Ég vil meina að ég sé fullorðin manneskja. Nýorðin 23 ára gömul sem er þónokkuð alvöru aldur og ágætis viðmið um að vita svona um það bil hvernig manneskja maður sé, hvort maður fíli ólífur, hvort maður sé meira hægrisinnaður eða vinstra megin í lífinu, og þess háttar. Það er samt ekki þar með sagt að þó að manni líði eins og maður geti tekið sínar eigin ákvarðanir að maður sé fullorðinn yfir höfuð. Til að mynda var ég mun öruggari með stöðu mína sem fullorðin manneskja þegar ég var 16 ára og ótrúlega vitlaus en núna, 23 ára og aðeins minna vitlaus.
Þó eru ákveðnir atburðir sem ég get punktað niður sem höfðu áhrif á það að mér finnst ég í raun vera orðin fullorðin. Það fyrsta átti sér stað þegar ég flutti að heiman í alvörunni, en það tók tvær tilraunir til. Ég entist í litla herberginu sem ég leigði á himinháu verði rétt hjá Háskólanum í tæpan mánuð áður en ég uppgötvaði að eitt herbergi með aðgangi að eldhúsi og salerni var nákvæmlega sami díll og ég hafði heima. Nema hvað að þar þurfti ég ekki að borga baun. Og eins pirrandi og mér fannst foreldrar mínir vera þá var ég ekki reiðubúin að borga meirihlutann af laununum mínum til að fá að sleppa því að hlusta á nöldrið í þeim.
Þegar ég útskrifaðist með BS í sálfræði ýttist ég enn lengra frá vampíruskáldsögum og playmo-köllum að skattskýrslum og innkaupalistum. Yfir helgi fannst mér ég hafa áorkað einhverju mikilvægu sem ég gæti nýtt mér til framdráttar, sem er það sem skóli á að gera. Námið sjálft var þrjú ár en aldrei hafði mér liðið eins og það hefði gert eitthvert gagn fyrr en ég fékk staðfestingu á því að það væri búið.
Þegar þig fer að hlakka til að fara í Rúmfatalagerinn er barnæska þín formlega dauð.Síðasta merki um þroska minn kom svo eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar ég fór að hafa áhuga á búsáhöldum og innréttingum. Ég sem hafði aldrei svo mikið sem flett í gegnum Hús og híbýli gat ekki lagt blaðið frá mér. Ég froðufelldi yfir útsölum í Húsgagnahöllinni og las mér til um dönsk bómullarrúmföt eins og ég væri að undirbúa mig fyrir jólapróf. Innkaup urðu líka miklu meira spennandi. Þegar þig fer að hlakka til að fara í Rúmfatalagerinn er barnæska þín formlega dauð.
Ég kom því heim einn daginn hlaðin nýjum vörum sem áttu að kóróna þroska minn og smekk. Þegar ég var búin að skipta á rúminu og stilla upp fyrsta parinu af ofnhönskum sem ég hafði nokkurn tímann keypt (hingað til hafði ég tekið frosnu pizzurnar út úr ofninum með handklæði) læddist raunveruleikinn aftur inn í líf mitt. Það er rosalega gaman að leika sér í mömmó, en reikningarnir eru ekki þykjustu. Ungt fólk sem er að taka sín fyrstu skref inn á fasteignamarkaðinn er nefnilega ekki í svo góðri stöðu þegar kemur að þeim hluta fullorðinsáranna.
Ég er svo heppin að búa ennþá á stúdentagörðunum. En hvað svo? Einhvern tímann verð ég víst að fara út á vinnumarkaðinn, leigja eða kaupa fasteign ellegar gerast eilífðarstúdent og safna háskólagráðum eins og frímerkjum. Hey, pabbi er með fimm þannig og ég sé ekkert athugavert við að bæta aðeins við mig.
