Hamingja er fyndið fyrirbæri. Þetta grundvallaratriði okkar daglega lífs er mér sem hulin ráðgáta. Ég hugsa rosalega mikið um hamingju. Ég vildi samt óska þess að ég eyddi meiri tíma í að vera hamingjusöm í staðinn fyrir að hugsa bara um það stanslaust. Maður öðlast þekkingu um hlutinn með því að fræðast um hann er það ekki? Þess vegna ætti ég að verða hamingjusamari því meira sem ég velti hamingju fyrir mér. En einhvers staðar missti ég af skrefi, las leiðbeiningarnar vitlaust og setti HÄMINGJA hilluna mína úr IKEA vitlaust saman. Einhvern tímann verður maður að hætta að sanka að sér upplýsingum og nota þær í eitthvað. Svo ég vitni lauslega í uppáhaldsbloggið mitt, Nerdfitness, sem byggði eitt af sínum heilráðum á vitnun í einhvern South Park þátt:
- Skref 1: safna nærbuxum
- Skref 3: gróði
- Skref 2: ???
Ef þú safnar bara endalaust af upplýsingum (eða nærbuxum) án þess að vita til hvers og ætlast svo til þess að græða á því muntu örugglega aldrei hætta að safna því þú veist ekki hvert næsta skref er. Nú sit ég á nærbuxnahaugnum mínum: fjall af sjálfshjálparbókum, kvíðameðferðarlyfjum og brenndum bankareikning eftir ævintýri mín á Costa Rica og er engu nær. Ég veit þannig séð alveg hvað ég á að gera, það er ekkert mál að greina vandann og búa til áætlun til að sigrast á honum. Vandamálið felst í því að framkvæma. Mér líður bara miklu betur þegar ég safna bókum og sit í sápukúlu öryggisins í staðinn fyrir að nýta það sem ég hef lært. Í staðinn fyrir að skrifa skáldsögu les ég bara aðrar bækur um hvernig maður eigi að gera það. Í staðinn fyrir að vera sjálf með uppistand horfi ég bara á Dylan Moran rústa tilveru minni með orðaforðaflóði og bröndurum sem ættu helst heima í Comedy Hall of Fame ef slík stofnun væri til.
Nike negldi þetta með hinu heimsfræga slagorði Just do it. Einfalt og hnitmiðað, eins og löðrungur frá járnbrautarlest.Við þekkjum öll setninguna „Að vera, eða ekki vera...“, en hvað með „Að gera, eða ekki gera...“? Nike negldi þetta með hinu heimsfræga slagorði Just do it. Einfalt og hnitmiðað, eins og löðrungur frá járnbrautarlest. Hamingja fæst með því að framkvæma hlutina sem maður eyðir öllum sínum tíma og orku í að dagdreyma um. Nema hvað í dagdraumunum er maður alltaf bestur og flottastur, það fantaserar enginn um að vera í öðru sæti er það?
Það eru tvö megin vandamál sem ég tel að standi í vegi mínum að hamingju. Í fyrsta lagi einblíni ég algjörlega á hvernig-partinn af dæminu í staðinn fyrir að ríða bara á vaðið. Ég er manneskjan sem fer ekki í partý nema ég sé með bókað far heim. Allt mitt líf hafa seinni tíma vandamál verið leyst áður en þau eiga sér stað, bara til öryggis. Þess vegna hef ég rannsakað leiðir til þess að öðlast hamingju í mörg ár, minn eigin skortur á hamingju er ein af megin ástæðunum fyrir því að ég fór í sálfræðinám til að byrja með (áfangar í tölfræði leiða ekki til hamingju, svo mikið er víst).
Meðal þess sem ég hef komist að er að hægt er að auka hamingju með líkamsrækt, jákvæðri sjálfsmynd, ást og vinskap, hugleiðslu, góðu mataræði, skemmtilegum áhugamálum, sköpunargleði og mörgu fleiru. Í kjölfarið skipulagði ég lífið mitt eins og það leggur sig, bjó til áætlun, litakóðaði vikuna mína, setti mér markmið og lofaði að Á MORGUN skyldi ég sko hefja leit mína að hamingjunni. Svo næsta dag leit ég á dagskrána og ákvað að í staðinn fyrir að læra frönsku frá 8.30 til 10, fara út og taka Iron Man og stunda svo yoga í hálftíma eftir það, og uppgötva hjólið fyrir kvöldmat myndi ég bara horfa á Friends og leggja mig til skiptis. Á einum tímapunkti var ég búin að lofa sjálfri mér að læra frönsku, læra að spila á rafmagnsgítar og píanó, þjálfa fyrir maraþon, stunda sjálfsvarnaríþróttir og hip hop dans, vera í fullri vinnu, skrifa pistla og elda hollan mat á hverjum degi samtímis. Svo fékk ég taugaáfall. Ég skal skrifa um það seinna.
Hamingja felst ekki í fullkomnun. Það er gaman að verða betri, vissulega. En til þess að verða betri í einhverju þarftu fyrst að hafa verið verri í því.Sko. Maður þarf ekki að gera allt. Og maður þarf ekki að gera allt vel heldur. Þú mátt gera fáa hluti. Og þú mátt gera þá illa. Þú mátt skrifa lélega pistla. Þú mátt hlaupa hægar en snigill fastur í hnetusmjöri. Þú mátt læra á fiðlu – bara ekki gera það nálægt mér. Hamingja felst ekki í fullkomnun. Það er gaman að verða betri, vissulega. En til þess að verða betri í einhverju þarftu fyrst að hafa verið verri í því. Maður sér aldrei myndbönd á Youtube af fólki að vera allt í lagi í einhverju fagi, það er alltaf einhver þriggja ára stelpa að spila á trommur með tánum, blindur hundur að mála með skottinu eða eitthvað álíka. Ég held það sé ekki heilbrigt að bera sig saman við svoleiðis undraverk.
Í öðru lagi, og sem strokar eiginlega út mikilvægi alls sem ég er búin að skrifa hingað til, er að hamingja er ferðalag en ekki áfangastaður. Já, ég veit, hversu ógeðslega ömurleg klisja. En klisjur eru klisjur því boðskapur þeirra kemur við sögu aftur og aftur. Ég hef alltaf einhvern veginn haldið að ef ég geri eitthvað muni ég verða hamingjusöm. Ef ég læri á píanó, þá verð ég hamingjusöm. Ef ég verð heimsmeistari í pole fitness, þá verð ég hamingjusöm. Þá verð ég hamingjusöm. Áhersla mín er öll á því að verða hamingjusöm, í staðinn fyrir einfaldlega að vera hamingjusöm. Eins og að þangað til að hamingjunni séð náð neyðist ég til þess að vera grá og guggin. Eins og að hamingja sé allt eða ekkert, eins og ljósarofi í heilanum, myrkur eða ljós.
Hvað er þá hamingja eiginlega? Ég veit það ekki ennþá. Kannski bara lífið eins og það leggur sig, allir litlu hlutirnir, harka af sér mistök og reyna að gera betur næst. Sofna sátt og vakna spennt. Hvernig maður áorkar því er svo undið okkur sjálfum komið. Þegar kvíðinn hellist yfir mig og mér finnst ég ekki hafa stjórn á neinu lengur safna ég bara fleiri nærbuxum þó svo ég viti ekki alveg hvað ég á að gera við þær, ég hlýt að finna út úr því einhvern tímann.