Ef höfuðið mitt væri ekki fast við búkinn myndi ég að öllum líkindum týna því. Gleyma því niðri í þvottahúsinu á Stúdentagörðunum, eða í Eymundsson á Austurstræti innan um skáldsögurnar og sjálfshjálparbækurnar. Bara fyrr í dag áttaði ég mig á því að ég hafði ruglast á dagsetningum upprennandi ferðalags og var búin að plana að fara út á flugvöll daginn eftir skipulagða brottför. Það er ekki í fyrsta sinn sem slíkt gerist. Fyrir nokkrum árum hafði ég bókað flug til Írlands og þaðan til Wales, en bókaði óvart flugið frá Írlandi til Wales mánuði fyrir flugið frá Íslandi til Írlands. Það var því í algjöru kvíðakasti og skömm sem ég sat með símann minn í hendinni sem pípti þar sem SMS eftir SMS flæddi inn: „Miss Gudnadottir, your flight is about to board.“ Voða lítið sem ég gat gert í því svona hinum megin við Atlantshafið.
Ég fer út í búð til að kaupa tannkrem og kem heim með fjórtán hluti, enginn þeirra tannkrem. Ég skipulegg matarboð og bíóferðir með mismunandi vinum á nákvæmlega sama tíma og enda svo bara heima hjá mér undir sæng þegar ég átta mig á því að ég á að vera á tveimur stöðum í einu. Samt á ég endalaust af dagbókum og listum, með áminningar í síma og gegnum tölvupóst. Ég gleymi bara að kíkja á allar áminningarnar mínar, og þá gleymi ég að gera það sem ég á að gera.
Stundum vildi ég óska þess að ég gæti breytt persónuleikanum mínum. Sent inn beiðni um endurskoðun hjá kvörtunardeild hönnunarsviðs mannkynsins. „Já, hérna, fyrirgefið, ég sé hér að ég er með gríðarlega hvatvísi en á sama tíma ofsalega hrædd við afleiðingar... ég held að einhver misskilingur hafi átt sér stað þar sem þessi tvö einkenni fúnkera ekkert sérstaklega vel saman.“ Svo myndi umsókn minni verða hafnað skriflega í bréfi sem póstlagt hefði verið til mín en kæmi þremur mánuðum of seint því nafnið mitt væri stafsett vitlaust.
Hvað sem því líður þá held ég að maður hafi alltaf færi á að slípa vankanta sína aðeins til, með vinnu og þolinmæði. Ég er léleg að muna nöfn, andlit, staði, gjörðir, viðburði og aðrar upplýsingar. Ég veit að ég er léleg í því svo ég geri mitt besta til að leggja það á minnið. Ætti kannski bara að skrifa þetta allt saman niður. Hlutir sem ég á að vita, bls.1: fullt nafn bestu vinkonu minnar, heimanám morgundagsins, afmælisdagar allra systkina minna (hey þau eru sex, það er ekkert auðvelt).
En svo eru aðrir hlutir sem maður getur ekki breytt. Lykillinn felst í því að sjá muninn þar á milli. Allir geta reynt að vera kurteisari í umferðinni eða læra að meta hryllingsmyndir, bara smá æfing. En ef þú hatar fólk og vilt helst eyða föstudagskvöldum með sjálfum þér og púsluspilum ættirðu kannski ekki að gerast skemmtanastjóri eða vinna á leikskóla. En hver veit, kannski gætirðu farið á Dale Carnegie-námskeið og orðið brjálæðislega félagslyndur.
