Kærastinn minn vinnur á tveimur stöðum, sem báðir lúta að þjónustu fólks með fatlanir. Vinnan er krefjandi og mikilvæg en ég öfunda hann stundum af því að geta skilið vinnuna eftir í vinnunni. Við höfum ekki verið lengi saman, svo ég er enn að fá spurningar um hann frá kunningjum og fjarskyldari ættingjum sem vilja vita ýmislegt um hann, sem eðlilegt er. Þá er að sjálfsögðu spurt: „Já og hvað gerir hann?“
Þegar í ljós kemur að þessi ungi maður í blóma lífsins vinni á dagvistun fyrir fólk með fatlanir, er iðulega spurt hvort hann ætli ekki aftur í skóla, klára eitthvað nám - og fá „betri“ vinnu; hvort þetta sé ekki agalega illa borgað og hvort þetta sé ekki baaaara tímabundið. Ætlar hann í alvöru að vinna við þetta? Honum líkar þetta stórvel, að öllu leyti nema þegar launaumslagið læðist inn um lúguna. Það virðist koma einhverjum í opna skjöldu að hann nýti þolinmæðina í „þetta starf“ en ekki í nám; að hann nýti félagsþroskann í að gefa af sér en ekki spila einhvern grautfúlan skrifstofupólitíkurleik; að hann noti krafta sína í að lyfta fólki í alls kyns tæki og aðstoða við dagsins amstur en ekki bara að p(r)umpa í World Class eftir kyrrsetuvinnu.
Virðingu gagnvart fólki í umönnunarstörfum er ábótavant - ekki bara hvað varðar að fólki finnst allt of mikið í manninn minn spunnið til að vinna „svona vinnu“, heldur í því sem við notum því miður of oft sem mælistiku: Peningum. Launin eru ákveðið grín, miðað við þá ábyrgð sem er hvílir á honum í vinnunni. Hann er í 100% starfi og ber ábyrgð á fólki, en þarf að vera í aukavinnu, kvöld- og helgarvöktum í annari vinnu. Þrátt fyrir að taka 14 tíma vinnudaga tvisvar til þrisvar í viku er hann tekjulægri einstaklingurinn í sambandinu. Sem betur fer er hann ekki jafnkrumpaður og fyrri menn sem hafa farið í mínus yfir því að ég sé tekjuhærri. Peningar innan sambandsins fara í sömu hlutina eins og leigu, mat, dund og dútl, svo þetta jafnar sig allt út á endanum.
Aðrir halla þó undir flatt og segja „Æjjjj hvað hann er góður“. Vissulega er hann góður, en ég efast um að konur í umönnunarstörfum fái þessi viðbrögð. Ekki verður góðmennskan í askana látin, og nú er svo komið að þeir alla tekjulægstu er einmitt þetta „góða fólk“.Kærastinn minn getur ekki skroppið frá í lengri hádegismat þó einhver eigi afmæli eða farið fyrr heim á föstudegi. Að bifast í að sækja um nýtt vegabréf á vinnutíma er púsl sem við erum að reyna að koma í gang. Að kíkja til tannlæknis? Já nei hahaha.
Önnur störf sem eru gefandi en bindandi, kvennastörf og láglaunastörf lúta að því að hlúa að, kenna, mennta og skemmta börnum. Það er mannekla í leikskólum og frístundaheimilum, svo ekki komast öll börn að. Mér líður stundum eins og þeir sem taki ákvarðanir og hafi völd til að breyta hlutunum þurfi ekki á þessari þjónustu að halda. Þeir komast frá vinnu, geta farið snemma heim á föstudegi eða komið bara eftir hádegi á morgun - „Það er eitthvað leikskólavesen“. Einhverjar deildir eru lokaðar einn dag í viku og það eru ekki allir foreldrar hentugri vinnu þegar manneklan lamar kisudeild. Sérstaklega er það fólk sem vinnur á kisudeildum annars staðar sem einfaldlega kemst ekki frá.
En af hverju stafar þessi mannekla? Menntakröfur leikskólakennara voru hækkaðar, námið lengt án þess að það hefði í för með sér sanngjarna launahækkun. Samkvæmt Kristínu Dýrfjörð sem hefur skrifað mikið um leikskólamál eiga leikskólakennarar í mikilli hættu á að brenna út í starfi vegna álagsins. Eitt af því sem hún tilgreinir sem hluta af álagi er einmitt virðingarleysi:
„Það vantar líka oft upp á skilning menntamálayfirvalda á því um hvað starfið okkar snýst og hvernig börn læra og þroskast. Mér finnst leikskólakennarar stöðugt þurfa að vera í harðri varnarstöðu fyrir frjálsan leik sem mikilvægustu námsleiðina.“
Kristín heldur áfram og talar um bindingu:
„Lítill sveigjanleiki vinnutíma, aukið álag vegna ónógrar afleysingar, löng viðvera.“
„Vinnudagurinn of langur. Ein pása yfir daginn.“
„Vantar veikindaafleysingu. Vantar undirbúningsafleysingu.“
„Of mörg börn á deildum og í hópum. Vantar pásur til þess að ná að anda.“
(Tekið af laupur.is)
Ég starfaði einu sinni á frístundaheimili, tvisvar til þrisvar í viku því ég hafði heyrt að það væri fínt með háskólanámi. Það var vissulega ótrúlega gaman og gefandi, ný verkefni á hverjum degi og svo ótrúlega skemmtilegt þegar vel gekk - en að sama skapi frábær getnaðarvörn. En vinna með námi? Nei, alls ekki. Ég var svo búin á því eftir hálfan dag að ég gat ekki lært um kvöldið og er ég nú enginn aumingi. Fólk sem starfar við að hlúa að öðru fólki þarf að hvíla sig á milli vinnudaga - en ekki vera neytt til að taka að sér aukavinnu því launin eru svo ó.geðs.leg.a lág.
Kunningi minn er aðstoðarmaður (kannski) fráfarandi ráðherra. Hann breiddi eitt sinn úr sér við bar eftir að hafa einmitt spurt hvað þessi nýi kærasti minn gerði og hnusaði eitthvað um hvort það væri einhver framtíð í því. Fyrirgefðu vinur, mér finnst hans aðstoðarmannastörf örlítið göfugri en þín. En það er bara ég, launaumslagið er kannski ósammála.