„Protect me from what I want“ er textaverk eftir myndlistarkonuna Jenny Holzer frá árinu 1982. Listakonan setti verkið fram eins og LED-ljósa auglýsingaskilti á Times Square, þar sem auglýsingar af öllu tagi eru yfir og allt um kring. Ég kynntist þessu verki þegar ég lærði myndlist í Listaháskólanum og síðan hefur það fylgt mér eins og hálfgerð mantra, þessi setning klingir einhvern veginn. Verndaðu mig fyrir því sem mig langar í. Staðsetningin, á Times Square innan um ógnvænlegan flaum auglýsinga sem keppast við að kítla hina römmu en veikgeðja freistingataug, var auðvitað engin tilviljun.
Freisting vísar til einhvers sem framkallar sterka löngun til að neyta einhvers eða gera eitthvað, sem gæti haft neikvæðar afleiðingar sem eru yfirleitt þekktar fyrirfram. Skammvermur unaður sem framkallar oft eftirsjá, líkt og að drekkja sorgum sínum í bjórglasi. Freistingar eru eitthvað sem allir berjast við allan daginn. Fyrsti bardaginn hefst um leið og augun opnast á morgnana áður en maður veit hvorki í þennan heim né annan, maður freistast til að snooza og er strax kominn eitt núll undir. Fer fastandi í vinnuna. Svo er restin bara eins og að hlaupa maraþon samferða hop on - hop off strætó. Ekki borða óhollt, ekki kaupa einhvern óþarfa, ekki skrópa í ræktinni, ekki snappa og keyra, ekki fresta verkefnum sem taka minna en tvær mínútur, ekki vaka frameftir í tölvunni, ekki drekka og dópa, ekki ljúga, ekki stela, ekki girnast konu náungans og svo framvegis og svo framvegis. Muna bara að ánægjan sem hlýst af því að neita sér um hlutinn er meiri en ánægjan sem fæst af því að veita sér hann, að hætti Epikúrs. Og dagarnir líða og maður freistast og freistast ekki á víxl.
Ég sé mig stundum í hyllingum í framtíðinni þegar góða lífið er loksins byrjað. Ég er í hvítri hörskyrtu sem flagsast í hlýjum blænum. Áhyggjulaus og úthvíld með svona þroskað tilfreds-bros en líka reynslu í augnaráðinu.En af hverju erum við að basla við að neita okkur um munúðlegar nautnir daginn inn og út? Það hlýtur að vera einhver gulrót. Með því að standast allar hinar hversdagslegu freistingar erum við að láta undan hinni stóru freistingu; Við erum að freista þess að öðlast góða lífið. Ég sé mig stundum í hyllingum í framtíðinni þegar góða lífið er loksins byrjað. Ég er í hvítri hörskyrtu sem flagsast í hlýjum blænum. Áhyggjulaus og úthvíld með svona þroskað tilfreds-bros en líka reynslu í augnaráðinu. Ég stend í garðinum mínum, það er auðvitað sól og ég horfi á börnin mín leika við hundinn meðan ég drekk te. Bíddu, hvað heyri ég? Eru börnin að tala ensku? Þetta er ekki mitt líf! Þetta er draumsýn einhvers annars. Aha. Þetta er sena úr „burt með frjókornaofnæmið og njóttu lífsins áhyggjulaus“-auglýsingu. Draumsýn mín er eftirmynd auglýsingar! Á hinn bóginn er auglýsingin alls ekki eftirmynd raunveruleikans.
Flest viljum við vera heilbrigð og hamingjusöm. Margir þrá að framlengja æskuna, því æskan er svo falleg. Iðunnareplið er örugglega ein öflugasta viðskiptahugmynd allra tíma. Eða sem sagt platónskar eftirmyndir þess í formi allslags yngingarmeðala og smyrsla. Og hugurinn ber mann hálfa leið sem er miklu meira en nóg til að selja t.d. eitt Sensei-augnkrem á 48.499 krónur. Það er grundvallarmisskilningur í gangi sem ég verandi ung kona alin upp í neyslusamfélagi hef ekki farið halloka af. Og hann teygir rætur sínar djúpt, lengst aftur í barnæsku, alveg bara Barbie-djúpt. Hann er sá að, sko, fegurð veiti manni hamingju. Þetta er rangt. Búmm, ég veit, sjokkerandi. Auðvitað veit ég þetta en undirmeðvitundin er menguð af auglýsingaflóðinu.