Ég er alltaf að reyna að breyta sjálfri mér í eitthvað annað. Eitthvað sem ég held að fólk myndi frekar kunna við. Ég geri þetta vegna þess að ég veit ekki hver ég er eða hvað ég á að gera, bæði svona dagsdaglega og í lífinu almennt.Ég veit ekkert hvar þessi lína er. Ég er alltaf að reyna að breyta sjálfri mér í eitthvað annað. Eitthvað sem ég held að fólk myndi frekar kunna við. Ég geri þetta vegna þess að ég veit ekki hver ég er eða hvað ég á að gera, bæði svona dagsdaglega og í lífinu almennt. Nú er ég í meistaranámi í ritlist. Ég vona að það gangi vel og sé mér gagnlegt. Ég er alltaf jafn kjánaleg þegar fólk spyr mig hvað ég sé að gera í lífinu, „Já, ég er í meistaranámi í HÍ,“ og svo bæti ég við, „í ritlist“. Eins og það sé ekki alvöru nám. Einhvers konar minnimáttarkennd gagnvart hörðu vísindunum blundar ennþá í mér. Ef ég hefði farið í verkfræði eða lögfræði væri ég þá stoltari af sjálfri mér?
Get ég gert bæði? Mig langar kannski ekkert í lögfræði en akkúrat núna hljómar kynjafræði rosalega spennó. Eða dýralækningar. Ég virðist vera föst í þeirri hugsun að ég verði að finna út úr þessu núna, helst í gær. 23 ára ætti ég að vera komin með allt á hreint, 5 ára plan og staðfastan áfangastað í huga. Svo er það líka þessi ýkn (mín tillaga að nafnorði út frá lýsingarorðinu ýktur. Af því ýkjur er eitthvað sem þú segir, nokkurs konar lygar. Ýkn er meira tilhneiging eða hugsanaháttur).
Allavega, ýkn mín felst í því hvað ég sannfærist oft um að annað hvort fari maður inn um hurð A eða B. Það má ekki skipta um skoðun og það eru engar aðrar hurðir í boði. Annað hvort piprarðu og ferðast til framandi staða, alein og öllum óháð, safnar skotglösum og notuðum gleraugum og átt fimmtán ketti... Eða þú giftist og flytur í úthverfi Kópavogs, færð þér áskrift að stöð tvö sport, átt jeppling, 2,5 börn og stundar kynlíf á þriggja mánaða fresti.
Það hlýtur að vera eitthvað annað í boði. Sambland af báðu. Fjórir kettir, íbúð í Hafnarfirði, eitt barn, eiginkona og sumarfrí í Finnlandi á næsta leyti. Þarf það sem ég er að gera núna að endurspegla það sem ég mun gera þegar ég er fimmtug? Eða bara eftir tvö ár? Hversu margt má breytast á hversu skömmum tíma án þess að fólk haldi að þú sért geðveik? Hversu oft má maður skipta um skoðun áður en fólk hættir að taka mark á manni? Mér finnst voða leiðinlegt að vera svona týnd. Ég væri alveg til í að vita alveg upp á hár hvað mér er ætlað að gera. Eitthvert verkefni sem ég brenn fyrir á hverjum morgni er ég vakna; fara með hringinn í Mordor, hefna dauða föður míns (ekki deyða pabba minn, hann er kúl gaur og það er gaman að chilla með honum). En þið fattið hvað ég meina. Veit einhver hvað hann er að gera? Hvað hann á að vera að gera? Eða erum við öll fálmandi í myrkrinu í leit að hinum eina sanna ljósrofa sem er svo kannski ekki einu sinni til?
Góður vinur minn gaf mér eitt sinn það ráð þegar ég datt í þessa rullu enn eina ferðina að ég ætti bara að gera það sem veitir mér hamingju þangað til það hættir að þjóna þeim tilgangi. Og þá ætti ég að gera eitthvað annað. Ég held að það sé ágætis hugmyndafræði til að lifa eftir. Sum okkar feta beinu brautina, önnur ekki. Bæði er í boði. Bæði má. Annað má líka. Blanda af báðu. Hvorugt. Það skiptir í raun ekki máli hvað maður gerir eða hvenær maður gerir það eða hvernig maður komst þangað. Bara að maður njóti þess, stefni að eigin markmiðum og lifi fyrir sig sjálfan og engan annan. Það getur þýtt hvað sem er; gleraugnasöfnun, kalkúnaræktun, Ólympíukeppnisferðir, lopapeysuprjón eða lögfræði. You do you, eða á góðri íslensku; gjör þú þig.