með getraunaleik þar sem maður átti að reyna að telja Tobleronepakka ofan í risastórum plexíglerssívalningi til að eiga kost á því að vinna flugmiða. Einn básinn, sem ég held að hafi verið að kynna einhverskonar samsett sumarhús frá Tékklandi, bauð samt upp á beinskeyttari upplifun: tveir garðstólar til að sitja í og nokkrar rútur af volgum dósabjór á gólfinu. Mjög naumt og gott feng sui.

Fyrir utan var hægt að skoða grill og garðhúsgögn. Börnin fóru í hoppukastala á meðan fullorðna fólkið stóð í röð til fá að setjast upp í hvítan Tesla-jeppa eins og hann væri fangið á jólasveini í bandarískri verslunarmiðstöð; ekki til setja hann í gang eða keyra, heldur bara svona þykjast stýra. Brúmmbrúmm!

Það besta við þetta allt var að það kostaði 1200 krónur inn. Ég borgaði fyrir að láta selja mér eitthvað drasl. Þetta er eins og eitthvað Blofeld-plott í gamalli Bondmynd; svo sturlað plan að það gæti mögulega virkað.

Það er í það minnsta að virka fyrir Costco. 40.000 einstaklingar og fyrirtæki hafa látið laminera fyrir sig plastkort sem staðfesta að viðkomandi hafi keypt sér þau forréttindi að fá að versla. Það hlýtur að vera frygðarhátindur kapítalismans að sannfæra pöpulinn um að greiða fyrir það að fá að versla. 

Mig langar að vera þarna. Mig langar til þess að sjá þetta allt. Finna fyrir rýminu. Mig langar að handleika risavöxnu Tobleronestautana. Snerta fílinn, hlusta á 150.000 króna hundahátalarann, strjúka þessari þriggja kílóa parmaskinku. Mig langar til að upplifa allt þetta ferska grænmeti; þukla á stinnum lárperum og sjá banana sem ekki eru að deyja úr sorg. Eru til bláber sem eru ekki mygluð? Laukur sem ekki er linur? Ég vil sjá þúsund krabbaklær í klakaboxi og kjöt sem er víst svo ferskt að Sigrún Magnúsdóttir þorir ekki að koma nálægt því af ótta við að bogfrymill sjúgi úr henni framheilann. Þetta er El Dorado; mitt Shangri-La.

Við fögnum komu frelsarans sem heggur á hlekki íslensku okurverslunarinnar. Allt í einu kostar bensínlítrinn 169,90 krónur. Ísskápur sem áður kostaði 399.990 kostar nú 269.990. Ódýrari símar, ódýrari myndavélar, Levi’s-buxur á fimmþúsundkall. Við höfum verið blekkt. 

Einhverjir vilja kalla gagnrýni á Costco stéttahroka; að það séu forréttindi hinna ríku að gagnrýna þá sem minna mega sín fyrir að fagna ódýrara vöruverði. Að það sé særandi að gera grín að þeim sem stóðu í röð fyrir utan verslunina nóttina fyrir opnun eins og þetta hafi verið munaðarleysingjarnir í Ólíver Twist að reyna að ná sér í síðustu dreggjar súpunnar. 

Er það kannski jöfnuðurinn sem allir eru að tala um? Jafn réttur til þess að eiga? Til að eignast? Neysla er mannréttindi. Ódýrar vörur eru mannréttindi. Ódýrt bensín er mannréttindi. Við eigum öll að geta baðað okkur í bensíni eins og módelin í Zoolander. Ég er ekki einu sinni með bílpróf og mig langar samt að fylla 100 brúsa af bensíni.

