Það er tvennt sem hræðir mig þegar ég hugsa um barneignir. Númer eitt er að fæða barnið og númer tvö eru allir nýju samfélagsmiðlarnir sem verða komnir sem ég mun ekki skilja þar sem barnið verður berskjaldað fyrir pervertum og einelti. Ég fékk GSM-síma þegar ég var 13 ára og ekki leið á löngu þar til eineltisdrottning lífs míns sendi mér sms sem fjölluðu að miklu leiti um hvað ég væri ömurleg týpa og að hana langaði að stinga umferðarkeilu upp í rassgatið á mér. Hótanirnar voru skrifaðar á ensku, kannski til að fela hver hún væri, kannski því það hljómaði meira töff, kannski því að hún þekkti ekki orðið umferðarkeila. Hún var þó ekki klárari en svo að hún sendi þau úr símanum sínum, en notaði ekki skilaboðasendingar af símfyrirtækjasíðunum eins og var algengt á þeim tíma. Hún var einbeitt í sínu einelti, blessunin, en ekki mjög klár.
Núna eru milljón aðrar leiðir til að leggja fólk í einelti og hóta þeim og gera þeim ljóst að maður hati það og lífið leitt. Instagram-reikningar, Twitter og Musically sem ég vissi ekki af en heyrði af í grein móður sem var að segja frá nýjasta tækinu í eineltisgríninu. Ask.fm var heitt í eineltinu fyrir svona tveimur árum og ég heyrði um það fyrst þegar ég var að spyrjast fyrir út af þessum pistli. Svo er vinsælt að vera með læst Instagram sem er mikið notað, það er kallað priv.
Fyrr á þessu ári var ég að horfa á Útsvar í góðra vina hópi, eins og allt alvöru fólk gerir á föstudagskvöldi. Einn í hópnum segir mér að einn keppendanna hafi einu sinni ráðist á sig. Mér fannst þetta ótrúlega fyndið – að einhver í sparifötunum í Útsvari, borgaralegasta batteríi Íslands, hafi einu sinni misst stjórn á sér svona agalega. En auðvitað glöð að hann hafi snúið við blaðinu og sé nú orðinn nörd fyrir hönd síns sveitarfélags, sem er jákvætt. Í freyðivínsvímu og með óþroskann að vopni að ég tók mynd á snapptjatt og skrifaði að þessi hefði einu sinni brotið bjórglas á höfði vinar míns og væri núna stilltur og prúður í sjónvarpinu. Ég var ekki að koma með nýjar upplýsingar – þetta var blaðamál á sínum tíma, og allir nafngreindir með mynd, en það er alveg þónokkuð síðan. Daginn eftir hringir keppandinn í mig. Ég verð auðvitað gjörsamlega miður mín, og tek þetta út í snatri. Þá hafði táningsdóttir mannsins séð þetta á snaptjatt og allt fjölskyldulífið í molum.
Ég verð auðvitað gjörsamlega miður mín, og tek þetta út í snatri. Þá hafði táningsdóttir mannsins séð þetta á snaptjatt og allt fjölskyldulífið í molum.Eftir símtalið gat ég þó ekki varist hugsuninni um að ég hefði átt að spyrja hann hversu lengi dóttir hans hefði fylgt mér á snapptjatt. Ég hefði nefnilega sett fleiri mannskemmandi hluti á snapptjattið mitt fyrir ungling að sjá, þó ekki væri það eineltisgrín fyrr en þarna. Allt burlesque-ið. Allt þetta skrýtna sem við gerum á kabarettinum og í sirkusnum. Enda var ég í aðra röndina að gera þetta fyrir vini mína sem eru fullorðnir og svo að vekja forvitni fullorðinna nógu mikið til að selja miða. Áfengisneysla og mæring kokkteila og bara: Fólk að reykja. Rasskinnarnar á mér. Ég veit, algjör heimska í mér að henda hlutum út í kosmósið og taka enga ábyrgð. Kæru foreldrar ekki leyfa börnunum ykkar að followa mig á snapptjatt. Ég vona að sá miðill sé bara búinn hjá táningum og einhver annar kominn í staðinn.
Eftir þetta símtal tók ég mig á í snapptjattnotkun minni og ég dáist að þessari fjölskyldu fyrir að fylgjast með samfélagsmiðlanotkun og ræða hana. Eins og indónesíski málshátturinn segir: Þar sem eru mýs, þar eru líka snákar. Og það á ekki bara við um B5, heldur líka samfélagsmiðla. Ógeðið er alls staðar. Eineltið og pervertarnir finna sína leið. Er ljótt ef ég neita barninu mínu um síma þar til það fær bílpróf?