Auglýsing

Ég geri stundum „gangandi hugleiðslu” með hjálp snjallsímaforrits. Þar sem ég gekk um borgarlandslagið eitt kvöld í vikunni mælti fljótandi röddin svo fyrir að ég skyldi taka eftir formum í umhverfi mínu sem ég og gerði. Skemmst er frá því að segja að allt sem ég sá var ferkantað. Rétthyrnt. Að minnsta kosti 90% af mannanna verkum sem urðu á vegi mínum byggðu á 90 gráðu hornum. Húsin, göturnar, hellurnar, gluggarnir, gangbrautarstrikin, allt útstrikað og mælt og pælt. Kom við í sjoppu á horni og keypti mjólkurfernu, fetakubb og reyndar Smarties. Borgaði með ferhyrnda kortinu mínu og fékk ferhyrnda kvittun. Mér fannst þetta í alvöru ákveðið sjokk. 

Auðvitað hef ég séð kassa áður. En ég væri nú ekki að nota appið ef ég væri nógu dugleg að taka eftir viðblasandi hlutum. Fálmaði eftir símanum þaðan sem fljótandi röddin barst og hvað blasti við mér? Hinn ferhyrndi skjár og á honum öll kassalaga öppin, hugleiðsluappið líka, allt kössótt. Þvílík martröð. Á bakaleiðinni borðaði ég Smartiesið og lagði mig fram við að taka eftir öllu því manngerða sem ekki var ferkantað. Það var leitun. Rusl. Lífrænt svona að forminu til. Tyggjóklessur, mjög lífrænar. Róninn var langlífrænastur af öllu sem ég sá, allur skakkur og ófyrirsjáanlegur og fullkomin andstæða við ferköntunina. 

En af hverju er þetta svona? Jú sko: Allt er svo einfalt í 90 gráðunum. Við erum að berjast við þyngdaraflið og 90 gráðu horn eru okkar svar við því. Og þetta er óumdeild alheimsstöðlun, enda þyngdaraflið algilt lögmál hér á jörð. Okkur er kennt í skóla að 90 og aðeins 90 gráðu horn eru rétt horn og öll önnur horn eru bara ekki rétt. Ef það væri ekkert þyngdarafl væri veröldin ekkert svona ferköntuð. Þyngdaraflið krefst þess að súlur séu reistar lóðrétt uppfrá jörðinni í 90 gráðu horni, svo leggur maður þriðju súluna lárétt á hinar tvær þannig að tvö ný 90 gráðu horn myndast og koll af kolli þar til komið er hús, bær, borg og heimur, byggður á 90 gráðum. Þegar kemur að því að raða hlutum í ferkantaðan heim, þá gefur auga leið að hagkvæmast er að sníða framleiðsluna eftir ríkjandi mynstri. Langpraktískast er auðvitað að fylgja stöðluninni, minna um afskurði og afganga. Hin ferkantaða veröld er í raun útsjónarsemi og hugvit holdi klædd. 

Auglýsing

Að því sögðu verð ég að viðurkenna að mér nánast býður við þessari rúðustrikuðu heimsmynd. Eða jafnvel beinlínis. Þetta er mjög sterk tilfinning, eins og köfnunartilfinning. Kannski að þetta sé bælt náttúrueðli sem brýst út annað slagið og hugsar „oj barasta”. Ábyggilega. Við erum náttúrulega ekkert í okkar náttúrulega umhverfi. Það er einhver bölvuð ónáttúra og vansköpun í öllum beinu línunum. Kannski flokkast þetta sem vanþakklæti og vanvirðing við alla sem lagt hafa hönd á plóg, Newton og alla duglegu verkfræðingana. En ég held að svona undir niðri þá söknum við þess sem minnir á lífið og flæðið og mýktina sem fylgir hinu lífræna og náttúrulega. 

Þessi söknuður blandast svo saman við sammannlegt samviskubit yfir að vera, að manni finnst, valdalaus dómínókubbur í óstöðvandi runu sem er löngu farin af stað og stefnir á ógnarhraða í átt að tortímingu á náttúrunni og okkur sjálfum. Bara með því að vera til tekur maður þátt í ruglinu, strax við fæðingu er maður orðinn skotspónn alls konar framleiðenda sem vilja selja eitthvað. Maður tekur viljandi og oft óviljandi þátt í að „snúa hjólum atvinnulífsins”, sem virðast miða að því að framleiða sem mest svo við getum neytt svo við getum grætt peninga svo við getum lifað. Lifa, neyta, framleiða, græða, lifa, neyta o.s.frv.  

Hin ferkantaða veröld fer síðan einmitt í hringi. Heimurinn í dag er eiginlega eins og Rubiks kubbur. Ferkantaður en snýst samt. Snúningurinn er samt vissulega 90 gráðu snúningur. Sömu fletir eiga það til að koma upp aftur og aftur, en í nýju samhengi. Sem betur fer. Þykkbotna skór, derhúfur og meira að segja magabolir voru með come back. HIV hefur víst verið með come back. Sigmundur Davíð er að undirbúa næsta come back. En það besta er að 2007 er með come back. Góðærið er komið aftur, 10 árum seinna. Nema hvað að nú er það stærra og betra, endurbætt útgáfa. GÆ 2.017. Það hefur nefnilega séð tímana tvenna, það lenti í hremmingum, það lap dauðann úr skel, það tók fjóra 90 gráðu súninga. Jess, það sem er uppi á teningnum er góðærið og það ætlar að sækja. Og elskan, réttu mér hallamálið, það er sko veisla! Nú ætla sko allir svo sannarlega leyfa sér. Svona eins og til að hefna sín á hruninu. Nýir ísskápar, símar, tölvur og flugmiðar, allt glænýtt, beint úr kassanum, allt ferkantað. Elskan, hallamálið, ég ætla að henda þessum skjá upp, fyrir veisluna.

Og er ekki bara um að gera að vera með? Kíkja í Costco, kíkja til Barce, kaupa, byggja og vera í fíling? Muna bara að njóta þess. Ekkert varir að eilífu. Rubiks kubburinn, hann snýst. Næst þegar ég fer í gangandi hugleiðslu ætla ég að taka sérstaklega eftir öllum góðærismerkjum í umhverfinu. Jafnvel mæla þau með hallamálinu, er þetta ekki allt örugglega í 90 gráðum? Því þannig viljum við hafa það, Íslendingarnir. Svona rétt við suðumark. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiKjaftæði