Mikið ofboðslega er ég þakklát fyrir fólk sem heldur partý – ekki bara vegna þess að ég nýt góðs af því sem gestur, heldur mjög oft er ég ráðin í slík sem skemmtikraftur. Í langflestum tilfellum er allt saman tipp topp, og allir kátir og ekkert er vesen. En stundum eru þó partýin þannig að þeir sem buðu sig fram í nefndina hafa ekki meiri reynslu en að halda nokkra saumó, eða eitt gott barnaafmæli með hjálp Pinterest. Þess vegna skrifa ég þennan pistil, til að með hjálp Google þurfi aldrei nokkurn tímann að haldast óþægileg árshátíð eða brúðkaup aftur. Og hver þykist ég vera? Manneskja með 13 ára reynslu af partýhaldi, sem skemmtikraftur, gestur, þjónn, prests- og blómakonudóttir og með 33 ára reynslu sem afmælisbarn.
Og hver þykist ég vera? Manneskja með 13 ára reynslu af partýhaldi, sem skemmtikraftur, gestur, þjónn, prests- og blómakonudóttir og með 33 ára reynslu sem afmælisbarn.
Að vera í árshátíðarnefnd er vanþakklátasta starf sem til er. Fólk er að bæta á sig verkefnum, sem það fær ekki greitt fyrir en taka tíma frá öðru. Mjög oft er vinsælt og hæft fólk sem velst í árshátíðarnefndina – fólk sem er mikilvægt fyrir fyrirtækið, móralinn og að halda hlutunum gangandi. Á flestum stöðum er ný og ný árshátíðarnefnd á hverju ári sem þýðir að vitneskja situr ekki eftir, sömu mistök eru gerð, sömu samskiptaörðugleikar koma upp. Ég myndi alltaf mæla með að einn sitji eftir úr nefndinni frá í fyrra með upplýsingarnar: „Nei, sá kokkur var alveg dónalegur þegar við töluðum við hann. Þessi staður rukkaði meira en lagt upp var með“ og þess háttar. Annars eru fleiri og fleiri fyrirtæki farin að ráða viðburðafyrirtæki í þetta – sem eiga diskókúlu, myndaklefa og þess háttar. Eitt kompaní, með allt.
Sumir salir eru skrýtnir í laginu og það þarf að íhuga hvers konar atriði koma til greina. Í ílöngum sal þar sem margir sitja langt frá sviði gengur ekki að fá töframann eða magadansmær – sem eru sjónræn skemmtiatriði. Trúbador og uppistand, atriði sem fólk heyrir í, eru sniðugri. Svið er alltaf góð hugmynd, pínu upphækkun svo allir sjái og að skemmtiatriði fái virðingu, og svo að þegar plötusnúður tekur við að hann sé í minni hættu á að fá gusur úr glösum yfir græjurnar. Því meira sem lagt er í umgjörð, svið og ljós, því betur lúkka skemmtikraftarnir.
Í júní hef ég fjórum sinnum lent í því að vera bókuð með skemmtiatriði, danskennslu eða jafnvel sem DJ en ekkert hljóðkerfi var á staðnum. Salurinn jú, vissulega með kerfi til að keyra ráðstefnu – en um leið og blasta átti Beyoncé í twerkkennslu þá kom bara prump. Um leið og einhver hló heyrðist ekkert í músíkinni. Þegar salur segist vera með kerfi er það í 90% tilfella gert fyrir talað mál. Þar að auki, ef halda á diskótek, er betra að vera með kerfi þar sem dansgólfið er – ekki blasta því í húskerfi þar sem allt er á sama styrk, fólk vill líka fara á trúnó á öðrum stöðum en dansgólfið.
„Svo væri ógeðslega gaman ef þú getur minnst á að hún Guðný er búin að vera í sömu inniskónum í fjórtán ár”. Einu sinni lét ég alveg mata mig á svona vinnustaðagríni fyrir veislustjóragigg, en fyrir um fimm árum síðan lenti ég í því að segja grín sem var jafnsaklaust og þetta hér að ofan, inni í romsu af alls konar innanhúsgríni. Um fimm mánuði seinna hringir mannauðsstjóri fyrirtækisins í mig, út af einum brandaranum, hvernig vissi ég þetta, hver sagði mér nákvæmlega að gera grín að þessu. Kom þá í ljós að einn þessara saklausu brandara sem kom frá árshátíðarnefnd var hluti af mjög stóru og erfiðu eineltismáli, og síðan þá hef ég hvatt til þess að vinnustaðagrínarinn sé einfaldlega með skemmtiatriði eða þetta sé addressað í myndbandi.
Þetta varð að ógeðslega fyndnu ræðumaraþoni þar sem fólk kepptist um að endurtaka ekkert frá öðrum – heldur vera frumlegt og beinskeytt. Ógeðslega gaman.
Ég annars elska skemmtiatriði. En þegar þau eru 20 talsins og fjórar ræður þá langar alla bara að fara að pissa. Loft á milli atriða er mikilvægt. Í brúðkaupi sem ég var í síðasta sumar var mjög skemmtilegur leikur í kringum ræður. Foreldrar og bestu bestu fengu frjálsan tíma – en allir aðrir bara mínútu og ef farið var yfir var skot í refsingu. Þetta varð að ógeðslega fyndnu ræðumaraþoni þar sem fólk kepptist um að endurtaka ekkert frá öðrum – heldur vera frumlegt og beinskeytt. Ógeðslega gaman. Vídjó eru oft ógeðslega löng – testaðu þau á fólki sem þekkir ekki fólkið í myndbandinu því að í hverri veislu eru elsku makar sem eru ekki inni í glussabrandaranum.
Og vídjóin: Ó SVO MIKILVÆGT: Takið þau upp lárétt, ekki lóðrétt. Skjárinn er láréttur, lóðrétt myndband notar 1/3 og það er aksjón í miðjunni, s.s. 1/9 af skjánum sýnir það sem skiptir máli. Hljóð á myndböndum skiptir miklu máli – og gott er jafnvel að texta þau því að fjöldi fólks heyrir illa eða situr með háværu fólki til borðs. Bókið skemmtiatriði sem þurfa athygli fyrr – ég veit að Ari Eldjárn er frábær og er demantur í kórónu hverrar árshátíðar, en ég veit að fólk kynni líka að meta hann betur ef það heyrir í honum, fulli dúddinn er ekki að kalla inn í, í lok borðhalds þegar allir eru orðnir sósaðir. Og talandi um að heyra; Gríntexti við þekkt lag skilar sér ekki nema þeim sé varpað á skjá eða þeim dreift.
– „Hvað á ég að DJa lengi?“
– „Við erum með salinn til kl. 3.“
Aðaldjammdýrin farin í bæinn klukkan hálf tvö, og einhver ælir á dansgólfið kl. 2. Fólk er búið að tjútta síðan í fyrir-fyrirpartýinu og er annað hvort farið annað til að þurfa ekki að bíða í röð eða orðið mjög þreytt. Hættum meðan allir eru glaðir, fyrir slagsmál, áreitni og ælur.
Ég tek lífinu mjög létt, en skemmtanahaldi grafalvarlega. Góða skemmtun.