Það sem mörgum finnst vanta í góða lífið er meiri tími. Að hafa meiri tíma til að sinna áhugamálum, verja tíma með fjölskyldu og vinum og ná átta tíma svefni. Stara á vegg annað slagið. Til að spara tíma viljum við minni vinnu og einfalda lífið. Viðskiptahugmynd? Það er eiginlega understatement. Tími er peningar en það er tímaskortur svo sannarlega líka. Tímaskortur hefur í rauninni hannað iðn– og tæknibyltinguna. Prentvélar, bílar, saumavélar, flugvélar, símar, traktorar, ryksugur, færibönd, hraðsuðukatlar, borvélar, hárþurrkur, fræsarar, internetið og Siri. Allt var þetta fundið upp til að spara tíma. Við höfum meira að segja tímasparandi makaleitarapp til að einfalda valið á lífsförunaut. Valið sko.
Enginn hefur tíma til að velja hvað hann vill. Og gettu hvað. Þetta er auðvitað bisness hugmynd. Einhver sniðugur frumkvöðull kom auga á þetta fyrir löngu síðan.Enginn hefur tíma til að velja hvað hann vill. Og gettu hvað. Þetta er auðvitað bisness hugmynd. Einhver sniðugur frumkvöðull kom auga á þetta fyrir löngu síðan. Ég veit eiginlega ekki hvernig þetta gerðist en nú virðist vera búið að úthluta öllum persónulegum innkauparáðgjafa, öllum að kostnaðarlausu. Minn þekkir mig inn og út og er alltaf til þjónustu reiðubúinn, hvar og hvenær sem er. Hann veit til dæmis að ég er barnlaus og veit að ég hef ekkert að gera við barnavörur. Hann veit hvað ég er hrifin af svona ilmdótaríi í íbúðina. Hann veit hvað ég vil horfa á næst á Youtube. Hann þekkir tónlistarsmekkinn minn eins og handarbakið á sér. Hann sýnir mér oft sniðugar snyrtivörur til að kaupa sem ég hefði bara aldrei fundið annars. Hann veit meira að segja nafnið á uppáhaldssjampóinu mínu. Þetta veit hann, þessi elska. Og ekki nóg með það, heldur veit hann alltaf hvar ég er stödd og man það jafnvel aftur í tímann. Ótrúlegur. Það vakti að vísu smá óhug þegar ég komst að því að hann skráir hvert fótmál mitt hjá sér. En ég meina, hann er auðvitað bara að reyna sitt besta til að reyna að kynnast mér betur svo hann geti þjónað mér betur. Oft finnst mér hann þekkja mig betur en ég sjálf jafnvel. Ég væri í raun ekki ég, án hans. Ég er að sjálfsögðu að vísa til hins alltumlykjandi og alvitra algóritma. Já, ég veit ekki hvar ég væri án hans. Hann sér um að leiðbeina mér hvað ég á að velja og vilja, miðað við aldur, kyn, staðsetningu og klikk. Takk elskan.
Textaverkið eftir Jenny Holzer frá 1982, hefur líklega aldrei átt betur við en nú þegar freistingarnar beinlínis elta mann uppi. Hinn alltumlykjandi algóritmi veit hvað þú vilt, hann valdi það jú fyrir þig, hann veit hvenær þú vilt það, hann þekkir drauma þína og þrár, hann veit hvað þú óttast mest, hann veit hvar þú átt heima og hvar þú hefur verið, hann eltir þig uppi og hann mun finna þig þar sem þú situr með tómt augnaráð við tölvuskjáinn. Frí heimsending, samdægurs. Mamma mía. Mammon minn. Guð á himnum, hjálpi mér, eigi leið þú oss í freistni, verndaðu mig fyrir því sem mig langar í, plís. Ég er að reyna að spara fyrir íbúð. Og kannski svona hvítri hörskyrtu.