Snæbjörn skrifaði pistil í síðustu viku um að hann væri ekki femínisti og allt fór í hund og kött. Pressan skrifaði frétt um pistilinn og aðra um viðbrögð Sóleyjar við honum. Systir Snæbjarnar, Helga, skrifaði í kjölfarið opið bréf til bróður síns, sem íslenskir fjölmiðlar skrifuðu fjölmargar fréttir um, þar sem hún sagði honum að hann væri víst femínisti og allt varð gott aftur. Ekkert gerðist, fyrir utan það að nokkrar manneskjur settust niður fyrir framan tölvurnar sínar og skrifuðu.
Hann eyddi reyndar innlegginu, en ekki fyrr en DV var búið að taka skjáskot af öllu saman. Svo skrifaði DV frétt um innleggið.En það var fleira sem gerðist ekki í síðustu viku. Gunnar skrifaði undir Facebook–status Evu og lýsti því yfir að hann myndi glaður pynta og drepa hvern þann sem myndi brjóta gegn börnunum hans. Hann eyddi reyndar innlegginu, en ekki fyrr en DV var búið að taka skjáskot af öllu saman. Svo skrifaði DV frétt um innleggið. Gunnar skrifaði þá Facebook–status þar sem hann sagðist vera fífl og fáviti og auðvitað skrifaði DV frétt um það líka. Ekkert gerðist samt. Bara fólk að lesa og skrifa.
Höldum okkur við síðustu viku. Einar skrifaði bloggfærslu þar sem hann sakaði Töru um að stuðla að fórnarlambavæðingu feitra og skoraði á hana að hlaupa fimm kílómetra með sér í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka til styrktar Samtökum um líkamsvirðingu. Vísir skrifaði frétt um pistilinn og í athugasemdakerfi fréttarinnar skrifaði Tara um það að ljótum aðferðum hafi verið beitt, meðal annars smánun, til að „rífa feitabollurnar í gang“. Um svar Töru skrifaði Vísir aðra frétt.
Með þessum dæmum mínum er ég ekki að saka íslenska fréttamiðla um að vera latir og lélegir. Ég er ekki að segja að þeir geri skoðunum misfrægra einstaklinga úti í bæ óþarflega hátt undir höfði. Þetta fólk er upp til hópa vel skrifandi og með áhugaverða sýn á samfélagið. Ég er heldur ekki að spyrja „er þetta frétt?“ — þvert á móti, allt eru þetta fréttir. Að minnsta kosti á Íslandi, þar sem við erum blessunarlega laus við ISIS, skógarelda, kjarnorkuvopn, Mafíuna og aðra hræðilega hluti sem rata í fréttir annars staðar. Við þurfum að fylla upp í fréttatímana okkar með einhverjum hætti og Magnús Hlynur er bara einn maður. Þess vegna eru skrifaðar fréttir um rausið í Vigdísi og Gylfa. Við hámum þessar fréttir í okkur, tjáum okkur um þær á Facebook og þá verða oft til nýjar fréttir.
Þegar ég vann á fréttastofu gátu blaðamennirnir séð það á stórum skjá í rauntíma hversu margir notendur voru inni á fréttavefnum hverju sinni, hvaða fréttir þeir lásu og hversu lengi þeir voru að því. Engar áhyggjur, heilindin voru til staðar og vinnan snerist ekki um þetta ágæta línurit. Ég var til dæmis einu sinni húðskammaður af fréttastjóranum fyrir að skrifa draslfrétt, þrátt fyrir að hún hafi verið með þeim allra mest lesnu þann mánuðinn. En starfið gaf mér ágætis innsýn inn í lestrarvenjur Íslendinga.
Vitið þið hvaða fréttir enginn les? „Erill hjá lögreglu í nótt“, „Hagstæður viðskiptajöfnuður við útlönd“, „Kennarar samþykkja kjarasamninginn“ … þannig fréttir. Þær eru skrifaðar vegna þess að það verður að skrifa þær, en enginn les þær.Vitið þið hvaða fréttir enginn les? „Erill hjá lögreglu í nótt“, „Hagstæður viðskiptajöfnuður við útlönd“, „Kennarar samþykkja kjarasamninginn“ … þannig fréttir. Þær eru skrifaðar vegna þess að það verður að skrifa þær, en enginn les þær. Þá er undarlega lítill áhugi á erlendum fréttum, með örfáum undantekningum. Ekki það að Íslendingum sé alveg sama um það sem gerist í útlöndum, eða ég veit reyndar ekkert um það, en þeir geta nálgast þær á erlendum fréttasíðum og líklegt er að margir geri það.
Það sem ég hins vegar veit er Íslendingar eru sólgnir í fréttir af fólki að skrifa. Ef næsti pistill Kára heitir „Forsætisráðherra er algjört fokkfeis“ mun línuritið á fréttastofunni skjótast upp eins og byssukúla í gegnum loftið og koma upp um gólfið á auglýsingadeildinni. Það mun síðan haldast þar, líklega í um það bil tvo sólarhringa, eða þar til eini Íslendingurinn sem átti eftir að lesa síðustu fréttina af málinu lokar henni og læsir á eftir sér.
Þú þarft ekki einu sinni að vera Kári. Ef þú hefur nógu sterka skoðun á einhverju þá kemstu í fréttirnar. Það er galið en samt eitthvað svo frábært. Ég hef aldrei hlustað á útvarpsþátt Ívars Jóhanns en ég hef lesið allt um skoðanir hans á fóstureyðingum og veit að hann fílar ekki goslaust Pepsi Max. Ég þekki heldur ekki Stefaníu á Sauðárkróki en ég veit hvað henni finnst um námsmenn, femínista og Pírata.
Og nákvæmlega þess vegna er svo krúttlegt þegar fólk gargar „ritskoðun“ og heldur því fram að það sé ekki málfrelsi á Íslandi. Ekki bara er hér málfrelsi, heldur eru fjölmiðlar til í að endurskrifa allt það þvaður sem þú getur látið þér detta í hug og slá því upp á forsíðunni. Stórfenglegt!
Síðustu ár hafa einhverjir viðrað áhyggjur sínar af stöðu bókarinnar hér á landi. Haldið því fram að lestur sé á undanhaldi og að hugtakið „bókaþjóðin“ muni bráðum ekki eiga lengur við. En við erum þó allavega að lesa eitthvað. Kannski ekki skáldsögur, ævisögur og ljóð, en við lesum þó. Meira að segja alveg fullt. Stafsetning og málfar eru kannski ekki alltaf upp á tíu, en það er heldur ekki hægt að ætlast til þess að þú getir skrifað villulausan reiðipistil, fullur á Facebook klukkan þrjú eftir miðnætti. Prófarkalesararnir ná líka oft að renna aðeins yfir þetta áður en fréttin um þig fer í loftið.