Auglýsing

Klukkan sjö í morgun fór ég í annað skipti á ævi minni í spinning. Já, ég. Ég fer í spinning. Þar sem ég sat og hjakkaðist áfram við dúndrandi remix útgáfu af Pirates of the Caribbean þemalaginu emjuðu raddirnar í höfðinu á mér og kútveltust af hlátri. Þú ert ein af þeim núna! Orguðu þær. Myndir af glottandi skvísum með svo mjó mitti að innyfli þeirra komast vart fyrir lengur spruttu upp í huga mínum eins og gorkúlur. Og þar dönsuðu þær um haldandi á lífrænum chiafræja-engifers-mocha-frappuchinos klæddar sólgleraugum og magabolum.

Sjáðu! Sjáðu þessar stelpur. Nú ertu ein af þeim, þú hefur breyst í þinn helsta óvin. Raddirnar í höfðinu á mér voru víst sannfærðar um að ég hefði svo gott sem framið föðurlandssvik og gengið til liðs við myrku hliðina. Come to the dark side, we have buttlift.

Það rótgróna hatur sem ég ber til stelpna sem ég tel vera fallegri og hæfileikaríkari en ég hefur ekkert með þær að gera og allt með mig að gera.
Það eru nokkar ástæður fyrir því að svona hugsunarháttur er skaðlegur. Í fyrsta lagi þá er þetta gjörsamlega yfirgengilega dramatískt. Ég fór í spinningtíma, ég léttist ekki um 15 kg yfir nótt, skipti út fataskápnum mínum fyrir sumarlínu Hot Topic eða fékk mér tattú af yin og yang á hnakkann. Mitt ytra útlit breyttist bara nákvæmlega ekki neitt.

Í öðru lagi, það er barasta ekki baun að því að vera eins og týpan sem ég lýsti hér fyrir ofan. Það rótgróna hatur sem ég ber til stelpna sem ég tel vera fallegri og hæfileikaríkari en ég hefur ekkert með þær að gera og allt með mig að gera. Mig, mína reynslu og þá fordóma sem hafa myndast í kjölfarið.

Ég var lögð í einelti í grunnskóla. Eins og örugglega allir aðrir. Upplifun mín speglast í æsku margra; mér fannst ég ekki tilheyra neinum ákveðnum hópi, ég var oft skilin út undan og ekki boðið í afmæli, og í hinni ógnvænlegu stéttaskiptingu unglingsáranna fannst mér ég vera neðst í goggunarröðinni. Til þess að takast á við alla þessa vanlíðan bjó ég mér til ákveðin bjargráð. Þau meikuðu alveg sense þegar þau mynduðust, það er að segja þegar ég var bara barn, en í dag sitja þau enn sem fastast þó svo að þau séu löngu hætt að þjóna sínum tilgangi. Leið mín til að tækla eineltið var að skilgreina öll einkenni óvinar míns og fara algjörlega í öfuga átt.

Auglýsing

„Ég er ekki eins og aðrar stelpur“ var mottóið mitt frá 8. bekk út menntaskólann. Ekki séns í helvíti að ég væri eins og þessar plastpuntpempíur. Ég reddaði mér ekki bara á útlitinu einu, oh nei, þvert á móti þá var meira varið í mig en að vera falleg, ég var gáfuð og þroskuð og metnaðargjörn. Án þess að vita af því var ég búin að lýsa sjálfri mér sem „ekki falleg“ því ég gat ekki afborið það að vera bara oggu poggu eins og hinar stelpurnar (í laumi fannst mér þær vera rosalega fallegar). Á sama tíma var ég að gera lítið úr þeim með því að halda því fram að þær gætu ekki verið gáfaðar, þroskaðar og metnaðargjarnar.

Þar af leiðandi spígsporaði ég um í fáránlega litríku fötunum mínum og með lélegri tilraun til hanakambs, heilu bókasafni af fantasíubókum og skorti á andlitsfarða nærði ég brostnu sjálfsmynd mína með hatri mínu á hvað ég hélt að stelpur „ættu“ að vera. Ég var öðruvísi. Ég var einstök. Eins og aðrar stelpur séu ekki öðruvísi og einstakar líka. Eins og stelpur með gráður í förðunarfræðum lesi ekki fantasy bókmenntir. Eins og stelpur sem spili tölvuleiki finnist ekki gaman að vera í háum hælum.

Hvurslags öðruvísi og einstök stelpa var ég líka? Ég samsamaði mig lengi vel með orðinu nörd en ég passaði ekkert betur þar inn. Ég hef aldrei lesið Harry Potter, og ég þoldi ekki að lesa fyrstu bókina í Lord of the Rings seríunni. Ég gjörsamlega elska myndirnar, en er það nóg til að vera með? Þrátt fyrir að vera ekkert nema meðalmennskan uppmáluð hélt ég því statt og stöðugt fram að ég væri öðruvísi, oft með hræðilegum afleiðingum. Á tímabili lagði ég mig alla fram við að verða lesbía, því kynhneigð annarra er totalí eitthvað sem þú mátt ræna til að uppfylla einhverja brjálaða hugmynd um persónuleika. Ég reyndi að telja öllum trú um að ég væri harðkjarna metalhaus þrátt fyrir að það blæði úr eyrunum á mér þegar einhver svo mikið sem minnist á Iron Maiden. Þar á undan var goth tímabilið sem samanstóð að mestu leyti af því að læsa mig inn í herbergi, deila illa teiknuðum myndum af varúlfum á DeviantArt og syngja með My Chemical Romance af innlifun.