Af hverju stendur fólk í röð? Veit það eitthvað sem ég veit ekki? Er allt að fara að klárast? Sá þetta fólk kannski fjármálaráðherrann í himinbláa evrusvæðisbolnum í kvöldfréttunum á sunnudagskvöldið og hugsaði með sér: „Jæja, núna er þetta búið“? Við gætum öll vaknað í fyrramálið í Mad Max-veruleika þar sem vatnið kostar meira en bensínið og það eina sem er til að borða er parmaskinka, bogfrymilssmitað nautakjöt og fjögurra kílógramma Tobleronestautar. Og það síðasta sem við sjáum er Gísli Gíslason að láta skjóta sér í út í geim með Richard Branson fyrir alla hvítu Teslapeningana sína. Þá hugsum við með okkur: Kannski áttum við öll að standa í röð. Kannski eigum við öll að versla eins og við séum að fylla neðanjarðarbyrgi.

Kannski er það meira að hið litla og íslenska og smáborgaralega er ekki töff lengur; ekki meiri einokun og einangrun. Við viljum bara versla við Costco, drekka drykki frá Coca-Cola European Partners Ísland og heimsækja Amazing Home Show og fljúga með Air Iceland Connect.

Það er ekkert skrítið að Íslendingar fagni því að einokrurum okkar sé loksins refsað. Hver hefur samúð með olíufélögunum eða Högum? Hver hefur samúð með ELKO? Það er enginn að fara að fella tár yfir öllu því sem við höfum ofgreitt, öllu svindlinu, öllum þeim mygluðu ávöxtum sem maður hefur hent í gegnum árin. En það er kannski líka varhugavert að hjúfra um sig í faðmi risa sem getur kreist heilu hagkerfin eins og litlar graftarbólur í krafti stærðar sinnar. Svo ekki sé minnst á umhverfis- og siðferðisáhrif svona lágvöruverðsrisa.

Costco er ekki vinur þinn.

Mig langar samt alveg heví að versla þar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Hver er stefna stjórnmálaflokkanna í umhverfismálum?
Kjarninn 16. september 2021
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Boðuð útgjaldaaukning Pírata er ekki fullfjármögnuð
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Halldóru Mogensen um að kosningaloforð Pírata séu fullfjármögnuð með nýjum tekjuöflunarleiðum.
Kjarninn 16. september 2021
Jón Steindór Valdimarsson
Drifkraftur nýrra lausna í loftslagsmálum
Kjarninn 16. september 2021
Mikil skekkja er í útreikningum Pírata á helstu tekjuöflunarleiðinni sem flokkurinn sá fyrir að fjármagna kosningaloforð sín með.
Tugmilljarða skekkja í útreikningum Pírata á helstu tekjuöflunaraðgerð þeirra
Þingmaður Pírata segir að flokkurinn sé að endurskoða útreikninga sína á áhrifum 3,75 prósentustiga hækkunar efsta þreps tekjuskattskerfisins, eftir að bent var á að þar skeikaði tugmilljörðum.
Kjarninn 16. september 2021
Jóhann S. Bogason
Vesalings Færeyingarnir
Kjarninn 16. september 2021
Kolefnisgjald leggst meðal annars á bensín og dísil olíu.
Meirihluti stjórnmálaflokka vill hækka kolefnisgjald
Passa verður að kolefnisgjald leggist ekki þyngst á þau sem minnst hafa á milli handanna að mati þeirra flokka sem vilja hækka kolefnisgjald. Útblástur frá vegasamgöngum er helsta uppspretta losunar sem er á beinni ábyrgð Íslands.
Kjarninn 16. september 2021
Liðin tíð að Bandaríkin veiti Íslandi aðstoð „vegna góðvildar“
Íslendingar þurfa tromp á hendi til að vekja áhuga Bandaríkjanna til að styðja landið diplómatísk í alþjóðasamfélaginu og veita viðskiptalegar eða efnahagslegar ívilnanir, að því er fram kemur í þættinum Völundarhús utanríkismála Íslands.
Kjarninn 16. september 2021
Völunarhús utanríksmála Íslands
Völunarhús utanríksmála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 3: Áhugi Bandaríkjanna á Íslandi
Kjarninn 16. september 2021
Meira úr sama flokkiKjaftæði