Þeir sem þekkja mig vita að ég er ekki djamm-týpan. Í raun er félagsfærni mín ekkert hátt fyrir ofan frostmark og ég á það til að segja annað hvort rangan hlut eða réttan hlut á rangan hátt. Nei, ég er ekki pían sem er smooth. Taktíkin mín er meira svona harkan sex og vona það besta. Eins og að grafa upp steingerving með hamri. Vinkona mín varð eitt sinn vitni að því þegar ég sullaði niður bjórnum hjá strák á Lebowski, baðst afsökunar, gaf honum sopa af vodkanum mínum og spurði hann svo hvort hann vildi fara í sleik. Mér finnst þetta bara góð og gild aðferð til að eiga samskipti við fólk. Bara segja það sem þú meinar og meina það sem þú segir.
Kaldhæðni hefur heldur aldrei verið mín sterka hlið, ég er rosa góð að gera grín að sjálfri mér og skrifa íronískan texta en þegar fólk talar við mig á ég það til að taka öllu bókstaflega. Í fyrsta skipti sem einhver spurði mig hvort ég ætlaði ekki að fá mér eðlu með snakkinu mínu sagði ég: „Nei, takk. Ég er grænmetisæta,“ og hugsaði með mér hvar í ósköpunum viðkomandi hefði fengið skriðdýr til mateldis á Íslandi.
Í fyrsta skipti sem einhver spurði mig hvort ég ætlaði ekki að fá mér eðlu með snakkinu mínu sagði ég: „Nei, takk. Ég er grænmetisæta.“Lífið á það nefnilega til að verða eilítið erfiðara ef maður áttar sig ekki á tvíræðni og fylgir ekki óskrifuðum reglum samfélagsins. Sérstaklega þegar kemur að deitmenningu. Maður á víst ekki að double-texta, ekki svara skilaboðum nema eftir að minnsta kosti þrjár klukkustundir og alls ekki hringja daginn eftir hook-up ef þú vilt að það verði eitthvað. Hver samdi eiginlega þessar reglur? Af hverju er kúl að vera áhugalaus? Ég held að þetta snúist um völd. Sá aðili í sambandi sem er hvað mest sama hefur völdin. Ég fíla ekki svoleiðis. Ef fólk hefur áhuga á það að sýna það, það er miklu meira hugrekki og þor falið í því að vera opinn um hvað maður vill en að þykjast spila það svalt (íslenska útgáfan af playing it cool, hver segir svo að íslenskt slangur sé ekki tótalí osom).
Ef ég er í einhvers konar sambandi með þér, óháð því út á hvað það samband gengur, þá er mér aldrei sama. Mig langar að vita hver uppáhalds liturinn þinn er, hver áhugamál þín eru og hvort þú fílar ketti fram yfir hunda (svarið er bæði, en ef þú fílar fiska eða fugla þá ertu rugludallur. Nagdýr eru wild card – ef þú átt kanínu ertu örugglega frekar kúl en fjórtan hamstrar og þú átt líklegast við vandamál að stríða. Ef þú átt skriðdýr þá geri ég ráð fyrir því að þú sért norn og vil að þú kennir mér að leggja álög á fólk). Ég mun samt örugglega ekki muna neitt af því sem þú segir því eins og hefur áður komið fram man ég ekki nöfn, staðarheiti, andlit, dagsetningar og aðrar eðlilegar upplýsingar. Bara í fyrradag var ég á leiðinni í ræktina þegar ég rakst á frænku mína sem minnti mig á að það var fjölskylduafmæli í gangi. Ég mætti bara. Í ræktargallanum. Ómáluð. Hammó með ammó. Ég kom ekki með gjöf.
Félagslíf er bara svo flókið fyrirbæri. Mér líður eins og í grunnskóla hafi allir fengið handbók um mannleg samskipti en ég hafi verið veik þann dag og misst af prógramminu. Eða inni á bókasafni að lesa mér til um spendýr. Ég var örugglega í röndóttri peysu líka, girt ofan í buxur og með hárið í tagli. I‘m sexy and I know it. Það er alveg frekar pirrandi að þetta look er að verða töff í dag – svona „þetta er svo lúðalegt að það er kúl“ look. Allavega samkvæmt því sem ég les á alnetinu er það voða in núna. Svaka hipster.
