Samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar MMR telja tæplega 75% Íslendinga lífið vera sanngjarnt. Á meðan við bíðum eftir fyrstu tölum úr fátækrahverfum Jakarta skulum við melta þetta aðeins. 75 prósent? Í alvöru? Þrír af fjórum? Hvernig getur það verið? Var hringt í einn meðaljón í Hlíðunum og svo þrjá sem búa í sælgætishúsi úti í skógi með enga vitneskju um að það sé til annað fólk í heiminum? Nei, ókei, þegar ég skoða úrtakið betur þá er hér allskonar fólk. Stjórnendur og embættismenn, verkafólk og námsmenn, vel stæðir, skítblankir, íhaldsmenn og mussukommar. Já já, þetta er öll flóran, allavega sem finnst í þessu friðsæla velferðarríki. En auðvitað er lífið ekkert sanngjarnt og það er í raun ótrúlegt að einhverjum detti í hug að svara þeirri spurningu játandi.
Það er miðvikudagskvöld þegar þetta er skrifað og ég er búinn að vera í tæpa tvo mánuði í feðraorlofi. Ég vaknaði klukkan sjö í morgun, gaf börnum að borða, keyrði annað í leikskóla og fór með hitt í sund. Fínn dagur framan af, en um þrjúleytið fór að halla undan fæti. Yngri drengurinn var eitthvað óhress og ákvað að draga mig niður í svaðið með sér. Hann er að vísu ekki nema tæplega eins og hálfs árs en þegar hann leggur sig fram tekst honum að hleypa heimilinu í álíka uppnám og ef hann væri fimmtugur dagdrykkjumaður. Þarna var verðandi eiginkona mín farin á kvöldvakt og ég þurfti að sitja á strák mínum, ekki bókstaflega, þó það hefði vissulega leyst vandann tímabundið, heldur þurfti ég að þrauka til klukkan sjö án þess að drekkja mér í eldhúsvaskinum. Þessar fjórar klukkustundir eru í hálfgerðri móðu, en mig rámar í töluvert af væli, eina eða tvær kúkableiur og vanilluskyr þrifið úr auga. Sá eldri var meðfærilegri, enda orðinn fjögurra ára, en ég viðurkenni að helst langaði mig að tilkynna honum að ég væri farinn í verkfall. „Heyrðu, ég er farinn á barinn. Mundu að bursta.“
Ég gerði að sjálfsögðu ekkert slíkt og að lokum voru þeir báðir sofnaðir. Augnablikið þegar ég settist loksins niður í stofunni var besta stund dagsins. Jú, ég var kominn með smá hitavellu og beinverki, en það var allavega þögn. Dýrð sé Guði í upphæðum! Augnablikið varði þó ekki lengi, þar sem ég mundi allt í einu eftir því að ég ætti að skila pistli á miðnætti. „Ok, ég þarf allavega ekki að standa upp,“ hugsaði ég og hófst handa við að skrifa, en mundi þá einnig að þvottavélin hefði lokið sér af hálftíma áður. Hér sit ég enn, klukkutíma síðar og það er ekki fræðilegur möguleiki að ég sé að fara að hengja upp úr þessari vél. Þá verð ég bara í dragúldnum stuttermabolum þar til í næstu viku. Ég er í feðraorlofi og þarf ekki að hitta neinn frekar en ég vil.
En ef einhver spjátrungur hjá MMR myndi hringja í mig núna og spyrja mig hvort mér þætti lífið sanngjarnt myndi ég skella á hann. Ég er búinn að vera ógeðslega duglegur undanfarið. Braut niður heilan vegg í eldhúsinu, þvoði bílinn hátt og lágt, keypti blóm á mæðradaginn og ég veit ekki hvað og hvað. Ef lífið væri sanngjarnt hefði það launað mér þetta með einhverjum hætti. En nei, ég uppskar beinverki, pirruð börn og mygluð föt.
Ég er þó þakklátur fyrir það að eiga þessi föt, því sumir eiga engin. Svo eru það aðrir sem vinna nánast kauplaust við að sauma mín föt. Það er langt frá því að vera sanngjarnt. Ég á líka þessi dásamlegu börn, sem eru ógeðslega fyndin og klár, já og almennt auðveld í umgengni, þrátt fyrir einn og einn dag eins og þennan. Sumir eiga leiðinleg börn, ófyndin og heimsk. Aðrir áttu börn en eiga þau ekki lengur. Það er mjög ósanngjarnt. Á meðan sit ég hérna í upphitaðri íbúð, í feðraorlofi, kvartandi og kveinandi. Ég fæ meira að segja borgað fyrir það.
Foreldrar okkar fengu Bítlana en við fengum Kid Rock. Biggie er dáinn en Breivik lifir. Spánverjar fengu sólina en við slabbið. Sumir eru hávaxnir, grannir og glæsilegir, aðrir eru litlir, feitir og rauðhærðir með exem. Óhæfir karlmenn á ofurlaunum ráða öllu, konur þurfa að sætta sig við lægra kaup og að láta káfa á sér. Sýrlendingar þurfa að díla við Assad og ISIS á meðan annar hver Norðmaður hefur unnið í Víkingalottói. Á morgun verð ég vonandi búinn að jafna mig á beinverkjunum. En á morgun deyja líka einhverjir úr holdsveiki, hungri og ræpu.
Sanngjarnt?