Venju­legar stelpur höfðu líka til­finn­inga­legar þarfir og kröfð­ust athygli og umhyggju frá kærustum þeirra. Ekki ég. Oh nei, ég var ekki svona clingy vælu-týpa. 
Venjulegar stelpur höfðu líka tilfinningalegar þarfir og kröfðust athygli og umhyggju frá kærustum þeirra. Ekki ég. Oh nei, ég var ekki svona clingy vælu-týpa. Ég var svo töff að þú sem kærasti minn þurftir ekki einu sinni að sýna mér snefil af virðingu. Ógeðslega flott er það ekki? Ég gerði mitt besta til að virðast kúl og sjálfsörugg, með skráp þykkan sem míþríl. En í rauninni var ég að sálast úr sjálfshatri og einmanaleika, örvingluð og bitur.

Sem leiðir mig aftur að spinning tímanum. Ég er svo gjörsamlega og algjörlega eins og aðrar stelpur. Og það er löngu kominn tími til að ég standi með systrum mínum. Í sannleika sagt þá elska ég græna matcha frappóinn á Te og kaffi, ég dýrka að fara í buttlift og hota yoga í World Class, mér finnst dásamlegt að fara í handsnyrtingar, horfa á rómantískar gamanmyndir og spjalla um sæta stráka. Ég er viðkvæm og hégómagjörn. Mig dreymir um einfalda og dæmigerða framtíð, mig langar í eiginmann og börn, fallegt hús og hund í þokkabót. Hvað er svosem að því? Hvað er að því að vera venjuleg?

Ég ætla ekki að halda því fram að ég hafi tileinkað mér öll þau persónueinkenni sem ég barðist svo hatrammlega gegn og snúið bakinu við öllu hinu. Ég hef bara ekki lengur jafn sterkar og útilokandi skoðanir á hlutunum. Ég hlusta á Shania Twain og Metallica til skiptis. Ég fíla Marvel-myndir í drasl, og líka Modern Family. Punkturinn í þessu öllu saman er að ekkert er bara hvítt eða svart, við lifum langflest í einhverjum óskilgreindum gráum bletti í miðjunni. Persónuleiki þinn má vera bland í poka af öllum sortum. Þú þarft ekki að geta bundið sjálfa þig í hnút til að segja að þú fílir jóga. Þú þarft ekki að kunna afmælisdaga meðlima Rammstein til að vilja fara á tónleika með þeim, þú þarft ekki einu sinni að vita nöfnin þeirra þess vegna, bara kaupa miðann og njóta. Áhugamál eiga víst að snúa um það, að njóta. Að vera alltaf að fylgjast með sjálfum sér og reyna að reikna út hvað maður á að segja eða hvernig maður á að hegða sér til að viðhalda einhverri ímynd er tilfinningalega lamandi. Ég nenni því allavega ekki lengur.

Og til allra stelpnanna sem ég hataði í grunnskóla, mér þykir leitt hvernig ég brást við. Við vorum allar asnar. Hvað með að fara bara í spinning saman og fá okkur svo brunch?

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Hver er stefna stjórnmálaflokkanna í umhverfismálum?
Kjarninn 16. september 2021
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Boðuð útgjaldaaukning Pírata er ekki fullfjármögnuð
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Halldóru Mogensen um að kosningaloforð Pírata séu fullfjármögnuð með nýjum tekjuöflunarleiðum.
Kjarninn 16. september 2021
Jón Steindór Valdimarsson
Drifkraftur nýrra lausna í loftslagsmálum
Kjarninn 16. september 2021
Mikil skekkja er í útreikningum Pírata á helstu tekjuöflunarleiðinni sem flokkurinn sá fyrir að fjármagna kosningaloforð sín með.
Tugmilljarða skekkja í útreikningum Pírata á helstu tekjuöflunaraðgerð þeirra
Þingmaður Pírata segir að flokkurinn sé að endurskoða útreikninga sína á áhrifum 3,75 prósentustiga hækkunar efsta þreps tekjuskattskerfisins, eftir að bent var á að þar skeikaði tugmilljörðum.
Kjarninn 16. september 2021
Jóhann S. Bogason
Vesalings Færeyingarnir
Kjarninn 16. september 2021
Kolefnisgjald leggst meðal annars á bensín og dísil olíu.
Meirihluti stjórnmálaflokka vill hækka kolefnisgjald
Passa verður að kolefnisgjald leggist ekki þyngst á þau sem minnst hafa á milli handanna að mati þeirra flokka sem vilja hækka kolefnisgjald. Útblástur frá vegasamgöngum er helsta uppspretta losunar sem er á beinni ábyrgð Íslands.
Kjarninn 16. september 2021
Liðin tíð að Bandaríkin veiti Íslandi aðstoð „vegna góðvildar“
Íslendingar þurfa tromp á hendi til að vekja áhuga Bandaríkjanna til að styðja landið diplómatísk í alþjóðasamfélaginu og veita viðskiptalegar eða efnahagslegar ívilnanir, að því er fram kemur í þættinum Völundarhús utanríkismála Íslands.
Kjarninn 16. september 2021
Völunarhús utanríksmála Íslands
Völunarhús utanríksmála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 3: Áhugi Bandaríkjanna á Íslandi
Kjarninn 16. september 2021
Meira úr sama flokkiKjaftæði