Ég held ég sé níræð í anda. Það fer í taugarnar á mér þegar fólk hendir ekki rusli í ruslatunnur og ef það er partí langt fram eftir nóttu. Þegar allir voru að farast úr spenningi yfir Októberfest skrifaði ég hjá mér minnismiða: Muna að kaupa eyrnatappa. Októberfest var líka í september. Fannst engum öðrum en mér það vera pirrandi? Má svona bara?
„Hæhæ! Ég ætla að bjóða öllum í sumarpartí hjá mér einhvern tímann um miðjan júlí, kemurðu ekki alveg örugglega?“
„Jújú, hvað er þemað?“
„Jólin.“
Þetta djamm sko. Við Íslendingar erum rosalega spes þegar kemur að djamminu. Það byrjar ekkert fyrr en eftir miðnætti. Ég held við séum eina þjóðin, eða allavega ein af þeim fáu, sem fokka reglulega sólarhringnum okkar upp svona svakalega einungis til gamans. Happy hour er bara ekki dæmi sem gengur upp hérna. Kokteilar klukkan fimm? Nei það virkar ekki. Ekki nema þú ætlir að vera gjörsamlega á eyrnasneplunum uppúr tíu.
En í alvöru talað, væri ekki skynsamlegra að fá sér nokkra drykki einmitt á happy hour, fara svo á einhvern skemmtistað og dansa til svona níu, fá sér falafel á Mandi og upp í ból fyrir miðnætti. Þá er morgundagurinn ekki ónýtur. En hvar ætti maður svosem að dansa? Ekki eins og barirnir séu vel undir það búnir. Allt saman lítil timburhús, ekkert fatahengi, alltaf röð á klósettið, áfengið verðlagt eins og sjaldgæfir málmar, ógeðslega heitt inni og ógeðslega kalt úti, angar allt af sígarettureyk og svita. Sjáið ekki hvað ég er jákvæð og bjartsýn og yndisleg?
Svarið við þessu öllu saman er náttúrulega að sumir fíla eitt og aðrir annað. Það er alveg hægt að dansa á Íslandi – kíkið bara á dansogkultur.is. Að sama skapi er hægt að fara á alla bari um leið og þeir opna og hafa það bara kósí með vinum sínum. Það þarf kannski oggu poggu hugrekki að stökkva inn á tómt dansgólf en ef það er enginn á staðnum sér enginn að þú dansar eins og fífl hvort eð er. Svo eru prjónaklúbbar út um allt, tungumálaskólar, matreiðslunámskeið, áhugamanna leikfélög og fuglaskoðunarhópar. Félagslíf á ekki bara að þýða áfengi og skemmtistaðir. Ég er loksins komin yfir þann hjalla að dæma sjálfa mig fyrir að vilja ekki djamma. Mig langar bara að gera eitthvað annað, kojufyllerí mínus áfengi plús Disney myndir t.d.
En að sjálfsögðu geturðu líka bara tekið daginn eftir frá fyrir dekur og þynnku, lagt þig eftir vinnu og mætt eiturhress uppúr eitt, djammað af þér hælaskóna og tekið leigubíl heim þegar fólk er að vakna. Mér finnst svoleiðis algjörlega fáránlegt, en ef þú fílar það ætla ég ekki að stoppa þig. Fólkið á Októberfest skemmti sér örugglega konunglega, og ég svaf eins og steinn með tappana í eyrunum. Öll dýrin í skóginum eiga nefnilega að vera vinir, bæði teitisgeiturnar og ellinöðrurnar (Teitisgeit er íslenska þýðingin af party animal, lögð til af snillingnum henni Rebekku Ötlu. (Ellinöðrur er gamalt fólk sem ferðast milli staða á skellinöðrum því það getur ekki gengið lengur). Íslenska er bara svaðalegasta tungumál veraldar).