Ég er byrjuð að spara en biturðin yfir öllum þeim sumarlaunum unglingsáranna sem ég sóaði í föt og utanlandsferðir er erfitt að kyngja. Mér finnst líka eins og mín kynslóð sé ekki nógu vel upplýst hvað varðar húsnæðismál því allar fréttir sem við lesum stangast hver á við aðra. Ísland er á sama tíma dýrasta land í veröldinni og frábærasta land til að búa á. Kaupmáttur hefur aukist milli ára og staðan á klakanum á ekki að hafa verið betri síðan 2007. Og svo les maður aðra frétt sem ber saman kostnað við húsnæðislán á Íslandi við aðrar norðurlandaþjóðir og maður missir kjálkann niður í gólf.
Iðulega er fasteignamat milljónum króna lægra en verðið sem eignir eru seldar á og það er svo mikil eftirspurn að hrottalegustu kjallaraholur seljast á fúlgur fjár. Þetta er ömurlegt ástand sem við eigum ekki skilið. Það er ekki sanngjarnt að ætlast þess að fólk komið á þrítugsaldurinn með háskólapróf þurfi að sætta sig við örsmáar íbúðir sem það hefur ekki efni á nema með aðstoð herbergisfélaga fundnum á blandinu. Vissulega er hægt að safna fyrir útborgun á íbúð, en það er óþarflega erfitt um þessar mundir. Við Íslendingar erum alltaf svo stolt af okkur þegar lífið er erfitt. Eins og við eigum að vera þakklát fyrir hvað það stendur margt í vegi okkar því ef okkur tekst að komast yfir hindranirnar yrðum við svo miklu ánægðari.
Jújú við verðum nú að leggja okkur fram og vinna okkur inn fyrir hlutunum en mér finnst hlutföllin hafa orðið soldið skekkt, en ekki get ég talist hlutlaus dómari. Kannski er það þessi þráhyggja í allt fína og flotta dótið að gera út af við mann líka. Þarf ég í alvörunni þessar gólfmottur og þetta rúmteppi? Er ekki bara allt í lagi að stofan mín sé sett saman úr gömlum sófum sem fjölskyldumeðlimir gáfu mér þegar ég flutti að heiman og ofboðslega ljótu stofuborði úr Góða hirðinum sem í ljótleika sínum er bara svakalega sjarmerandi? Af hverju langar mig að kaupa dót yfir höfuð? Langvarandi hamingja finnst ekki á H&M-útsölum.
Ég skil ekki þegar þessi umræða ber á góma af hverju eldri kynslóðin stekkur strax í Þegarégvaráþínumaldri ræðuna.Nýtnin hrekkur samt skammt. Ég vil meina að heimili fyrir okkur unga fólkið séu of dýr og of lítið af þeim í boði. Ég skil ekki þegar þessi umræða ber á góma af hverju eldri kynslóðin stekkur strax í Þegarégvaráþínumaldri ræðuna. Já, var lífið rosalega erfitt fyrir þig þegar þú varst á mínum aldri? Og vegna þess að lífið var rosalega erfitt fyrir þig á það þá að vera rosalega erfitt fyrir alla aðra um aldur og ævi? Árið 1874 var örugglega mjög erfitt á Íslandi, mig langar samt ekkert að barnabörnin mín þurfi að ganga í gegnum sult og að tæpur helmingur afkvæma þeirra deyi úr kvefi. Það að hlutir verði smátt og smátt betri með tímanum er gott. Komandi kynslóðir eiga að búa við betri kjör en við fengum, þannig virka framfarir og þróun.
Ég verð alveg örugglega rosalega stolt af mér ef mér tekst að safna fyrir 20-25 milljón króna íbúð á næstu árum. En ég yrði miklu stoltari af þessu samfélagi ef það sæi nógu vel um þegna sína að það að kaupa sína fyrstu íbúð væri ekki þessi þrekraun. En þangað til það gerist held ég bara áfram að leika mér í mömmó, að spara þykjustupeninginn minn sem ég á ekki.